Á innkaupalistanum og óskalistanum

 

 

Þó maður þurfi að kaupa töluvert minna þegar maður á von á barni nr. 2 þá er nú samt ýmislegt sem vantar og manni langar í. Hér er það sem ég á eftir að kaupa eða það sem ég myndi vilja kaupa mér þó maður sé nú alls ekki að fara að kaupa þetta allt.

Nr. 1 – Ný linsa á myndavélina mína til að taka fallegar barnamyndir. Þessi linsa er á mjög góðu verði, 125 dollarar (hæ tengdó ég fæ kannski að senda hana á ykkur!). Linsan gefur flott bakgrunns-“blörr” og er góð við takmörkuð birtuskilyrði, sem sagt afar hentug í nóv-feb.

Nr. 2- Smart skiptitaska. Sumum kann að finnast það bjánalegt að ég sé eitthvað að pæla í því hvernig skiptitaskan lítur út en maður er með þetta á öxlinni í meira en ár þannig að það er eins gott að taskan sé fín, þessi frá Longchamp myndi sóma sér vel.

Nr. 3– Nýtt rimlarúm. Mig langar ekki í hvítt rúm og mig langar ekki í of dökkt rúm, þetta fallega ljósgráa rúm frá Ikea verður líklegast fyrir valinu.

Nr. 4- Brjóstagjafapúði. Púðinn sem ég notaði með Jón Ómar var ekki nógu góður þannig að mig vantar nýjan. Ég væri til í þennan sem fæst í Petit.is og líka skiptiborðsdýnuna, ég er voða hrifin af þessu mynstri.

Nr. 5- Þessi húfa er voðalega falleg, fæst í Petit.

Nr. 6, 7 og 8- Sængurverasett, órói og stuðkantur frá Konges Slöjd, fæst líka í Petit. Eins og þið sjáið þá er ég mjög hrifin af Konges slöjd og mjög hrifin af versluninni Petit.

Nr. 7 og 8 – Stuðkantur og órói frá merkinu Konges Slöjd sem fæst í Petit,

Nr. 9 – Gæru-kerrupoki, mér finnst þessir kerrupokar svo rosalega kósý. Þessi kerrupoki er frá danska merkinu Basson og kostar sláandi 45 þúsund krónur hér heima, ég ákvað að athuga hvað hann kostar í Danmörku, heilar 22 þúsund krónur!!! Það er ekki í lagi með álagninguna á sumum vörum hér heima. Þennan poka langar mig virkilega til að kaupa.

Nr. 10 – Babynest frá versluninni Petit.

Þetta er allt svolítið hvítt-grátt og ekkert blátt, aðeins ólíkt því hvernig þetta var með Jón Ómar. Talandi um Jón Ómar þá var hann svolítið áhyggjufullur við matarborðið í gær því við ættum eftir að finna nafn á litla barnið “við YRÐUM bara að fara að leita að því”… við erum reyndar næstum því búin að ákveða nafn en það er nú önnur saga. Svo sagði hann líka við mig að hann yrði svo stór þegar litli bróðir kæmi í heiminn að hann gæti byrjað að vinna eins og mamma og pabbi. Það er örugglega margt að gerjast þarna hjá honum, elskunni minni.

En jæja við heyrumst vonandi eitthvað  um helgina, bæ á meðan.

 

 

Advertisements

Vika 31- staðan

 

Ég hafði hugsað mér að halda aðeins utan um síðustu vikur meðgöngunnar, aðallega fyrir mig en bara plús ef einhver annar hefur gaman af að lesa líka. Á laugardaginn er ég gengin 31 viku og núna finnst mér eiginlega eins og niðurtalningin sé hafin. Ég byrjaði að skrifa þetta í gær og þá varð dagurinn í dag auðvitað skelfilegur, ég hefði þurft að slá mig utan undir nokkrum sinnum og fara í kalda sturtu til að vinna bug á þreytunni sem lá yfir mér eins og mara í allan dag. Ég kom heim, lagðist upp í sófa og kveikti á krakkastöðinni fyrir Jón Ómar, alveg mamma ársins. Þessi mynd hér að ofan lýsir því alveg prýðilega stöðunni eins og hún var í dag, ég ætla að vona að dagurinn hafi verið undantekning og leyfi þess vegna því sem ég var búin að skrifa í gær að standa.

Almennt: Mér líður vel. Brjóstsviðinn kemur og fer og þessa dagana er hann bærilegur og ekkert til að kvarta yfir. Ég verð hrikalega þreytt á kvöldin, alveg stjarnfræðilega þreytt en annars er ég fín yfir daginn ef ég fæ góðan svefn (nema í dag).

Svefn: Þegar klósettferðir og ferðir fram í eldhús til að blanda mér vatn með matarsóda eru í lágmarki þá sef ég nokkuð vel. Ég get ekki sofið án þess að hafa kodda á milli lappanna og það gerir eiginlega meira gagn en snúningslakið (þó ég viti í þetta sinn hvernig eigi að nota það, ég var ekkert að klæða  mig í það eða eitthvað svoleiðis síðast). Ég sef hins vegar ekki út þannig að ég verð að passa mig að fara ekki of seint að sofa.

Hreyfingar: Hann er á fullu þarna inni og á kvöldin þegar ég leggst í rúmið bylgjast maginn á mér. Hann á það til að liggja með lappirnar út að hægri síðunni og stundum er ég orðin aum eftir öll spörkin. Fylgjan er fyrir aftan núna þannig að ég finn allar hreyfingar mikið betur en ég gerði síðast.

Líkamsrækt og mataræði: Frá 14. viku fór ég að geta stundað líkamsrækt aftur og fór að jafnaði tvisvar í ræktina í viku til að lyfta, þess á milli sem ég gekk, synti etc. Ég fór síðast í ræktina fyrir ca. viku og fannst ég þá svo þung og óliðleg að ég hef meira farið í göngutúra og í sund. Ég hugsa að það verði mín hreyfing næstu vikurnar. Hvað mataræðið varðar þá er ég nammigrís en ég reyni að halda mér innan skynsamlegra marka. Ég er ekki að borða eitthvað mikið meira nema þegar ég fer í göngutúra á kvöldin þá vakna ég með hungurverki og nánast anda að mér morgunmatnum.

Hreiðurgerð: Ekki svo mikið í því, var heldur ekki mikið í hreiðurgerð síðast. Ég er hvort eð er með pínu áráttu fyrir því að hafa hreint í kringum mig og það er ekki að breytast mikið núna. Það kemur kannski á síðustu vikunum. Mig er reyndar aðeins farið að klæja í puttana að kaupa lítil falleg og mjúk barnaföt, ég þarf einmitt að fara í gegnum HAUGANA af fötum sem við eigum síðan Jón Ómar var lítill og gefa það sem við munum ekki nota núna, áður en ég fer að kaupa eitthvað handa Svampi.

Jæja segjum þetta gott í bili, hlakka til að taka stöðuna í næstu viku.

 

Þá & nú

Gengin rétt tæplega 27 vikur

 

Gengin rétt tæplega 28 vikur

Ætli stærðin á kúlunni sé nú ekki bara svipuð, alltaf er maður að spá í þessari blessuðu stærð á kúlunni, kannski af því að fólk þreytist ekki á því að kommenta á hana. Stundum er ég “nett” og stundum er ég “stór”, ég hef komist að því að fólk veit bara ekki neitt hvað það er að segja. Reyndar er ég strax komin með bjúg og það fékk ég ekki fyrr en á 38. viku síðast! Í nótt vaknaði ég svo með versta sinadrátt í heimi og “ormaðist” einhvern veginn úr rúminu því ég vissi ekki hvað ég átti að gera, örugglega mjög tignarleg sjón, haha. Jón Ómar varð mjög áhyggjufullur og spurði hvort ég væri nokkuð “brotfótin”… elsku karlinn, svo strauk hann yfir lappirnar mínar þegar ég var búin að segja honum að þetta væri allt í lagi.

 

Jæja þetta er gott í bili, þar til næst.

Beðið eftir haustinu

Þegar ég var gengin svipað langt með Jón Ómar þá varð ég ansi öfgakennd í alls konar snyrtingum og kaupum á snyrtivörum. Núna finn ég að sama hegðun er að byrja að gera vart við sig, ég veit ekki af hverju, kannski af því að ég get ekki klætt mig pæjulega að þá reyni ég allt annað til að “pæja mig upp”. Það sem er efst á óskalistanum núna er að fara í augnháralengingu hjá snyrtistofunni Garðatorgi. Ég fór í augnháralengingu á annarri ónefndri stofu sem var aðeins ódýrari og þetta bara hrundi af mér og ég var fín í ca. 2 sólarhringa. Ég hringdi í snyrtistofuna Garðatorgi til að heyra í þeim hvort þetta gæti gerst og væri eðlilegt ef maður væri með “erfið” augnhár en þær sögðu að þetta væri ekki eðlilegt. Mjög margir sem ég hef talað við mæla með þessari stofu eða vita af einhverri sem fer alltaf þangað og nú langar mig svo að prófa.

Systur mínar eru núna í París en yngsta systir mín fór til Búdapest fyrir helgi til að sækja nýja hvolpinn sinn, hann Elton, sem er svo sætur að ég gæti dáið. Þær millilentu í Paris á leiðinni heim og eyða deginum þar og fljúga heim seint í kvöld. Ég hefði ekkert á móti smá skammti af Paris um haust (sem er nú ekki komið ennþá), með tilheyrandi kósýheitum. Það lítur m.a.s. út fyrir að ég þurfi að bíða aðeins eftir haustinu hér á Íslandi, það er nú samt ekki hægt að kvarta yfir því. Í kvöld er ég golfekkja og ætla að nota tækifærið og setjast niður yfir allar myndirnar sem teknar hafa verið í sumar og setja saman í myndabók hjá Prentagram, maður verður nú að reyna að halda þessu einhvern veginn til haga, mér finnst þetta vera allt út um allt hjá manni.

 

Heyrumst.

 

 

Fataskápurinn á meðgöngu

Það getur stundum verið snúið að klæða sig á meðgöngu og stundum finnst mér auðvelt að grípa bara í sokkabuxurnar eða leggings við einhvern teygjanlegan kjól- samt sem áður finnst mér þannig klæðnaður svo leiðinlegur. Ég fer af og til inn á pinterest til að fá smá innblástur, ég elska vel sniðin föt úr gæðaefnum og ég ELSKA fallegar ullarkápur. Ég er búin að ákveða það að kaupa mér eitt par af svörtum, þröngum meðgöngubuxum og eitt par af meðgöngugallabuxum, þó það sé auðvitað hundleiðinlegt að eyða pening í föt sem maður kemur bara til með að nota í nokkra mánuði. Svo ætla ég að athuga hvort ég geti ekki gert góð kaup í júlí þegar við förum til Florida og keypt mér nokkrar almennilegar ullar/kasmírpeysur og jafnvel kápur fyrir veturinn. Manni finnst einhvern veginn að þannig föt ættu að vera á góðum afslætti þar á þessum árstíma. 

Þessir litir! 
 Fallegt og töffaralegt.
 Einfalt er alltaf best.
 Ég elska samsetninguna af svörtu og gulli.
 Þessi kona er svo mikill töffari. Ég er ekki ennþá dottin inn í þessa skótísku en maður á aldrei að segja aldrei.
 Þessi sídd á pilsum getur verið svo ofsalega falleg og kvenleg. Eina vandamálið við það að klæðast svona pilsi er að passa að maður verði ekki of kerlingalegur (afsakið)

 FULLKOMIN kápa!
Hvitur stutterma/langermabolur við svartan eða dökkbláan blazer eða kápu er blanda sem ég fell alltaf fyrir.


Ég áttaði mig á því um daginn hvað ég væri orðin leiðinleg í fatavali og “fullorðin” í fatavali, nú ætla ég að endurstilla mig aðeins, fara í gegnum fataskápinn og skrifa lista yfir það sem mig “vantar”. Það sem mér dettur í hug strax eru:
Svört boots, eins og t.d. þessi – mjóa táin gerir þá mjög flotta.
Eina ljósa og eina svarta “loose” kasmír eða ullarpeysu.
Svartan blazer, vel sniðinn.
Hvíta stuttermaboli
Svart leðurbelti með gullsylgju
Hælaskó með þægilegum hæl til að nota dagsdaglega, eins og t.d. þessa. Ég er hætt að kaupa mér skó í Zöru þar sem þeir eru nánast undantekningarlaust óþægilegir. Útlit og þægindi verða að spila saman þegar kemur að skóm, það hef ég lært.
Jæja, þetta var nóg í bili af hugleiðingum óléttrar konu um fatatísku. Svo má bæta við þetta að ég er í stöðugri baráttu við sjálfa mig að velja minna svart þegar ég kaupi föt. Heilsvart “outfit” getur verið mjög smart en oft verður það leiðinlegt, konur mættu almennt klæða sig meira í liti. Bara eitt enn, fallega blásið hár, hversu mikið elskar maður fallegt og vel hirt blásið hár? Ég tek alltaf eftir því ef kona er með fallegt hár. Ég segi, pökkum niður sléttujárninu og tökum upp rúlluburstann!
Heyrumst seinna, bæjó!

Helgin

Fór í göngutúr, hlustaði á uppáhalds pod castið mitt og tíndi nokkur blóm sem urðu svona líka fallegur blómvöndur.Við (lesist Svenni og afi hans) hafa verið að mála ganginn okkar undanfarið og var helgin nýtt til að klára það. Hurðin hægra megin verður máluð líka þegar baðherbergið er klárt.Þegar litla barnið kemur í heiminn fær það herbergið hans Jóns Ómars (sem er við hliðina á hjónaherberginu) og Jón Ómar færist yfir í leikherbergið sitt sem er stærra en þetta herbergi. Ég er farin að undirbúa flutninginn og er mikið að vanda mig við það að hann verði sáttur og ánægður og tengi ekki komu barnsins við það að það sé tekið af honum svefnherbergið (sem er jú reyndar raunin). Nýja herbergið ætla ég að mála grátt í sama lit og er í eldhúsinu, kóngabláar gardínur, tekk kommóðuna sem þið sjáið  myndinni, fallegar bastkröfur undir dótið og notalega mottu á gólfið. Ég ætla að vanda mig mikið við að gera þetta eins notalegt og fallegt og hægt er.

Jón Ómar er orðinn svo stór að nú er hann stundum farinn að biðja um að sitja í alveg eins stól og við og tripp trapp stóllinn settur til hliðar, Ég hugsa að við kaupum svona stól handa honum þegar barnið kemur og svo kaupum við ungbarnasett á tripp trapp stólinn þannig að barnið geti setið í sömu hæð fyrstu mánuðina.Mig langaði bara aðeins að kíkja hingað inn og segja hæ, við heyrumst seinna og ÁFRAM ÍSLAND!!
 

Takk!

Fallega morgunsólin sem skein inn um eldhúsgluggann minn í morgun.
 
 
Takk kærlega fyrir hamingjuóskirnar á Facebook, það er svolítill léttir að vera búin að segja frá þessu á FB, þá bara vita þetta flestir og ekki meira með það.
 
Nú er ég hins vegar bara heima í flensu sem ég fann að var að banka upp á í gær en ég þrjóskaðist eitthvað við. Ég vona að þetta líði hratt hjá því mér leiðist hrikalega að liggja svona heima. Það er samt svo týpískt að þegar maður er kominn aftur af stað í ræktinni að þá fái maður flensuna, ég veit ekki hversu oft það hefur gerst. Fyrstu 10 vikurnar hreyfði ég mig ekki neitt en nú er ég farin að lyfta tvisvar í viku og reyni að hreyfa mig eitthvað þess á milli en ég er mjög ánægð ef ég held mig við þessi tvö skipti og elska það að geta farið í ræktina á meðgöngu því það var eiginlega ekki í boði síðast. Svo er ég með eitt ráð handa ykkur til að koma ykkur af stað í ræktinni og það er að taka baðið ykkar í gegn. Við komumst í sturtu heima en baðið er ógeðslegt og sturtan í raun það eina sem stendur eftir (við tökum hana síðast af öllu) þannig að ég er eiginlega neydd til að fara í sturtu í ræktinni og þá verður maður auðvitað að fara í ræktina í leiðinni 😉
 
 
Jæja meira var það ekki í bili, við heyrumst seinna.