Mörgæsagangan 

 

Eftir kvöldmat reimaði ég á mig skóna og hélt af stað í smá göngu um Hafnfarfjörðinn. Ég var að hlusta á eitt af mínum uppáhalds podcöstum og þættinum var ein að segja frá fæðingu dóttur sinnar, það voru svo miklar tilfinningar í þessu öllu og hún grét auðvitað og hvað haldið þið að ég hafi getað hlustað á þetta ógrátandi? Sem betur fer held ég að enginn hafi séð mig hálf vælandi á gangi yfir Víðistaðatúnið.

Ég elska að ganga um Hafnarfjörðinn því maður sér alltaf eitthvað nýtt og nei ég var ekki takandi selfies alla gönguna þó að myndirnar gefi kannski annað til kynna. Ég ímynda mér stundum hvernig allt var hér fyrir ca. 100 árum og hvernig daglega lífið var. Miðað við sum húsin þá bjó hér greinilega vel stætt fólk og ég hefði sko alveg verið til í kaffibolla og rammíslenskt kaffimeðlæti í einni setustofunni.

Ég ætla að vera dugleg við að fara út að ganga og vona að ég nái að gera það út meðgönguna. Reyndar small eitthvað í mjóbakinu og ég fékk stingandi verk en það lagaðist þegar ég hægði aðeins á mér, maður er svo mikill þrumufleygur að maður á það til að gleyma sér 😉 Það rétta er samt að ég fór úr því að ganga og yfir í það að kjaga.

Jæja heyrumst.

Advertisements

Kvöldsnarl 


Ég er agalegur kvöld-snarlari og þetta hér að ofan slekkur á sykurpúkanum OG það er hollt. Þetta er vanilluskyr, chia fræ, rúsínur, nokkrar hakkaðar möndlur og frosin hindber. 

Ég las viðtal við mann um daginn sem hafði grennst mjög mikið og hann var að segja hvað hann hefði gert til að grennast. Það var auðvitað samspil ýmissa þátta en eitt sem hann gerði var að borða aldrei á kvöldin og ef hann varð svangur eftir kvöldmat þá fór hann bara að sofa. Fólk á auðvitað að gera það sem virkar fyrir það en mér fannst þetta pínu spaugilegt og píííínulítið sorglegt að fara bara að sofa kl. 21 þannig að þú eigir auðveldara með að neita þér um mat þegar þú ert svangur. En jæja, ég hef allavega ekki í hyggju að slaufa kvöldsnarlinu þannig að ef þið lumið á einhverju hollu kvöldsnarli þá megið þið endilega deila því. 
Heyrumst.

Sófar:Minotti

3aa24884a23ea769a402da7ced1ea504

ae6e1a869eafff2c891ba74c32928c73

Í gegnum tíðina hefur mér þótt erfitt að halda rauðum þræði í gegnum heimilið hvað varðar val á húsgögnum og stíliseringu (mér finnst það hljóma aðeins eðlilegra en innanhúshönnun– get ekki beint státað af einhverjum glorium í innanhúshönnun.) Mér finnst að “innanhússhönnunin þurfi alltaf að taka svolítið mið af húsinu sjálfu. Við t.d. búum í húsi sem var byggt 1970 og er í retró stíl, það passar ekki að vera með rósettur eða rómantísk húsgögn og þess vegna er ég alltaf að verða meira og meira hrifin af retró/tekk/funky stíl, þetta eru n.b. bara orð sem koma upp í hugann á mér án þess að ég viti nákvæmlega hvað ég er að tala um, haha. Ég er því að reyna að halda mér svolítið við þann stíl þó að maður geti nú ekki bara losað sig við það sem passar ekkert rosalega vel inn. Þessi sófi myndi passa dásamlega vel við heimilið en því miður þá passar verðmiðinn ekkert svakalega vel við pyngjuna. Það væri flott að hafa síðan þennan lampa frá Flos við hliðina á sófanum, þessi lampi er ekkert annað en geggjaður, s.k. “snoopy” lampi.

lampa.jpg

Jæja, heyrumst.

Carmen rúllurnar og “ég hata” listinn

Rúllurnar eru nú alls ekkert alltaf settar í um helgar en þegar ég er að fara eitthvað fínt þá finnst mér carmen rúllurnar alltaf langbestar og þær slá öllum hármótunartækjum við að mínu mati.

Ég á leið í brúðkaup og Jón Ómar á leiðinni í barnaafmæli hjá uppáhalds frænku sinni. Þetta var í raun það eina sem passaði í fataskápnum, toppurinn er kjóll og svo fór ég í pils yfir, haha… Ég fékk reyndar komment um að fötin feldu óléttuna frekar mikið, fólk hefur þá bara haldið að ég væri eitthvað uppþembd, það verður þá bara að hafa það.

Jón Ómar þennan morguninn í bíla- og peningaleik – drengurinn sem lék sér ALDREI með bíla tók allt í einu upp á því fyrir  ca. þremur vikum og nú leggur hann þá ekki frá sér.

 

***

Ég sá skemmtilegan spurningalista á netinu, kannski ekki sá jákvæðasti en ég ákvað að herma og setja hann hingað inn.

Ógeðslegasti matur sem ég hef smakkað

Svínalundir. Ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um áferðina og bragðið, eins og að borða manna-hæla.

Versta veðrið

Sól, mikið rok og ógeðslegur kuldi. Gluggaveðrið er það versta, maður heldur að það sé gott veður, fer út og klæðir sig í léttan jakka bara til að komast að því að kuldinn nístir inn að beini og rokið slær mann ítrekað utanundir.

Það sem fær mig til að fara í vont skap

Óskipulag, mörg ókláruð verkefni, óhreint heimili og dónalegt fólk.

Versta tónlistin

Íslensk fyllerístónlist, sumir elska þessa íslensku slagara sem jafnan eru teknir í útilegum og á útihátíðum. Ég HATA þá. Og svo finnst mér kántrý tónlist alveg einstaklega leiðinleg.

Versti tími sólarhringsins

Nóttin þegar ég ligg andvaka.

Versti hluturinn sem ég á

Allir smáhlutirnir sem ég tími aldrei að henda en liggja bara í skúffum í óreiðu og eru aldrei notaðir.

Það versta í fari mínu

Smámunasemi, óþolinmæði og svo á ég það til að vera of alvörugefin.

Það versta í fari annarra

Níska! Falskleiki og yfirgangur.

Á þessum góðu nótum vona ég að þið njótið þess sem eftir er af helginni. Heyrumst.

“Ég er ekki stelpa” 

Uppáhalds morgunmaturinn undanfarið, hrein ab mjólk, chia fræ, rúsínur, möndlur, mango, frosin hindber og kornfleks. 

Þegar Jón Ómar sá mig naglalakka mig þá vildi hann auðvitað líka, hann sagði samt nokkrum sinnum á meðan ég var að naglalakka hann “ég er ekki stelpa” bara svo það færi nú ekki á milli mála. Mér dettur allavega ekki í hug að segja við hann að hann megi ekki fá naglalakk eða varalit ef hann biður um það, sjáið bara hvað hann varð glaður 🙂 

Á dagskránni í dag er barnaafmæli og brúðkaup en ég ætla að henda mér í sund fljótlega og synda nokkrar ferðir. Svo er það hausverkur dagsins í hverju maður á að fara í brúðkaupið þar sem ég passa í ca. 5% af því sem er í fataskápnum, ætli ég passi ekki best í brúðarkjólinn minn 😉 

Jæja við heyrumst. 

Nýir náttborðslampar og þreytan ógurlega

Ég get eiginlega ekki lýst því hvað það er mikill munur að hafa losnað við fataskápinn úr svefnherberginu. Hugmyndina að uppröðuninni á myndunum fékk ég af myndum af hótelherbergjum í London, ég elska að fá hugmyndir með því að skoða hótelherbergi.

***

Jæja þá er það bara blessað loftljósið sem vantar inn í hjónaherbergið og þá er ég done. Náttborðslampana keypti ég um síðustu helgi í Habitat, mjög ánægð með þá. Herbergið er svona frekar stílhreint, sem er pínu ólíkt mér, en mér finnst gott að hafa svefnherbergið stílhreint og látlaust. Annars erum við mæðginin heima núna, Jón Ómar náði sér aftur í pest og hefur hóstað alla vikuna og með hita og þó að ég sé ekki veik þá er ég algjörlega búin á því líka, svo þreytt og ÞUNG á mér. Jón Ómar vakti mig í morgun hálfhlæjandi og sagði “mamma þú hraust eins og svín”, ég hugsaði já það er í takt við ástandið á mér, haha. Ég ætla nú að vona að þetta verði ekki staðan næstu 10 vikurnar – ég verð bara að hugsa betur um mataræðið svo ég verði orkumeiri og fara kannski að synda meira áður en ég breytist í bjúgaldin. Jæja þetta var kvart og kvein dagsins, ég verð jákvæðari næst.

Góða helgi.