Drauma eldhúsið

0553fc3f90f15aaef0bde8e0a1399589

Ekki að það sé á neinu plani að fara að taka eldhúsið í gegn en ég hef samt gaman af því að skoða, þetta eldhús finnst mér t.d. hrikalega smart og í stíl við húsið, svona smá retro. Mér finnst mikilvægt að reyna að halda í þann rauða retro þráð og held að ég hafi náð því svona nokkurn veginn með baðherbergið. Ég sýni ykkur fyrir og eftir myndir þaðan um helgina.

Heyrumst.

 

H&M: Exclusive baby

Ofboðslega falleg barnaföt frá H&M!

Ég er vanalega ekki hrifin af allt of skærum litum þegar kemur að ungbarnafötum og kýs helst grátt/beige og ljósbrúnt, þessi lína frá H&M gæti bara ekki verið fallegri að mínu mati, sjáið bara stuttbuxurnar! Það er verst að ég er ekki á leiðinni í H&M eða neinn sem ég gæti pínt að fara fyrir mig, eða jú, mér dettur eitt fórnarlamb í hug, haha. Je minn hvað ég er orðin spennt að fá hann í hendurnar.

Vika 31- staðan

 

Ég hafði hugsað mér að halda aðeins utan um síðustu vikur meðgöngunnar, aðallega fyrir mig en bara plús ef einhver annar hefur gaman af að lesa líka. Á laugardaginn er ég gengin 31 viku og núna finnst mér eiginlega eins og niðurtalningin sé hafin. Ég byrjaði að skrifa þetta í gær og þá varð dagurinn í dag auðvitað skelfilegur, ég hefði þurft að slá mig utan undir nokkrum sinnum og fara í kalda sturtu til að vinna bug á þreytunni sem lá yfir mér eins og mara í allan dag. Ég kom heim, lagðist upp í sófa og kveikti á krakkastöðinni fyrir Jón Ómar, alveg mamma ársins. Þessi mynd hér að ofan lýsir því alveg prýðilega stöðunni eins og hún var í dag, ég ætla að vona að dagurinn hafi verið undantekning og leyfi þess vegna því sem ég var búin að skrifa í gær að standa.

Almennt: Mér líður vel. Brjóstsviðinn kemur og fer og þessa dagana er hann bærilegur og ekkert til að kvarta yfir. Ég verð hrikalega þreytt á kvöldin, alveg stjarnfræðilega þreytt en annars er ég fín yfir daginn ef ég fæ góðan svefn (nema í dag).

Svefn: Þegar klósettferðir og ferðir fram í eldhús til að blanda mér vatn með matarsóda eru í lágmarki þá sef ég nokkuð vel. Ég get ekki sofið án þess að hafa kodda á milli lappanna og það gerir eiginlega meira gagn en snúningslakið (þó ég viti í þetta sinn hvernig eigi að nota það, ég var ekkert að klæða  mig í það eða eitthvað svoleiðis síðast). Ég sef hins vegar ekki út þannig að ég verð að passa mig að fara ekki of seint að sofa.

Hreyfingar: Hann er á fullu þarna inni og á kvöldin þegar ég leggst í rúmið bylgjast maginn á mér. Hann á það til að liggja með lappirnar út að hægri síðunni og stundum er ég orðin aum eftir öll spörkin. Fylgjan er fyrir aftan núna þannig að ég finn allar hreyfingar mikið betur en ég gerði síðast.

Líkamsrækt og mataræði: Frá 14. viku fór ég að geta stundað líkamsrækt aftur og fór að jafnaði tvisvar í ræktina í viku til að lyfta, þess á milli sem ég gekk, synti etc. Ég fór síðast í ræktina fyrir ca. viku og fannst ég þá svo þung og óliðleg að ég hef meira farið í göngutúra og í sund. Ég hugsa að það verði mín hreyfing næstu vikurnar. Hvað mataræðið varðar þá er ég nammigrís en ég reyni að halda mér innan skynsamlegra marka. Ég er ekki að borða eitthvað mikið meira nema þegar ég fer í göngutúra á kvöldin þá vakna ég með hungurverki og nánast anda að mér morgunmatnum.

Hreiðurgerð: Ekki svo mikið í því, var heldur ekki mikið í hreiðurgerð síðast. Ég er hvort eð er með pínu áráttu fyrir því að hafa hreint í kringum mig og það er ekki að breytast mikið núna. Það kemur kannski á síðustu vikunum. Mig er reyndar aðeins farið að klæja í puttana að kaupa lítil falleg og mjúk barnaföt, ég þarf einmitt að fara í gegnum HAUGANA af fötum sem við eigum síðan Jón Ómar var lítill og gefa það sem við munum ekki nota núna, áður en ég fer að kaupa eitthvað handa Svampi.

Jæja segjum þetta gott í bili, hlakka til að taka stöðuna í næstu viku.

 

Að leika sér í “pabbó”

Núna ætla ég að viðurkenna það hvað ég er íhaldssöm og gamaldags en reyna um leið að bæta mig og henda þessum hugsunum lengst út í hafsauga. Núna með nokkurra daga millibili hefur Jón Ómar sagt að honum langi svo í dúkkuvagn og dúkku og í morgun sagðist hann vilja dúkkurúm og litla sæng og kodda fyrir dúkkuna, hversu sætt? En það sem ég hugsaði fyrst var „ahhh, er það ekki eitthvað skrítið að kaupa þannig handa stráknum mínum?“ en svo auðvitað kemur hin röddin og segir mér að skammast mín. Af hverju eiga strákar ekki að geta farið í pabbó og leikið sér með dúkkur án þess að það sé talið eitthvað skrítið? Þetta er auðvitað svo bjánalegur hugsunarháttur að maður roðnar niður í tær. Ég reyni að vera ekki að ala upp í honum einhverjar fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig strákar eigi að vera og svo hvernig stelpur eigi að vera. Ég naglalakka hann ef hann vill og um daginn þá sagði ég við hann að við þyrftum nú að fara í klippingu, þá svaraði hann „annars verð ég eins og þú mamma“ og hló. Ég sagði þá við hann að strákar mættu samt alveg hafa sítt hár ef þeir vildu. Seinna þegar við töluðum aftur um þetta þá minntist hann á þetta að strákar mættu alveg hafa sítt hár (en hann vildi það samt ekki) og ég var svo stolt af honum. En þetta með leikföngin verð ég taka mig á með, ekki seinna en í gær. Mig langar helst að fara núna og kaupa þetta handa honum, en ég sagði við hann að hann ætti afmæli í næsta mánuði og hann gæti beðið um þetta í afmælisgjöf, sjáum hvað verður ofan á, dúkkudótið eða bílabrautin sem hann er líka búinn að vera að biðja um.

Hvernig er hægt að segja nei við þetta andlit?

Jón Ómar, sem veitt fátt skemmtilegra en að fara á ruslahaugana með pabba sínum og rukkar hann reglulega um það.

Hinn endalausi to-do listi

Mynd tekin úr herberginu hans Svamps seint í gærkvöldi.

***

Þá er herbergið hjá minnsta manninum loksins að verða tilbúið, búið að mála og taka út eitt stk. fataskáp þar sem við ætlum að hafa skiptiborðið og svo í framtíðinni sjáum við það fyrir okkur sem kósýhorn- börn þurfa hvort eð er ekki einhverja risastóra fataskápa. Við þurftum að parketleggja upp á nýtt og byggja við vegginn þar sem skápurinn var innbyggður þannig að þetta er búið að vera smá maus. Við vorum að tala um það í gær að ef við hefðum ekki farið út í sumar þá værum við örugglega búin að missa vitið því að við stoppum eiginlega ekki þegar við erum í fríi hér heima, það eru búnar að vera endalausar framkvæmdir á þessu ári og eiginlega stanslaust síðan í maí. Við erum orðin ansi þreytt á því að geta ekki komið heim án þess að okkar bíði alltaf einhver verkefni. Að ég tali ekki um biðina eftir iðnaðarmönnum, talandi um heila starfsstétt sem þyrfti að fara á námskeið í tímastjórnun. Ég veit að það kemur margt óvænt upp  og oft erfitt að áætla tímann í þeim verkefnum sem iðnaðarmenn eru í, en við erum að tala um að bið eftir iðnaðarmanni sem á að vera kannski 1-2 dagar verða vikur. Jæja það var gott að fá að pústa smá hérna. Ég sýni ykkur betri myndir af herberginu þegar húsgögnin verða komin og svo auðvitað af baðinu ef það verður tilbúið áður en ég fer á eftirlaun.

Hinn forboðni drykkur

Ég ætla ekkert að reyna að neita því að ég sakna þess ógurlega að geta fengið mér rauðvín eða kampavín/prosecco. Sötra á einu rauðvínsglasi á meðan maður eldar kvöldmatinn og skála í kampavíni á deiti eða  með vinkonum/systrum. Sem betur fer verður Svampur kominn í heiminn þegar jólaglöggs-tímabilið byrjar 😉 Ég veit fátt notalegra en að kveikja á kertum, góðri tónlist og setjast niður með eitt rauðvínsglas og brakandi nýja bók eða tímarit. Ég heyrði um daginn af skírn þar sem boðið var upp á skírnartertu og freyðivín, það er með betri hugmyndum sem ég hef heyrt! skírnarveislulega séð allavega… Manni finnst maður varla mega tala um vín og það að manni finnist gott að fá sér einstaka vínglas því fólk er svo fljótt að hlaupa til og segja að það sé sko vel hægt að njóta lífsins án áfengis. Það er alveg rétt en ég nýt lífsins samt aaaaðeins meira þegar ég get fengið mér gott vín af og til.

Eitt í viðbót, kampavín og freyðivín er ekki það sama eins og þið örugglega vitið. Það væri ágætt ef barir og veitingastaðir landsins byggju líka yfir þessari vitneskju og hefðu það í huga þegar þeir skrapa saman voða flottum matseðli með “kampavíni” sem er í raun bara ómerkilegt freyðivín eða selja jafnvel freyðivínsglös á kampavínsverði. Og þetta snýst ekki um snobb heldur fagmennsku, því það er mikill munur á þessu tvennu.

Jæja nóg komið af öllu tali um vín, núna ætlum við litla fjölskyldan að byrja helgina á sundferð og svo verður það pizza og bíókvöld heima á náttfötunum, ég verð væntanlega sofnuð fyrir níu.

Góða helgi.

 

KLONG

Äng vasi og Gloria kertastjakar frá Klong sem ég væri alveg til í að eignast þó að mig vanti ekki beint blómavasa né kertastjaka. Blómavasinn fæst í vefversluninni Rökkurrós en kertastjakarnir fást í Winston living.

***

Hér var vaknað kl. 04.00 og ástæðurnar voru brjóstviði, stíflað nef og hungurverkir. Nú er ég búin að borða stóóóra skál af hafragraut og gæti kannski hugsað mér að leggja mig aðeins en þá er ég hrædd um að geta ekki vaknað eftir tæpan klukkutíma…Ég vona bara að Jón Ómar vakni bráðum þannig að hann geti kúrt aðeins með mér. Jæja ég hef ekki hugmyndaflug í lengri texta svona árla morguns, heyrumst bara.