Lengstu dagar lífs míns

Dásamlegur greni-jólailmur
40+5!!
Dásamlegur morgunmatur á Gló með Unni Töru systur minni.
Pönnukökukaffi á þriðjudaginn
Jón Ómar var mjög sáttur við að geta “loksins” sett upp jólatréð en hann var búinn að vera mjög spenntur fyrir því undanfarið.

Við erum búin að gera svo kósý, ég skil ekki af hverju litli maðurinn lætur ekki sjá sig til að taka þátt í kósýheitunum. Ég viðurkenni það að ég gerði svo engan veginn ráð fyrir þessu, ég var alveg handviss um að hann kæmi fyrir tímann eða á settum degi, bjáninn ég. Fótsnyrtingin og litunin og plokkunin eru löngu orðin ónýt og hreina heimilið verður bara skítugra. Ég fer því með “siggaða” hæla og úfnar brúnir í fæðingu. Síðustu viku er eins og ég hafi smitast af drómasýki, ég legg mig tvisvar á dag og geri nánast ekki neitt. Ég vil bara svo mikið fara að fá hann í hendurnar!! Þefa af honum og strjúka mjúka húðina.

Jæja nú ætla ég að leggjast í sófann og halda áfram að horfa á Downton Abbey sem er svona ca. það eina sem er skemmtilegt á Netflix.

Bráðum

Á laugardaginn er ég gengin 40 vikur og því ekki seinna vænna að koma með stöðuna á viku 40. Ég er með mikinn bjúg og mikinn brjóstsviða og síðustu daga hef ég verið með verki í mjóbakinu, ég er því farin að hlakka ansi mikið til að fá þennan mola í hendurnar. Alla meðgönguna hef ég verið stífluð í nefinu og ég hef reynt að sleppa því eins og ég get að nota nefsprey, núna þegar ég er hins vegar farin að sofa svona illa þá hugsa ég bara fokk it og nota nefsprey allavega tvisvar á dag til þess að stíflað nef geri ekki svefninn enn lélegri. Það verður því nefspreys-afvötnun eftir fæðinguna. Ég kjaga og geng á hraða snigilsins og fer helst ekkert rosalega mikið út. Ég fór reyndar í búðina í gær og verslaði inn eins og ég væri ekki að fara aftur í búð fyrr en næsta vor.

Ég hef verið í frekar mikilli hreiðurgerð og ansi manísk í þrifum, ég er t.d. búin að skrúbba eldhúsinnréttinguna, þrífa rúður og gardínur ásamt venjubundnum þrifum. Það má því segja að ég hafi tekið jólaþrifin alvarlega þetta árið, væntanlega fyrsta og eina árið.

Annars þá er Jón Ómar minn orðinn lasinn, frábær tímasetning :-/ þannig að við verðum heima í dag í miklum rólegheitum. En fleira er það ekki í bili, við heyrumst.

 

Mjúkt og hlýtt

_mg_6313

Hálf óraunverulegt að maður sé að fara að klæða lítinn mann í þessi föt bráðlega. 

***

Þetta undurfallega heimferðarsett prjónaði tengdamamma bróður míns handa Svampi litla, ég hugsa alltaf hvað ungabörnum hlýtur að finnast það skrítið þegar það á allt í einu að fara að klæða þau í föt þegar þau þekkja ekkert annað en hlýjuna inni í mömmu sinni. En það er eins gott að eiga hlý og góð föt þegar maður eignast barn á þessum árstíma, ég fór með Jón Ómar í leikskólann í morgun og það var svo kalt að það nísti inn að beini.

Ég vogaði mér að segja við Svenna að mér leiddist svona aðeins hérna heima, enda takmörk fyrir því hvað er hægt að baka og þrífa. Ég hefði betur látið þetta ósagt því morguninn eftir þá missti ég lýsisflösku á eldhúsgólfið og hún auðvitað splundraðist um allt með tilheyrandi óþef og fituslykju um allt. Mig langaði að gráta og öskra. Nú er ég búin að liggja á gólfinu og skrúbba hvern einasta sentimeter með einhverju fituleysanlegu efni, og skúra svona ca. 10 sinnum yfir gólfið – ég er ekkert að ýkja. Mér sýnist þetta vera farið núna. Ég ætla aldrei aftur að kaupa lýsi í flösku, ekki fyrr en þetta verður sett í plastflösku og þetta er í fyrsta og eina skiptið sem ég óska þess að eitthvað sé frekar í plasti en gleri. Héðan í frá verða bara keyptar lýsisperlur. Og núna var ég að fá tölvupóst frá leikskólanum um að það hefði komið upp tilfelli af njálgi á deildinni, hjálpi mér guð.

Heyrumst.

Vika 38

Ég var víst búin að segja að ég ætlaði að koma með stöðuna á viku 38 og á morgun byrja ég á viku 39 þannig að það er eins gott að henda þessu inn núna.

Ég hef ekki gaman af fólki sem vælir og röflar en ég er örugglega orðin svoleiðis sjálf. Seinni partinn í þessari viku hefur mér liðið eins og ég sé að verða hálf lasin og bara almennt slöpp. Á þriðjudaginn fékk ég svo mikla verki í mjóbakið að ég hélt að ég væri að fara af stað, ég panikkaði smá og pakkaði í tösku en svo gerðist nú ekkert meira.

Ég hef tvisvar farið labbandi með Jón Ómar á leikskólann í vikunni og í gær ákvað ég að taka smá aukahring í bakaleiðinni þannig að þetta endaði í ca. 45 mínútna göngutúr. Ég get bara sagt ykkur það að ég var eins og einhver galeiðuþræll þegar ég gekk hérna upp að húsinu, mér fannst barnið vera farið að kíkja bara út og grindin að liðast í sundur. Þetta er svo ólíkt því hvernig þetta var með Jón Ómar, þá fór ég út að ganga á hverjum morgni frá 7. mánuði og fram að settum degi og leið bara vel. Ég fór á foreldrafund á miðvikudaginn og fékk þá komment frá einum ofurhressum og ofurheilbrigðum sjúkraþjálfara-pabba “vó þú hlýtur bara að vera að fara að eiga!” Ég sagði að það væri eins gott fyrir hann að ég væri að fara að gera það. Idjót.

En það er ekkert alvarlegt til að kvarta yfir, blóðþrýstingurinn fínn í síðustu skoðun og bara status quo á brjóstsviða og bjúgi. Ég er hins vegar mjög þreytt og vona að þessi slappleiki yfirgefi mig sem fyrst, ég hef reyndar heyrt að konur geti fengið svona slappleika rétt fyrir fæðinguna. Jæja segjum þetta gott í bili, heyrumst.

Að huga að því síðasta

Hvernig getur lítil ófædd manneskja strax átt svona mikið af fötum? Þarna sjáið þið m.a. jólapeysuna sem Svampur eignaðist um daginn.

Litlir sætir skór á litla sæta fætur.

***

Nú vil ég fara að klára það síðasta svo ég geti andað út. Í raun vantar ekki mikið, ég þarf að fara í apótekið og græja mig upp þar, kaupa bleyjur, strauja rúmfötin og græja skiptitöskuna. Talandi um skiptitösku, gætuð þið bent mér á skiptitösku sem er ekki viðbjóðslega ljót og kostar ekki 25.000? Af hverju er allt svona dýrt þegar kemur að dóti sem kona þarfnast á meðgöngu eða annað barnadót? Snúningslak er t.d. gott dæmi, þetta er lítil efnispjatla sem kostar margfalt meira en sama magn af svipuðu venjulegu laki. Eini munurinn er áferðin inni í lakinu. Jæja ég er hætt að röfla. Við heyrumst bráðum aftur.

Vika 36

Þá byrjum við viku 36!

Núna fer maður aldeilis að nálgast fulla meðgöngu og ég er orðin svo spennt að hitta þennan litla mann. Eina stressið í sambandi við fæðinguna (fyrir utan verkina auðvitað) er að ná í tæka tíð upp á fæðingardeild. Ég var með svo litla hríðarverki síðast og mest allan tímann bara í bakinu (mestu verkirnir voru þegar kom að því að rembast) að ég var búin að eiga Jón Ómar rúmum einum og hálfum tíma eftir að við mættum upp á spítala. Maður heyrir að fæðing númer tvö gangi oft mun hraðar þannig að það er eins gott að vera á tánum.

Staðan á mér er ágæt. Ég er búin að færa giftingarhringinn í hálsmenið mitt og þessi bjúgur heldur sér sem fastast. Þreytan er farin að hellast hressilega yfir mig og orkan fljót að klárast. Ég er farin að sætta mig við það að ég mun ekkert ná að fela þessa bauga og ætli þeir verði ekki til staðar eitthvað eftir að hann fæðist, ekki nema hann leyfi okkur að sofa meira en Jón Ómar gerði, sem væri auðvitað kærkomið. Fyrir utan bakverki sem eru misslæmir eftir dögum þá líður mér ágætlega, engin grindargliðnun eða eitthvað svoleiðis, reyndar getur verið vont að ganga þegar bjúgurinn er mikill á fótum. Við fórum í sónar um daginn og þessi gaur virðist ætla að verða stærri en Jón Ómar (lucky me) en ekkert óeðlilega stór sem betur fer.

Jæja, svo sem ekki frá fleiru að segja. Heyrumst.

Vika 34


Ég var nú búin að tala um vikulega uppfærslu fram að fæðingu en svo líður bara tíminn og því varð ekkert af því að skrifa um viku 32 og 33… En hér kemur smá staða á mér í viku 34. Alveg í einlægni þá er ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað sú að mér finnst svo óþægilegt að biðja um að láta taka mynd af mér og bumbunni og verð alltaf eins og kleina á þeim myndum, en nú tók ég málið bara í eigin hendur og henti í tvær heiðarlegar speglaselfies.

Ég er orðin ansi þung á mér, illt í fótum og baki og með bjúg sem mér finnst umlykja mig alla. Ég get notað þrjú pör af skóm. Þrjú pör, þar með talið Birkenstock inniskóna mína.

Barnið er farið að þrýsta á lungun þannig að stundum finnst mér ég ekki ná andanum þegar ég sit og ég er farin að finna fyrir yfirnáttúrulegri þreytu. Stundum er ég hrædd um að sofna við skrifborðið mitt, það væri smart. Ég finn aftur fyrir smá flökurleika á morgnana og ég get ekki hlustað á fallega tónlist án þess að bresta í grát. Um daginn hlustaði ég á mjög áhrifamikinn fyrirlestur í vinnunni og ég varð að gjöra svo vel að vera án augnfarða restina af deginum því ég grét hann allan í burtu yfir fyrirlestrinum- sem var n.b. ekki um skattamál.

Þið verðið að afsaka hvað ég kvarta og kveina, oft líður mér bara vel en svo koma dagar þar sem ég trúi því ekki að það séu 6 vikur eftir og að ég geti raunverulega orðið stærri. En þetta er allt þess virði og mikið meira en það, stundum er bara gott að fá að pústa aðeins.

Bara eitt að lokum sem tengist ekki meðgöngunni, ég dett sjaldan niður á snyrtivörur þar sem ég sé strax mikinn mun en mig langaði að benda ykkur á þennan kornaskrúbb frá Elizabeth Arden HÉR. Ég fékk hann í afmælisgjöf í fyrra og hann er svo fáránlega góður, ég sé alltaf mun á húðinni á mér eftir að ég nota hann. Núna langar mig eiginlega í meira úr þessari línu.

Jæja, heyrumst.