Að leika sér í “pabbó”

Núna ætla ég að viðurkenna það hvað ég er íhaldssöm og gamaldags en reyna um leið að bæta mig og henda þessum hugsunum lengst út í hafsauga. Núna með nokkurra daga millibili hefur Jón Ómar sagt að honum langi svo í dúkkuvagn og dúkku og í morgun sagðist hann vilja dúkkurúm og litla sæng og kodda fyrir dúkkuna, hversu sætt? En það sem ég hugsaði fyrst var „ahhh, er það ekki eitthvað skrítið að kaupa þannig handa stráknum mínum?“ en svo auðvitað kemur hin röddin og segir mér að skammast mín. Af hverju eiga strákar ekki að geta farið í pabbó og leikið sér með dúkkur án þess að það sé talið eitthvað skrítið? Þetta er auðvitað svo bjánalegur hugsunarháttur að maður roðnar niður í tær. Ég reyni að vera ekki að ala upp í honum einhverjar fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig strákar eigi að vera og svo hvernig stelpur eigi að vera. Ég naglalakka hann ef hann vill og um daginn þá sagði ég við hann að við þyrftum nú að fara í klippingu, þá svaraði hann „annars verð ég eins og þú mamma“ og hló. Ég sagði þá við hann að strákar mættu samt alveg hafa sítt hár ef þeir vildu. Seinna þegar við töluðum aftur um þetta þá minntist hann á þetta að strákar mættu alveg hafa sítt hár (en hann vildi það samt ekki) og ég var svo stolt af honum. En þetta með leikföngin verð ég taka mig á með, ekki seinna en í gær. Mig langar helst að fara núna og kaupa þetta handa honum, en ég sagði við hann að hann ætti afmæli í næsta mánuði og hann gæti beðið um þetta í afmælisgjöf, sjáum hvað verður ofan á, dúkkudótið eða bílabrautin sem hann er líka búinn að vera að biðja um.

Hvernig er hægt að segja nei við þetta andlit?

Jón Ómar, sem veitt fátt skemmtilegra en að fara á ruslahaugana með pabba sínum og rukkar hann reglulega um það.

Túrkís

Ég greip með mér þessi fallegu túrkislituðu kerti frá Ikea í gær og þau hressa
skemmtilega upp á Cubus kertastjakann minn, svo læt ég fylgja með eina mynd af Ikea
ljósinu mínu sem ég er alltaf jafn hrifin af. Ég sá að Ikea er komið með þetta í ljós í
gólflampaútgáfu líka, mjög flott! Ikea er greinilega að fá inn fullt af flottu nýju dóti
þannig að það er rosa gaman að fara þangað núna. Reyndar finnst mér það alltaf gaman 😉 
 
* * * 
Hér var lítill stubbur vaknaður klukkan 06.00 og það sem undirrituð hugsaði var, “hell no“, ég gaf honum og náði að láta hann sofa í klukkutíma í viðbót, það var vel þegið. Nú er hann að leggja sig aftur og ég held að ég reyni að halla mér kannski í 30 mínútur í viðbót með honum. 
Annars er ég búin að vera að fylgjast með Sky News og sprengingunni í Boston, hræðilegt alveg. Við erum heppin að búa á örugga Íslandi. Svo er ég líka að býsnast yfir öðrum mjög ómerkilegum hlutum, sem eru að veggirnir okkar eru svo illa farnir, við máluðum í september þegar við fluttum inn en þeir eru strax orðnir svartir, hlýtur að vera kertunum um að kenna? Ég lenti nefninlega einu sinni í því í vetur að eitt kertið mitt “reykti” all svakalega og ég tók alls ekki strax eftir því þannig að íbúðin var nánast öll í reyk eftir á. Ég held svei mér þá að maður bruni eina hvíta umferð yfir þá aftur, þetta er svo subbulegt. 
Ég ætla að henda mér í smá tilraunabakstur í dag með stevia sætuefni, veit reyndar ekki alveg hvað ég á að gera en ætla að prófa eitthvað sniðugt. 
Heyrumst seinna!

Næturnar

Síðan ég eignaðist lillann minn (mikið hlakka ég til að geta kallað hann nafninu sínu!) þá eru næturnar orðnar minn minnst uppáhalds tími sólarhringsins. Ég sef vanalega mjög vel og djúpt og vakna ekki einu sinni til að fara á klósettið. Ég hef sofið af mér jarðskjálfta, vegavinnumenn fyrir utan gluggann minn etc. og er mjög háð því að fá góðan svefn ef ég á að geta starfað eðlilega. Ég hef aldrei getað tekið þessa s.k. all-nightera í skólanum, ef ég ákveð það að ég ætli að gera það þá er ég vanalega farin að líta á klukkuna geispandi um ellefu leytið. Ég vil frekar vakna klukkan 6 á morgnana. En elsku barnið mitt verður svangt á næturna, oftast vaknar hann einu sinni um hánótt og svo ekkert aftur fyrr en 7 eða 8. Sumar nætur vill hann hins vegar vaka og spjalla (hann grætur sem betur fer ekki mikið). En að sitja ein um hánótt, svo þreyttur að augnlokin (og hausinn) eru allt í einu orðin 1000 kg., vitandi til þess að allir eru sofandi, allt er slökkt, það er einmanalegt. Núna vakir hann sem betur fer ekki lengi á næturnar en ef það kemur fyrir þá er ég svo glöð að geta farið fram í stofu og kveikt á sjónvarpinu, horft á CNN eða Sky News eða jafnvel Food Network, þá líður mér minna eins og það sé slökkt á heiminum og það séu fleiri vakandi með mér. Ég mæli sem sagt með því að hafa Fjölvarpið þegar maður er nýbökuð móðir.

Statusinn á mömmunni

Vissi ekki að það væri hægt að sofa svona lítið og komast í gegnum daginn. Ég hef alltaf verið með bauga undir augunum, núna eru þeir orðnir eitthvað annað og meira. Neglurnar sem voru eitt sinn fínar og vel naglalakkaðar eru eins og á karlmanni. Hárið á mér er búið að vera í sömu teygjunni í tvo daga, jú sem þýðir það að ég hef ekki farið í sturtu síðan í fyrradag. Þegar ég hugsa sturta vs. svefn þá er ég sofnuð áður en ég einu sinni hugleiði það að fara í sturtu. OG ástæðan fyrir því að ég er að blogga núna í staðinn fyrir að fara í sturtu t.d. er sú að ég er ein heima með lilla og þori ekki að fara í sturtu, ég er fröken Paranoja, en svona er ég.

Uppáhalds tími dagsins er þegar ég fæ kaffibollann minn og lillinn sefur vært. Lillinn sefur nefninlega ekki svo vært um hánótt, hann kýs að vaka til ca. 3 eða 4, það er hans prime-time, augun galopin og allir eiga að vera í brjáluðu stuði. Hann drekkur og drekkur á þeim tíma, fram að þeim tímapunkti að tepokar hafa komið í staðinn fyrir það sem einu sinni voru brjóst. En það er gott að hann drekki vel, hann vex og dafnar mjög vel litli maðurinn okkar og hann er svo fallegur og yndislegur að það er ekki hægt að pirrast mikið yfir því að fá ekki svefn, en ég skil vel að svefnleysi sé eitt helsta pyntingartólið.

Flutti ræðu í skólanum á þriðjudag og svo var málflutningur á fimmtudaginn, leyfið mér bara enn og aftur að fullyrða það að ég mæli innilega ekki með því að vera í fullu námi og nýbökuð móðir. En ég er komin þetta langt núna þannig að ég get ekki hætt við að klára þetta, ein ritgerð, eitt málflutningsverkefni, eitt stutt lokapróf og eitt munnlegt próf og ÞÁ er þetta búið. Ég viðurkenni það samt alveg að ég fæ reglulega panik köst þar sem mig langar að grenja og gefast upp en svo tek ég sjálfa mig saman í andlitinu og held áfram. Ég á sem betur fer svo góða vini í skólanum sem senda mér glósur úr þeim tímum sem ég kemst ekki í, gæti þetta eflaust ekki án þeirra.

Í gærkvöldi fékk ég mér mitt fyrsta vínglas síðan í desember í fyrra. Það var mjög gott þetta hálfa glas, en mér fannst það mjög skrítið að geta fengið mér það, eins og ég væri eitthvað að svindla. Jú og svo eitt svona yfirborðskennt í lokin, gallabuxurnar sem voru of þröngar í síðustu viku komust auðveldlega upp núna, yes!

Við biðjum að heilsa ykkur í bili!

Inni í lítilli kúlu

Það er ekki mikið um blogg þessa dagana, enda er það svo langt niðri á forgangsröðuninni um þessar mundir. Að vera mamma er ótrúlega krefjandi, því hef ég komist að á þessum 6 dögum, en það er svo ótrúlega gefandi og ég elska hverja mínútu af því. Ég er ekkert nema væmnin og tilfinningahrúgan en hvernig er annað hægt þegar maður eignast svona heilbrigt og fallegt barn, mesta blessun sem til er.

Það besta í heimi

Ég er búin að vera nokkuð dugleg að setja inn myndir á FB handa Unni systur minni sem býr í Ungverjalandi og mömmu sem er á Florida, en hér koma tvær í viðbót, það þarf varla að taka það fram að við fáum aldrei nóg af því að taka myndir af litla gullmolanum okkar. Ef við erum ekki með hann í fanginu þá er maður að skoða myndir af honum, haha… Ég held ég stofni ekki neina sérstaka síðu eins og Nino, held ég setji frekar myndir hingað inn, á eftir að melta það. Allavega þá erum við bara að kynnast hvort öðru og erum í voðalega litlu sambandi við umheiminn, njótum þess að vera saman litla fjölskyldan. Það er í alvöru ekki hægt að lýsa þeirri ást sem við finnum gagnvart syni okkar, elsku litla hjartað okkar, þetta er það merkilegasta sem maður getur upplifað og tilfinningin að fá barnið sitt í hendurnar í fyrsta skipti er ólýsanleg. 

Kv. hamingjusamasta mamma í heimi.