Þegar lífið þýtur áfram 

Hrólfur Bragi gat rétt setið kyrr í 2 sekúndur fyrir myndatökuna og svo þurfti hann að þjóta, svo margt spennandi að skoða þegar maður getur skriðið og þarf ekki að treysta á mömmu til að koma sér á milli staða.

 

***

Í morgun var fyrsti dagurinn í aðlögun hjá dagmömmu, ég byrja að vinna 1. september þannig að það er mjög gott að geta komið honum almennilega í rútínu og Jóni Ómari líka áður en vinnan byrjar. Þar sem Svenni þarf oftast að mæta kl. 6 í vinnu þá sé ég um að koma strákunum til dagmömmu og leikskóla og það krefst skipulags og aga, ég er strax farin að venja Jón Ómar við breytta rútínu. Það þarf að klæða sig, tannbursta og græja áður en horft er aðeins á barnatímann, ég nenni ekki að vera eins og biluð plata að segja honum að klæða sig á meðan hann er sogaður inn í eitthvað barnaefni. Við erum búin að vera svo afslöppuð í orlofinu að Jón Ómar hefur oftast verið að mæta um 9 eða 9.30 í leikskólann. Núna kemur Hrólfur Bragi til með að mæta kl. 07.45 og Jón Ómar kl. 8. Ætli ég þurfi ekki að vakna rétt rúmlega 6 til að geta græjað mig áður en fjörið byrjar.

Ég er alls ekki tilbúin fyrir það að Hrólfur fari til dagmömmu, Jón Ómar var rúmum mánuði eldri en hann þegar hann byrjaði hjá dagmömmu. Einhvern veginn var ég mun tilbúnari þá og fannst þetta ekki svona mikið mál. Við fórum í morgun og ég sat með honum fyrst og átti svo að fara í 40 mínútur. Ég var mætt aftur eftir 30 mínútur og minn maður sat sáttur og hafði ekkert farið að gráta. Á morgun setur svo dagmamman hann í fyrsta lúrinn. Ég er strax farin að kvíða því. Úff hvað maður er glataður eitthvað… Ástæðan fyrir því að hann byrjar svona snemma er sú að það er mjög erfitt að komast að hjá dagmömmu um áramót og að vera í orlofi í heilt ár hefði verið aðeins of strembið peningalega séð þó svo að það hefði auðvitað verið best. Asnalega helvítis fæðingarorlofskerfi.

Jæja ætli ég verði ekki að fara að sinna skyldum mínum sem húsmóðir, heyrumst síðar.

Skottúr

Í gær kíktum við í heimsókn í útilegu hjá tengdó, ég er ekki alveg tilbúin að sofa (eða frekar að sofa ekki) með Hrólf Braga í tjaldi þannig að við keyrðum aftur heim um kvöldið. Það stakk mig samt svolítið í hjartað að þurfa að taka Jón Ómar heim sem var sko ekki á þeim buxunum. Það er strax orðið þannig að Jón Ómar nennir sjaldan að leyfa mér að taka myndir af sér þannig að minnsti maðurinn fær að vera oftar fyrir framan myndavélina.

Það var ekkert merkilegt veður þegar við komum en það rættist heldur betur úr því og þetta tjaldstæði er eitt það besta á landinu, umhverfið er yndislegt og það er alls ekki pakkað þarna. Ísland í góðu veðri er óviðjafnanlegt, bara verst hvað það gerist sjaldan. Mér finnst það mjög óspennandi að vera eins og í síldartunnu á tjaldstæði, nánast ofan í næsta manni. Húsbýla/hjólhýsa “garðurinn” á Flúðum er örugglega áhugavert rannsóknarefni… En við ætlum nú samt að fórna okkur einhvern tímann í sumar í útilegu fyrir Jón Ómar, maður verður þá bara að stíla sig inn á það að sofa ekkert, haha… Í næstu viku byrjum við í sumarfríi og við ætlum að byrja fríið á að fara eina viku í bústað. Ég er búin að panta gott veður og ég ætla að vera dugleg við að fara út að hlaupa og svo ætla ég líka að vera dugleg að borða góðan mat og drekka góð vín.

Heyrumst.

Mini myndataka

 

Hrólfur Bragi 6 og hálfs mánaðar gamall.

 

Það var mjög lítið um veikindi hjá okkur í vetur, svo kom vorið og ég hugsaði með mér að nú værum við hólpin. Einmitt. Nú er Jón Ómar lasinn og ég krossa alla putta og tær að Hrólfur Bragi sleppi… Hann hefur aldrei orðið lasinn nema þegar hann fékk hlaupabóluna. Hann verður eflaust lasinn núna þar sem ég er búin að segja þetta.

Þannig að núna snúast dagarnir um að þjónusta þessa litlu menn. Gefa að borða, skipta á bleyjum, mæla, gefa meðal, skipta um stöð á sjónvarpinu…Á morgnana klæði ég mig í eitthvað sem er hendi næst og svo allt í einu er komið kvöld. Ég var eitthvað extra lengi að svæfa Hrólf í vagninum sínum áðan (típískt þegar Jón Ómar bíður inni) þannig að það fengu þó nokkrir að sjá undirritaða ganga fram og tilbaka fyrir framan húsið mitt í birkenstock inniskóm, velúrbuxum (ekki spyrja mig hvar ég fékk þær) og grænum síðum regnjakka. Mig langaði að stoppa þá sem gengu framhjá mér og segja þeim að ég væri ekki almennt svona mikill haugur.

Mér líður eins og ég sé tifandi tímasprengja hvað veikindi varðar því ég hef verið mjög dugleg að grípa pestir undanfarið. Á föstudaginn er miðnæturhlaupið og á laugardaginn ætla ég að hitta vinkonur og ég bara má alls alls ekki verða veik.

Annars þá reyni að smella nokkrum “betri” myndum af Hrólfi af og til þó ég sé ekki nógu dugleg að því. Það er ekki mikið mál allavega að fá hann til að brosa í myndavélina. Litli músarindill.

Heyrumst.

 

Ljúffengur hrísgrjónaréttur og notalegir morgnar

Hrólfur Bragi bestabarn!

***

Hrólfur Bragi svaf frá 9.30 til 7 í morgun án þess að vakna þannig að ég vaknaði fersk og útsofin, annars er hann vanur að vakna í kringum 5 til að fá pelann og sofnar svo aftur til ca. 7 eða 8. Ég elska morgnana, ég tek hann fram og set hann í stólinn sinn og með dótið sitt, á meðan ég undirbý grautinn hans og fæ mér kaffi. Afslappað og notalegt. Þetta eru stundirnar sem maður kemur til með að sakna þegar maður fer aftur að vinna, þ.e. að geta bara verið í rólegheitum og þurfa ekkert að spá í klukkunni.

Jón Ómar er núna í sveitaferð með leikskólanum og ég er nú alveg pínulítið stressuð auðvitað, mamma paranoja sem ég er. Ég sagði honum að vera alltaf hjá kennurunum og aldrei í kringum neina bíla eða tæki! Ég hefði farið með ef ég væri orðin alveg viss um að Hrólfur væri hættur að smita.

Það er nú langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á bloggið þannig að mér datt í hug að setja eina slíka á þessum góða föstudegi. Þetta er réttur sem ég hef gert reglulega síðan ég gerði hann “óvart” í desember sl. og segir Svenni að þetta sé einn af hans uppáhalds. Þetta er mjög fljótlegur réttur og það er hægt að gera alls konar útfærslur, það skemmir heldur ekki fyrir hvað hann er ódýr. Í réttinn nota ég:

Brún hrísgrjón (má líka nota t.d. bygg)

Ca. 2-3 gulrætur

Rósakál, ferskt!

Brokkolí, rauðkál eða bara hvað annað sem ykkur langar í.

Beikon

Egg

Ferskur kóriander

Sesam olía

Sweet chili sósa

Ég byrja á að steikja beikonið, bæti grænmetinu saman við, salta og pipra og set svo dass af sesamolíu. Þegar grænmetið er orðið mjúkt þá bæti ég soðnum hrísgrjónum saman við á pönnuna og bæti við tæpri msk. af grænmetiskrafti (ég nota frá Sollu) sem ég set út í ca. 1 dl. af vatni. Ég helli svo heila klabbinu á fat, steiki ca. 4 egg (steiki bara öðru megin svo að gulan sé smá “runny”) og raða eggjunum ofan á blönduna, svo strái ég ferskum kóriander og helli smá sweet chili sósu yfir.

Jæja hér er, aldrei þessu vant, dagskrá hjá húsmóðurinni. Við Hrólfur ætlum að fara í Krónuna og gera helgarinnkaupin og svo eigum við stefnumót niðrí miðbæ Reykjavíkur í hádeginu. Góða helgi!

Erfiður maí mánuður

Vertu velkominn júní! Hrólfur Bragi var svolítið sætur í kanínupeysunni sinni í gær þannig að ég ákvað að þennan krúttleika yrði að festa á filmu ❤

Ég hef ekkert skrifað hérna í langan tíma því ég hef einfaldlega ekki haft orku/tíma eða ástæðu til þess! Hér höfum við verið inni meira og minna allan maí. Jón Ómar byrjaði með hlaupabóluna, ég varð síðan lasin þegar hann var að jafna sig, svo fékk Hrólfur hlaupabóluna og svo um helgina fékk ég heiftarlegt kvef sem ég er enn að jafna mig á. Hrólfur Bragi litla ljós var samt svo duglegur þó að hann hafi fengið frekar slæmt hlaupabólutilfelli, hann grét nánast ekkert en tvær nætur vorum við nánast svefnlaus því hann komst ekki í ró fyrir kláða greyið. Núna krossa ég alla putta og tær að hann hafi náð að mynda mótefnið, en við verðum nú að bíða eitthvað áður en það er hægt að komast að því.

Ég fór í heilsuhúsið í gær og keypti mér engifer-og hveitigrasskot og pro biotic töflur fyrir mig og Jón Ómar í einhverri viðletni að bæta heilsuna á þessu heimili, þ.e. kvefið og almenn veikindi, ég veit að maður gerir fátt til að koma í veg fyrir hlaupabóluna 😉

Það er sumsé ekki mikið að frétta af þessu heimili fyrir utan það að ég er komin með ógeð af því! Allt hér inni er ljótt og asnalegt. Ef peningar væru ekki fyrirstaða þá væri ég búin að snúa öllu við. Annars er frekar langt (miðað við að þetta sé mitt heimili) síðan ég breytti einhverju hér þannig að það er aldeilis kominn tími á breytingar. Mig langar t.d. að mála stofuna en það þyrfti líka að mála loftið og þá þarf að taka niður gardínulistana og þá er þetta orðið svo mikið batterí. En ef það heldur áfram að rigna þá er svo sem ekki mikið annað að gera en að taka aðeins til hendinni hér inni við.

Heyrumst.

Hr. Hrólfur Bragi 5 mánaða

Í dag er 8. maí sem þýðir að þessi draumaprins er 5 mánaða!

Húrra fyrir elsku besta Hrólfi Braga!

Hrólfur Bragi er brosmildur með eindæmum, finnst stóri bróðir sinn fyndnastur í heimi, er fáránlega sterkur í fótunum og hefur einu sinni sparkað mig í kjálkann á skiptiborðinu (það var í alvöru svolítið vont), hann grípur núna í hárið á mér og rífur það næstum af ræðst á andlitið og ætlar að borða mömmu sína. Hann er orðinn ansi snöggur að rúlla sér um gólfin, notar föt nr. 74 og er svo þungur að ég er örugglega komin með axlarsig vinstra megin.

Sjarmör

Þessi strákur sko. Bræðir mig alla daga. Það er eiginlega hættulegt að fá einn svona ofur-sjarmör því mann langar strax í annað barn. Græðgin alveg að fara með mann. Það er svo mikill munur á þessu orlofi og mínu fyrsta. Ekki það að Jón Ómar hafi verið neitt erfiður en hann svaf minna. Ég held að aðal munurinn liggi í rútínunni. Hrólfur Bragi er með mjög skipulagðan dag og það gerir allt svo miklu miklu auðveldara. Og það er sko alveg rétt að maður lærir þolinmæði með sínu fyrsta barni. Ég reyni eins og ég mögulega get að stressa mig ekki og vera afslöppuð í kringum Hrólf Braga (og auðvitað Jón Ómar líka) og ég vona að það hafi þau áhrif að hann er afslappaður og glaður. Horfið bara á hann, það eru ekki miklar áhyggjurnar hjá honum. Bráðum verður hann 5 mánaða og ég skil ekkert hvernig tíminn getur liðið svona hratt.