Baðið sem loksins varð tilbúið

Það var engum ofsögum sagt að það var löngu kominn tími á endurbætur inni á baðherbergi. Ég var með þetta blessaða bleika bað á heilanum og ég þoldi ekki við mikið lengur. Í lok maí ákváðum við að byrja að rífa baðið niður, þetta var auðvitað allt níðþungt og það þurfti 4 karlmenn til að bera baðkarið niður. Klósettið hefur örugglega verið fyrsta upphengda klósettið á landinu og þetta hefur örugglega þótt mjög móðins á þeim tíma sem þetta var gert. Fyrir utan ljótleikann þá var skápaplássið ekkert. Núna rúmum 4 mánuðum síðar eigum við loksins nýtt baðherbergi og ég vil helst sofa þar því ég er svo ánægð með það.

Hér koma svo myndir af baðherberginu eins og það lítur út núna.

Mér fannst þessi hnotuspegill úr Ikea passa vel inn og svo fann ég þessi ljós í Byko og loftljósið er í eins stíl. Á tímabili vorum við að missa geðheilsuna, endalaus bið eftir iðnaðarmönnum etc. en núna er maður auðvitað búinn að gleyma því öllu. En jæja við heyrumst betur seinna. Núna eru allar framkvæmdir búnar á heimilinu og við vitum nánast ekki hvað við eigum að gera við okkur. Kannski bara slappa af…

Drauma eldhúsið

0553fc3f90f15aaef0bde8e0a1399589

Ekki að það sé á neinu plani að fara að taka eldhúsið í gegn en ég hef samt gaman af því að skoða, þetta eldhús finnst mér t.d. hrikalega smart og í stíl við húsið, svona smá retro. Mér finnst mikilvægt að reyna að halda í þann rauða retro þráð og held að ég hafi náð því svona nokkurn veginn með baðherbergið. Ég sýni ykkur fyrir og eftir myndir þaðan um helgina.

Heyrumst.

 

Hinn endalausi to-do listi

Mynd tekin úr herberginu hans Svamps seint í gærkvöldi.

***

Þá er herbergið hjá minnsta manninum loksins að verða tilbúið, búið að mála og taka út eitt stk. fataskáp þar sem við ætlum að hafa skiptiborðið og svo í framtíðinni sjáum við það fyrir okkur sem kósýhorn- börn þurfa hvort eð er ekki einhverja risastóra fataskápa. Við þurftum að parketleggja upp á nýtt og byggja við vegginn þar sem skápurinn var innbyggður þannig að þetta er búið að vera smá maus. Við vorum að tala um það í gær að ef við hefðum ekki farið út í sumar þá værum við örugglega búin að missa vitið því að við stoppum eiginlega ekki þegar við erum í fríi hér heima, það eru búnar að vera endalausar framkvæmdir á þessu ári og eiginlega stanslaust síðan í maí. Við erum orðin ansi þreytt á því að geta ekki komið heim án þess að okkar bíði alltaf einhver verkefni. Að ég tali ekki um biðina eftir iðnaðarmönnum, talandi um heila starfsstétt sem þyrfti að fara á námskeið í tímastjórnun. Ég veit að það kemur margt óvænt upp  og oft erfitt að áætla tímann í þeim verkefnum sem iðnaðarmenn eru í, en við erum að tala um að bið eftir iðnaðarmanni sem á að vera kannski 1-2 dagar verða vikur. Jæja það var gott að fá að pústa smá hérna. Ég sýni ykkur betri myndir af herberginu þegar húsgögnin verða komin og svo auðvitað af baðinu ef það verður tilbúið áður en ég fer á eftirlaun.

Nýir náttborðslampar og þreytan ógurlega

Ég get eiginlega ekki lýst því hvað það er mikill munur að hafa losnað við fataskápinn úr svefnherberginu. Hugmyndina að uppröðuninni á myndunum fékk ég af myndum af hótelherbergjum í London, ég elska að fá hugmyndir með því að skoða hótelherbergi.

***

Jæja þá er það bara blessað loftljósið sem vantar inn í hjónaherbergið og þá er ég done. Náttborðslampana keypti ég um síðustu helgi í Habitat, mjög ánægð með þá. Herbergið er svona frekar stílhreint, sem er pínu ólíkt mér, en mér finnst gott að hafa svefnherbergið stílhreint og látlaust. Annars erum við mæðginin heima núna, Jón Ómar náði sér aftur í pest og hefur hóstað alla vikuna og með hita og þó að ég sé ekki veik þá er ég algjörlega búin á því líka, svo þreytt og ÞUNG á mér. Jón Ómar vakti mig í morgun hálfhlæjandi og sagði “mamma þú hraust eins og svín”, ég hugsaði já það er í takt við ástandið á mér, haha. Ég ætla nú að vona að þetta verði ekki staðan næstu 10 vikurnar – ég verð bara að hugsa betur um mataræðið svo ég verði orkumeiri og fara kannski að synda meira áður en ég breytist í bjúgaldin. Jæja þetta var kvart og kvein dagsins, ég verð jákvæðari næst.

Góða helgi.

 

Thonet & Ikea

6fc76d08890811da629dbe1a67a04005a361b480c50df0e3a408dddc064c3e55

Mig langar að “létta” aðeins til í stofunni hjá mér. Núna erum við með dökkgráa mottu og einn stóran hægindastól á móti svarta leðursófanum. Einhvern tímann væri ég til í að eignast tvo svona Thonet stóla til að stilla á móti sófanum og svo skipta dökkgráu mottunni út fyrir þessa fallegu mottu hér að ofan sem kemur frá Ikea. En þetta bíður betri tíma, núna er það í forgangi að græja hjónaherbergið svo við getum fært rúmið úr stofunni, það væri nú gott að geta gert það sem fyrst (!)

Enfin!

Já það held ég nú! Loksins erum við orðin almennilega nettengd og við erum ofsalega glöð með það. Þetta verða því síðustu instagram myndirnar hérna inni á bloggý, jú nema kannski ein og ein læðist með stöku sinnum. Hundleiðinlegt fyrir þá sem eru með mig á instagram að sjá svo sömu myndirnar hér…

Á efri myndinni sjáið þið pínulítil krúttaraleg föt á litla gutta sem ég var að þvo, ég er með snúrur í þvottahúsinu en ég lét Svenna ná í þvottagrindina því ég vildi geta horft á þetta þorna, haha… svo er ég búin að setja flest í þessa blessuðu fæðingartösku en það er eitthvað smotterí sem ég á eftir að kaupa og þá ætti nú flest að vera tilbúið. Undir venjulegum kringumstæðum ættu að vera ca. 3 vikur í hann en maður veit aldrei og ég er mun rólegri vitandi að það sé allt tilbúið fyrir litla augasteininn okkar. Í kvöld kláraði ég svo síðasta jógatímann hjá henni Auði í Jógasetrinu sem ég mæli með. Ég tók bara eitt námskeið þar sem ég er einstaklega lítil jógamanneskja en mér fannst mjög gott að fara og læra að ná tökum á öndun sem gæti nýst mér í fæðingunni og bara svona til að róa mann aðeins.

Neðri myndin er svo bara úr stofunni okkar, ég ligg mjög mikið og læri þessa dagana. Finnst alveg einstaklega óþægilegt að sitja lengi, en gallinn við það að liggja og lesa er að maður sofnar mjög auðveldlega þannig að þetta getur verið svolítið tricky… Ég sofna “sem betur fer” ekki lengi í einu og undanfarið er ég farin að vakna stundum í hóstakasti þar sem mér svelgist á eigin munnvatni, skil ekkert í þessu, má þetta þá frekar bara slefast í koddann.

En jæja, föstudagur á morgun (uppáhalds dagurinn minn) á dagskránni er að læra fyrir hádegi svo hádegisdeit á Vegamótum með vinkonum mínum, mæðraskoðun og svo aftur heim að læra, fínt plan.

Ég er mjög ánægð með að vera “komin aftur” og vonandi verð ég dugleg að blogga þrátt fyrir frekar mikið álag í skólanum næstu þrjár vikurnar…