Skottúr

Í gær kíktum við í heimsókn í útilegu hjá tengdó, ég er ekki alveg tilbúin að sofa (eða frekar að sofa ekki) með Hrólf Braga í tjaldi þannig að við keyrðum aftur heim um kvöldið. Það stakk mig samt svolítið í hjartað að þurfa að taka Jón Ómar heim sem var sko ekki á þeim buxunum. Það er strax orðið þannig að Jón Ómar nennir sjaldan að leyfa mér að taka myndir af sér þannig að minnsti maðurinn fær að vera oftar fyrir framan myndavélina.

Það var ekkert merkilegt veður þegar við komum en það rættist heldur betur úr því og þetta tjaldstæði er eitt það besta á landinu, umhverfið er yndislegt og það er alls ekki pakkað þarna. Ísland í góðu veðri er óviðjafnanlegt, bara verst hvað það gerist sjaldan. Mér finnst það mjög óspennandi að vera eins og í síldartunnu á tjaldstæði, nánast ofan í næsta manni. Húsbýla/hjólhýsa “garðurinn” á Flúðum er örugglega áhugavert rannsóknarefni… En við ætlum nú samt að fórna okkur einhvern tímann í sumar í útilegu fyrir Jón Ómar, maður verður þá bara að stíla sig inn á það að sofa ekkert, haha… Í næstu viku byrjum við í sumarfríi og við ætlum að byrja fríið á að fara eina viku í bústað. Ég er búin að panta gott veður og ég ætla að vera dugleg við að fara út að hlaupa og svo ætla ég líka að vera dugleg að borða góðan mat og drekka góð vín.

Heyrumst.

Litli herramaðurinn minn

Pínu kreist myndavélabros en samt alltaf sætur =)

Við Jón Ómar dunduðum okkur saman í gær og fengum svo heimsókn frá Unni systur sem fór m.a. með okkur á róló og gat leikið aðeins við Jón Ómar, annað en ég sem er ekki alveg til í að vega salt eða halda við hann/á honum þegar hann er að klifra.

Við gátum samt föndrað saman og það var svolítið haltur leiðir blindan því ég er ekki með nein föndurgen í mér og vissi ekkert hvað við áttum að gera. Við þræddum sykurpúða upp á rauðan þráð sem við ætlum að setja á jólatréð, erfiðast var fyrir Jón Ómar að sætta sig við það að hann mætti ekki borða sykurpúðana en hann fékk nú samt einn í lokin. Svo máluðum við krukkur til að setja sprittkerti í og Jón Ómar litaði mynd með glimmerlitum.

Við þurftum að fara aðeins í búðina í gærmorgun og ég var með einn búðarpoka, einn bréfpoka með súrdeigsbrauði sem var svo ekki súrdeigsbrauð fyrir fimm aura, skamm Krónan, og svo klósettpappír. Jón Ómar tók ekki annað í mál en að halda á bréfpokanum og klósettpappírnum út í bíl, svo þegar við renndum í bílastæðið hér heima þá sagði hann að ég mætti ekki taka bréfpokann og klósettpappírinn því hann ætlaði að halda á því upp, þegar við svo komum inn þá spurði hann hvert hann ætti að fara með þetta. Hann er ótrúlega góður og ljúfur og kurteis. Þó að auðvitað geti hann líka verið óþekkur en í fullri hreinskilni þá er hann mjög auðvelt barn. Sjö-níu-þrettán 😉

En hér heldur biðin bara áfram og svo sem ekki frá miklu að segja. Við heyrumst.

Afmælisdagurinn mikli

_mg_6044_mg_6047_mg_6059_mg_6061_mg_6074_mg_6081img_6097img_6099img_6115img_6138img_6153img_6170img_6171img_6194img_6201img_6210img_6215img_6225img_6231img_6235img_6250img_6254

Heill dagur af afmælisfjöri. Við ákváðum að halda upp á afmælið á sjálfan afmælisdaginn, 25. október, í staðinn fyrir að geyma það til helgarinnar og núna er ég mjög ángæð með að hafa gert það og geta slappað af um helgina. Jón Ómar átti mjög góðan dag og er (ennþá) mjög upptekinn af gjöfunum sínum. Í dag er akkúrat mánuður í settan dag og nú fer ég að verða pínu stressuð yfir því sem ég á eftir að gera en það sem er eftir er ekki lengi gert þegar ég kemst í það. Nú ætla ég að fá mér te, leggjast upp í rúm og horfa smá á netflix og sofna mjög snemma.

Heyrumst.

 

Ólík andlit Jóns Ómars

_mg_6018_mg_6023

Jón Ómar í baði í kvöld og ég nýtti tækifærið á meðan ég sat yfir honum að smella nokkrum myndum af prinsinum

***

Núna fer Jón Ómar bráðum að verða 4 ára, nánar tiltekið á þriðjudaginn í næstu viku. Hann er orðinn frekar spenntur og telur reglulega upp þá sem hann vill að komi í afmælið og hann er jafn spenntur að fá frændsystkini sín sem eru á sama aldri og hann er að fá frænda á fertugsaldri og aðra háaldraða fjölskyldumeðlimi 😉 Enda hefur hann alltaf mikið umgengist stórfjölskylduna og fengið næga athygli þaðan.

Oftast finnst mér Jón Ómar miklu líkari pabba sínum en þegar ég horfi á þessar myndir þá finnst mér ég nú eiga svolítið í honum líka. Fyndið hvernig þetta getur breyst. Jæja ég ætla að segja þetta gott í bili. Heyrumst.

Að leika sér í “pabbó”

Núna ætla ég að viðurkenna það hvað ég er íhaldssöm og gamaldags en reyna um leið að bæta mig og henda þessum hugsunum lengst út í hafsauga. Núna með nokkurra daga millibili hefur Jón Ómar sagt að honum langi svo í dúkkuvagn og dúkku og í morgun sagðist hann vilja dúkkurúm og litla sæng og kodda fyrir dúkkuna, hversu sætt? En það sem ég hugsaði fyrst var „ahhh, er það ekki eitthvað skrítið að kaupa þannig handa stráknum mínum?“ en svo auðvitað kemur hin röddin og segir mér að skammast mín. Af hverju eiga strákar ekki að geta farið í pabbó og leikið sér með dúkkur án þess að það sé talið eitthvað skrítið? Þetta er auðvitað svo bjánalegur hugsunarháttur að maður roðnar niður í tær. Ég reyni að vera ekki að ala upp í honum einhverjar fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig strákar eigi að vera og svo hvernig stelpur eigi að vera. Ég naglalakka hann ef hann vill og um daginn þá sagði ég við hann að við þyrftum nú að fara í klippingu, þá svaraði hann „annars verð ég eins og þú mamma“ og hló. Ég sagði þá við hann að strákar mættu samt alveg hafa sítt hár ef þeir vildu. Seinna þegar við töluðum aftur um þetta þá minntist hann á þetta að strákar mættu alveg hafa sítt hár (en hann vildi það samt ekki) og ég var svo stolt af honum. En þetta með leikföngin verð ég taka mig á með, ekki seinna en í gær. Mig langar helst að fara núna og kaupa þetta handa honum, en ég sagði við hann að hann ætti afmæli í næsta mánuði og hann gæti beðið um þetta í afmælisgjöf, sjáum hvað verður ofan á, dúkkudótið eða bílabrautin sem hann er líka búinn að vera að biðja um.

Hvernig er hægt að segja nei við þetta andlit?

Jón Ómar, sem veitt fátt skemmtilegra en að fara á ruslahaugana með pabba sínum og rukkar hann reglulega um það.

Helgin

Fór í göngutúr, hlustaði á uppáhalds pod castið mitt og tíndi nokkur blóm sem urðu svona líka fallegur blómvöndur.Við (lesist Svenni og afi hans) hafa verið að mála ganginn okkar undanfarið og var helgin nýtt til að klára það. Hurðin hægra megin verður máluð líka þegar baðherbergið er klárt.Þegar litla barnið kemur í heiminn fær það herbergið hans Jóns Ómars (sem er við hliðina á hjónaherberginu) og Jón Ómar færist yfir í leikherbergið sitt sem er stærra en þetta herbergi. Ég er farin að undirbúa flutninginn og er mikið að vanda mig við það að hann verði sáttur og ánægður og tengi ekki komu barnsins við það að það sé tekið af honum svefnherbergið (sem er jú reyndar raunin). Nýja herbergið ætla ég að mála grátt í sama lit og er í eldhúsinu, kóngabláar gardínur, tekk kommóðuna sem þið sjáið  myndinni, fallegar bastkröfur undir dótið og notalega mottu á gólfið. Ég ætla að vanda mig mikið við að gera þetta eins notalegt og fallegt og hægt er.

Jón Ómar er orðinn svo stór að nú er hann stundum farinn að biðja um að sitja í alveg eins stól og við og tripp trapp stóllinn settur til hliðar, Ég hugsa að við kaupum svona stól handa honum þegar barnið kemur og svo kaupum við ungbarnasett á tripp trapp stólinn þannig að barnið geti setið í sömu hæð fyrstu mánuðina.Mig langaði bara aðeins að kíkja hingað inn og segja hæ, við heyrumst seinna og ÁFRAM ÍSLAND!!
 

Jón Ómar

Þann 25. október sl. varð Jón Ómar þriggja ára gamall! 105 cm. hreinræktaður gullmoli. Hann á hug minn allan, alltaf. Það hefðu allir gott af því að eiga eitt stk. Jón Ómar í sínu lífi.

Jón Ómar:

1. Elskar helgarfrí, hann elskar hamborgara á föstudögum, kósý laugardagsmorgna með boost í fjólubláa glasinu, sund, fara í ræktina hans pabba og almennt hangs með mömmu sinni og pabba.

2. Væri til í að drekka rjóma beint úr fernunni. Stundum stelst hann í ísskápinn og fær sér einn sopa af rjóma.

3. Er nýbyrjaður að æfa fótbolta og vill bara leika sér með boltann á æfingum í staðinn fyrir að taka þátt í einhverjum hópeflisleikjum.

4. Er í auknum mæli farinn að kalla mömmu sína Ástríði .

5. Spurði mig um daginn hvort ég væri bróðir hans.

6. Hefur sagt mömmu sinni að hún væri með rass og hann væri með tippaling.

7. Elskar Tomma og Jenna (gömlu þættina).

8. Hlustar á þungarokk,. Ég er sem betur fer búin að koma mér undan því að hlusta  á rokk með   honum með því að segja að ég kunni ekki að rokka, bara djamma. Þetta þylur hann svo upp reglulega: “pabbi kann að rokka og mamma kann að djamma”.

9. Elskar að púsla og skákar móður sinni oft í þeirri deild.

10. Er glímumaður mikill (enda móðir hans krýnd glímudrottning) og elskar að taka mömmu sína og pabba í góða glímu.