Mjólkurlaus

Mig langaði að prófa að taka út allar mjólkurvörur og sjá hvaða áhrif það hefði, aðallega hormónalega séð, en ekki verra ef það hefur önnur góð áhrif líka. Það truflar mig í rauninni ekki mikið að taka út mjólkurvörur, ég er strax búin að venjast svörtu kaffi og ég er dugleg að gera mér búst. Einu skiptin sem ég fæ mér mjólkurvörur er þegar ég hreinlega gleymi mér. Í gær eldaði Svenni lambafillet og ég prófaði að gera einhverja paleo sósu, með kókosmjólk, gúrku, dilli og fleiru en mér fannst hún ekki nógu góð þannig að ég verð að prófa mig áfram.

Ég er allavega spennt að sjá hvað þetta mjólkurleysi hefur í för með sér, ég finn allavega strax að ég er að velja hollari mat, eins og t.d. hrökkbrauðið hér að ofan sem er mun næringarríkara en AB mjólkin sem ég fékk mér á morgnana áður.

Heyrumst.

Hinn fullkomni nude varalitur

Þið verðið bara að afsaka en ég held að það sé skráð og viðurkennd regla að þegar maður sýnir varalit að þá setji maður stút á varirnar – er ég á villigötum? Og ef þið voruð að velta því fyrir ykkur þá já, ég er alltaf með svona fullkomlega lyftan top. En í alvöru samt, þegar kemur að hárinu þá á mottóið að vera “go big or go home”- að mínu mati allavega.

Ég er stöðugt á höttunum eftir fallegum og náttúrulegum varalitum, eins náttúrulegir og þeir geta orðið. Þessi varalitur frá L’Oreal er frábær, hann er mjúkur, ekki mattur en ekki of glansandi og hann ilmar vel. Ég keypti hann úti en ég er nokkuð viss um að hann ætti að fást hér heima, liturinn heitir 800 fairest nude og er í línunni Colour riche.

Framundan er helgarfrí og ég ætla að njóta þess í botn en fyrst verð ég að þrífa heima hjá mér svo ég geti notið. Fyrir utan þrif ætla ég að fara í göngutúra, ræktina, elda gott, baka eplaköku sem á að vera sú besta í heimi (set uppskrift hingað inn ef rétt reynist) fara í matarboð, leika við Jón Ómar, horfa á Modern Family og setja fallegar erikur í blómapott. Ég vona að þið hafið það gott um helgina.

Þar til næst.

 

Hlaupið

Ritgerðarskil og veisluhöld síðustu vikna hafa gert það að verkum að líkaminn er ekki í miklu jafnvægi. Mataræðið hefur verið bara “einhvern veginn” og ræktin hefur á stundum verið mjög óregluleg og stundum með ansi löngu millibili, það hefur ekki verið neitt markmið. Það er í rauninni merkilegt að maður skuli láta hollt mataræði og hreyfingu lönd og leið þegar maður þarf í rauninni hvað mest á því að halda. En hvað sem því líður þá er ég komin nokkurn veginn aftur í gírinn, klisjan sem ég er ákvað að segja skilið við sykurneysluna á mánudegi. Ég ætla ekki að hætta henni alfarið en ég ætla að draga verulega úr henni. Eftir sykursukk og brauðát mætti stundum halda að ég væri komin góða 6 mánuði á leið, það er ástand sem maður vill svo sannarlega ekki vera í nema maður eigi raunverulega von á barni (sem ég á ekki). Mig vantar hins vegar drifkraftinn og eldmóðinn sem ég hafði áður fyrir hollu mataræði, ef þið lumið á góðum heimildarmyndum þá megið þið endilega henda þeim á mig hér í kommentum. 
Sem stendur er ég á hálf maraþons hlaupaplani og hef verið að fylgja því undanfarið, svo hafa reyndar verið veislur um helgar og veislumatur ásamt “einstaka rauðvínsglasi”, þannig að mánudagarnir hafa stundum reynst mér erfiðir í hlaupunum og mér líður eins og ég sé á byrjunarreit sem er auðvitað óþolandi. En nú er ekki ein einasta veisla í sjónmáli og ekkert sem á að geta hindrað mig í því að halda mig við planið. Þetta eru 4-5 hlaup í viku og svo einu sinni cross train og þá lyfti ég samkvæmt sérstöku lyftingarprógrammi sem Svenni útbjó handa mér og er hentugt fyrir fólk sem er að hlaupa. Á gamla lyftingarprógramminu mínu var það þannig að ég gat varla hreyft mig ef ég tók það inn á milli hlaupanna, þá fannst mér fæturnir á mér breytast í blý. Í vetur hugsa ég samt að ég myndi vilja að lyfta meira og hlaupa kannski bara tvisvar 5-7 km. í viku, lyftingar gera meira fyrir útlitið, að mínu mati. 
Ég er búin að vera svolítið óþolandi með að pósta hlaupamyndum/ræktarmyndum, bæði til að halda mér við efnið og jafnvel hvetja aðra áfram. Mér finnst það allavega mjög hvetjandi þegar aðrir eru að pósta ræktarmyndum/hlaupavegalengdum á netinu og það drífur mig áfram. 
En þó að markmiðið sé hálf maraþon þá finnst mér ég vera frekar fjarri því markmiði og ég ætla að reyna mitt besta til að ná því en ef ég næ því ekki þá er það líka allt í góðu, þá hleyp ég 10 km. og einbeiti mér að góðum tíma í staðinn. Ég hef bara einu sinni hlaupið 13 km. en annars ekki meira en 10 km. Á laugardaginn eru tæpir 13 km. á dagskránni og þá verð ég stödd í Borgarnesi þannig að ég verð að skipuleggja það hlaup vel og gíra mig upp fyrir það. 
Jæja það er komið að kvöldmatnum, við tölum betur saman síðar. 

Út að hlaupa

Í hlaupagallanum 
***
Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska Sarasota og myndi ekki vilja vera í Orlando aftur, er sú að það er svo yndislegt að hlaupa þar og labba um. Í lokuðum hverfum í Orlando líður mér smá eins og ég sé stödd í Truman Show þar sem allt er eins. Ég er meira fyrir Evrópu heldur en Bandaríkin og Sarasota er meira í stíl við Evrópu, þar sem maður getur t.d. labbað og er ekki fastur í bíl alltaf.
Ég fór að hlaupa ca. 3 í viku og það var yndislegt. Undir lokin var ég farin að heilsa sama gamla manninum sem fór greinilega í kraftgöngur á svipuðum tíma og ég. Svo voru þrír mexikanar á vinnubíl sem voru greinilega að vinna í nágrenninu og voru orðnir mjög vinalegir. Það er líka annað sem er kostur við Siesta Key í Sarasota, það eru allir svo vinalegir og maður finnur ekki fyrir óöryggi.
Ólíkt mörgum fyrri jólum þá bætti ég ekki á mig, heldur náði að bæta hlaupaformið. Núna er bara að halda því áfram. Ég sé mig samt ekki fyrir mér hlaupa úti á þessum drápshálu göngustéttum, það verður að bíða aðeins.

Morgunboost

Næringarríkt og gott boost! 
Það er auðvelt að detta í þá gryfju að fá sér ristað brauð með osti í morgunmat eða eitthvað sykrað morgunkorn, því miður þá er það ekkert sérstaklega næringarríkt og endist manni heldur ekki mjög lengi. Ég þekki þetta sjálf því stundum nennir maður ekki að gera sér annað (fæ mér reyndar aldrei morgunkorn en ristað brauð fæ ég mér stundum) ég er hins vegar að reyna að hugsa að ef maður nennir ekki að dr***ast til að búa sér til hollan morgunmat og hugsa vel um líkamann sinn, hverju nennir maður þá eiginlega? 
Þetta boost er einfalt og mjög gott, þessu öllu er hent í blandarann:
1 stk. lítið avocado
Lúkufylli spínat
Frosin ber
Hálfur banani
Kókosvatn
Hempfræ
Einn lítill biti engifer
Og að lokum Fruit and Greens Phytofoods, einstaklega hollt og stútfullt af næringarefnum. Hjálpar m.a. til við að koma jafnvægi á ph gildi líkamans, það er talið verið mikið vandamál hjá fólki í dag hversu hátt sýrustig er í líkama þess og er það ekki síður vandamál en bólgur sem geta valdið sjúkdómum síðar meir. Ég held að það sé þess vegna mikilvægt að vera meðvitaður um að borða meira af fæðu sem kemur jafnvægi á sýrustig líkamans og forðast fæðu sem veldur háu sýrustigi. Hér fyrir neðan sjáið þið mynd sem skilgreinir þetta ágætlega. 
Jæja nú er það ræktin og svo út úr bænum á ný! 

Photobooth

Kjánalegt photobooth, afsakið það, en það er enginn til að taka mynd – ég gæti jafnvel farið að halda s.k. pósunámskeið, svo sjóaður er maður orðinn í þessu.
***
 
Eflaust allar ungar mömmur geta verið sammála mér að það að komast í litun og klippingu er mesti lúxusinn, fyrir utan svefn. Í dag fengu ca. 5 cm að fjúka, smá kaldari litur og klippt beint beint beint. Ég get alveg 100% mælt með Elsu á Unique hár og spa =)
Sumardagurinn fyrsti á morgun og ég er að spá í að baka eitthvað gott. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að reyna að gera hollari útgáfu af kanilsnúðum eða bara splæsa í óhollu útgáfuna, uppskriftina finnið þið HÉR. Ég sakna kanilsnúðanna minna ansi mikið. Veðurspáin er nú ágæt, ekki mjög heitt á morgun en sól, kannski gæti maður fengið sér kanilsnúð og kaffi á svölunum og notið þess að sitja á nýju útihúsgögnunum, það væri nú eitthvað.

Enskar tebollur

Svona er ég, ég geri ekkert í eldhúsinu af viti í kannski 2-3 mánuði og svo allt í einu fæ ég eitthvað kast og þá geri ég fátt annað en að baka/elda… Þessar brauðbollur eru mjög einfaldar, sniðugar ef þið viljið hafa nýbakað brauð einhvern morguninn en nennið ekki að eyða tveimur tímum í það að baka. Ég man ekki hvort ég hafi sett uppskriftina að þeim hingað inn einhvern tímann, en hérna kemur hún þá bara aftur.

Hitið 3 dl. af mjólk og 1 dl. af olíu í potti þar til blandan er orðin 37°c heit, bætið þá einum poka af þurrgeri útí.

Blandið 500-600 gr. af hveiti (ég notaði heilhveiti en það á að vera venjulegt hveiti) 50 gr. sykur, 1 tsk. kardimommudropum, 2 eggjum og mjólkurblöndunni.

Látið hefast í ca. 30-40 mín.

Búið til bollur og penslið þær með kaffi.

Bakið í ca. 10-12 mín.

Núna ætla ég að hendast í sund, ég finn það að ég hef ekki verið dugleg að æfa, mér finnst ég þurfa að styrkja mig og reyna aðeins á lungun – sem eru kramin þarna einhvers staðar inní mér. Hvað gerðuð þið á meðgöngunni til að halda ykkur í formi? Sharing is caring =)