Flórida 

Mér datt í hug að skrifa aðeins um fríið sem við fórum í til Flórida, ég fæ af og til senda pósta með fyirspurnum um ýmislegt tengt Flórida og því ekki úr vegi að skrifa bara aðeins hér inni um þennan ágæta áfangastað.

Við erum mjög hrifin af Flórida og höfum farið þangað þó nokkrum sinnum, veðrið þar er gott, það er góður matur, það er beint flug þangað (og ekki með PrimeraAir!) það er gott að versla þarna og það er gott að spila golf. Síðasti punkturinn skiptir mig reyndar ekki máli en maðurinn minn spilar golf.

Við fórum í mars sl. og þá var Hrólfur Bragi rúmlega 3 mánaða. Við vorum svo heppin að fá sæti fyrir barnabílstólinn bæði á leiðinni út og heim þannig að hann gat sofið þar, það munaði miklu að þurfa ekki að halda á honum alla leiðina. Hann svaf, drakk og var aðeins vakandi og það var ekki mikið mál að fljúga með hann. Farþegarnir sem sátu í kringum okkar sæti í vélinni voru samt pínu skelkaðir á svipinn þegar þeir sáu okkur setjast, en ég fékk að heyra bæði á leiðinni út og heim hvað Hrólfur væri góður og að það heyrðist varla í honum ❤  Þetta er í fyrsta sinn sem ég var þakklát fyrir ókyrrð í flugi því hún hjálpaði honum að sofna í eitt skiptið. Við vorum með bílstólinn á bugaboo kerrunni okkar og svo tók flugvallarstarfsmaður kerruna niður í farangursrýmið þegar við fórum um borð. Reyndar þurftum við svo að sækja þetta þar sem farangurinn var en það hefði verið mun þægilegra ef það hefði verið komið með þetta up aftur þegar við fórum frá borði, eins og gert er t.d. með hjólastólana. Núna ákváðum við að gista á Hyatt flugvallarhótelinu þegar við lentum í staðinn fyrir að standa í því að leigja bílinn og keyra á resortið þarna um kvöldið. Þetta var algjör snilldarákvörðun, gátum bara labbað beint upp á hótel, allir grútþreyttir. Svo daginn eftir fór Svenni í rólegheitum og náði í bílinn. Ég hugsa að við munum gera þetta alltaf svona framvegis. Þetta sparar eina nótt á resortinu og einn dag með bílinn.

Hrólfur var nokkuð þægilegur þarna úti, stundum varð hann pirraður þegar það var of heitt, sem gerðist stundum seinni vikuna en annars var hann frekar rólegur þegar við fórum og fengum okkur hádegismat og svo var ég dugleg að fara í göngutúra um hverfið á meðan Jón Ómar fór með pabba sínum í sund. Við fórum ca. þrisvar út að borða á kvöldin þar sem við nenntum ekki einhverju stressi með Hrólf pirraðan, við pöntuðum þá bara mat af þeim veitingastöðum sem okkur fannst góðir og borðuðum í rólegheitum heima.

Við vorum núna í Kissimmee á svæði sem heitir Reunion Resort. Við vorum þar líka síðasta sumar í eina viku og eina viku á Longboat Key við ströndina. Jón Ómar fílaði sig mikið betur á Reunion Resort þar sem er fullt af laugum og tækjum og nóg að gera fyrir litla krakka. Það var þess vegna ákveðið að fara og vera allan tímann á Reunion núna. Persónlega finnst mér svæðið í kringum Siesta Key mun skemmtilegra en að vera í Orlando, ég elska að vera við ströndina og mér finnst svæðið þarna niðurfrá mun meira aðlaðandi, en það er mjög næs að vera á svona resorti þegar lítil börn eru með í för og Jón Ómar virðist vera meiri sundlaugargæi en strandgæi.

Reunion er þægilegt því þetta er ekki týpískt lokað hverfi með einu klúbbhúsi heldur eru nokkrir veitingastaðir þarna, sundlaugagarður með rennibrautum, stór sundlaug  og svo minni sundlaugar með heitum pottum út um allt svæðið. Svo er líka spa þarna fyrir þá sem hafa áhuga á því, líkamsrækt, tennisvöllur og svæði með poolborði, ping pong og auðvitað mjög flottir golfvellir. Þetta er svona pínu eins og lítill bær.

Ég á alveg eftir að fara í almennileg sumarfrí til suður-Evrópu, ferðast um Ítalíu og Frakkland til dæmis en við geymum það aðeins þangað til Hrólfur er orðinn eldri, núna hentar það okkur fullkomlega að fara til Flórida þar sem við þekkjum inn á flest.

Jæja ég hef þetta ekki lengra í bili, heyrumst.

Flórida 2016 – uppsóp

_MG_5657
Brjálað að gera 

_MG_5661

_MG_5670
Beðið eftir hádegismat við sundlaugina
_MG_5688
Alltaf sami morgunmaturinn, vanillu múslí með möndlumjólk og fersk ber/ávextir

_MG_5689_MG_5690_MG_5694

_MG_5705
….og svo auðvitað kaffi
_MG_5715
Ég var ekkert smá glöð með að hafa keypt þennan bol með sólarvörn handa honum, hann var alltaf í honum og ekki veitti af því sólin var steikjandi. 
_MG_5718
Í krókódílagarðinum
_MG_5754
Það var tennis-og körfuboltavöllur þar sem við vorum seinni vikuna, litla manninum til mikillar ánægju.
_MG_5772
Þessi staður! 

_MG_5776

_MG_5780
Feðgar að kæla sig, þó sjórinn hafi nú næstum verið of heitur. 
_MG_5783
Longboat Key 
_MG_5795
Kvöldsund í fallegu kvöldsólinni
_MG_5816
Alls ekkert gervibros.
_MG_5823
Ég var þarna líka! 
_MG_5824
Dásamlega góður grískur veitingastaður á St. Armand’s Circle
_MG_5825
Haha, Jón Ómar með fullan munninn af brauði.
_MG_5833
Litla fyrirsætan mín.
_MG_5838
Tilvalin til stækkunar

IMG_3487

 

Hér koma síðustu myndirnar úr dásamlega sumarfríinu okkar. Ég hlakka strax til að fara aftur, hvenær sem það nú verður.

Flórida

Ég næ ekki að færa myndir af myndavélinni minni yfir á tölvuna þannig að þangað til það tekst að þá langaði mig að setja nokkrar myndir hingað inn sem ég var með á símanum.

Jón Ómar var eins og ljós í öllum flugferðunum (við flugum til Boston og þaðan til Orlando) Við vorum búin að undirbúa okkur undir það að hann yrði eitthvað þreyttur og pirraður á að sitja svona lengi en þetta var ekkert mál og hann var svo sáttur með allt.

Þarna vorum við í Gatorland í Orlando. Það var svo ógeðslega heitt þarna að ég meikaði eiginlega ekki að vera þarna. Hitinn var allt í lagi þegar maður gat hent sér í laugina eða sjóinn þegar það varð of heitt en maður var nú ekki beint að stinga sér til sunds þarna.

Ein sólbaðs-selfie. Ég reyndi nú mest að skýla andlitinu frá sólinni enda finnst mér það ekki fallegt þegar ég verð of brún í framan og með svona ljóst hár, fyrir utan hvað það fer illa með húðina.

Fyrri vikuna gistum við á Reunion Resort í Orlando. Ég er alls ekki hrifin af Orlando í sjálfu sér (frekar ljót og menningarsnauð borg, haha) en þessi lokuðu svæði geta verið mjög flott og alveg tilvalin þegar maður er með born. Við vorum rosalega ánægð þarna og vorum í íbúð þar sem við gátum eldað og haft það kósý. Ég hugsa að ég muni ekki bóka hótelherbergi nema þegar við erum að ferðast bara tvö hjónin, það verður að vera hægt að “athafna” sig aðeins þegar börn eru með í för. Svo fannst okkur líka mikilvægt að við gætum spjallað og gert eitthvað á kvöldin eftir að Jón Ómar var sofnaður og þess vegan vildum við ekki vera á hótelherbergi. Við reyndar sofnuðum mjög oft öll þrjú á sama tíma, haha.

Litli maðurinn sem var svo ótrúlega sáttur með allt saman, það var alveg ótrúlega gaman að vera í fríi með honum. Hann gerir einfaldlega allt betra. Þetta var svolítið sérstakt frí því við hugsuðum að þetta væri svona síðasta einkaprins-dekurfríið áður en næsti prinsinn mætir, það verður nú eitthvað. Jón Ómar sem er vanur að vera miðpunktur athyglinnar fær nú örugglega smá sjokk í lok nóvember 😉 Mynd af svæðinu. Við vorum í svona húsi, ekki þessu húsi samt.

Horft út um svefnherbergisgluggann. Við borðuðum morgunmat úti á svölunum en annars vorum við ekkert mjög mikið þar, það var svo gott að koma inn í loftkælinguna, hahaha.

Seinni vikuna vorum við á Longboat Key, þá vorum við með eina litla laug og svo auðvitað ströndina. Við höfðum áður verið á Siesta Key og þó að Longboat Key hafi verið rosalega fínt þá vorum við hrifnari af Siesta Key. Þar er meira líf, ströndin er stærri og það er lítill bæjarkjarni á Siesta Key sem er gaman að rölta um. Við verðum örugglega á Siesta Key næst en það var gaman að prófa þetta.

Við keyptum þessa kerru í algjörri bugun í einu outletinu í Orlando. Við fengum þá hræðilegu hugmynd að fara saman með Jón Ómar að versla og það gekk auðvitað ekki upp, en við keyptum þessa kerru þarna í outletinu og þó hún hafi eiginlega verið of lítil og algjört drasl þá notuðum við hana alveg frekar mikið restina af ferðinni. Næst fórum við ein að versla í outletinu, sem sagt eitt í einu og annað okkar var með Jón Ómar á meðan.

Anna Maria Island, gaman að skoða sig um þarna en svo sem ekkert stórfenglegt.

Á leið út að borða á Hyde Park í downtown Sarasota, besta steikin sem ég fékk þarna. Það er mjög mikið af eldra fólki á þessu svæði og ég hélt að konan á næsta borði myndi andast ofan í súpuskálina sína, ætli meðalaldurinn hafi ekki verið 70 ár þarna.

Feðgar í fallegum garði í Sarasota, alveg við höfnina.

Tvær yndislegar vikur og við vorum sammála því að þó það sé hálfgerð synd að fara frá Íslandi á þessum tíma þá er það allt annað að vera í  fríi heima hjá sér því þá erum við eiginlega alltaf að stússast og græja eitthvað. Við munum því halda áfram að fara erlendis á þessum tíma á meðan maður hefur eiginlega ekkert annað val út af lokun á leikskóla.

Ég vona að ég nái að færa myndirnar úr myndavélinni minni hingað inn, þá kemur Florida blogg nr. 2.

Heyrumst!

 

 

Árinu eldri

Miami 
***
Eins og ég sagði þá fórum við hjónin einn sólarhring til Miami, hvorugt okkar hafði komið þangað áður. Við nutum þess að vera þarna en vorum sammála um að það væri nú eiginlega betra að vera hér í rólega Sarasota. Þegar maður er kominn með barn þá hugsar maður hlutina allt öðruvísi, þá skipta öryggi og þægindi öllu máli. 
Afmælisdagurinn byrjaði vel með gjöfum og góðum morgunmat. Ég breytist í algjört átvagl hérna úti, borða t.d. majónes með frönskum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Eftir morgunmatinn fórum við sólbað, fengum okkur hádegismat og svo brunuðum við fljótlega heim aftur þar sem við vorum farin að sakna Jóns Ómars svo. 
Nú er ég orðin ansi syfjuð og ég hugsa að ég hendi mér á koddann mjög fljótlega. Heyrumst!

Siesta Key

Aðeins kíkt á ströndina í dag
***
Í dag kíktum við aðeins á ströndina sem er í 5 mínútna göngufæri frá húsinu sem við leigjum. Á þessari strönd (sem var kosin sú flottasta í Bandaríkjunum) er sandurinn eins og flórsykur og það er ekki troðið af fólki, yndislegt. Við búum líka rétt hjá Siesta Key Village, þar sem hægt er að fá franskan morgunmat, mexikanskan mat, dásamlegan ís sem Amish fólk býr til, vínsmökkun, dásamlega nýkreista safa etc. Svo er þar einnig að finna hárgreiðslustofu sem ég horfi oft á þegar mig langar að losa mig við þessa heysátu á höfðinu. Við höfum það yndislegt hérna og þó svo ég elski íslensk jól þá sakna ég þeirra ekki neitt, svo þakklát fyrir það að geta eytt þessum tíma hérna með fjölskyldunni minni. Á morgun förum við hjónin til Miami að horfa á körfuboltaleik og halda upp á afmælið mitt, amma og afi passa litla snúð á meðan. 
Heyrumst seinna.

Siesta Key Beach & village

Siesta Key village er mjög skemmtilegt, ólíkt Orlando þá er mjög mikið hægt að labba hérna um og mikið um skemmtilega veitingastaði, m.a. stað sem selur franskan morgunmat, ég þangað áður en við förum heim. Í gær fórum við á mjög góðan mexikanskan veitingastað og ég fékk mér margaritu og fish tacos sem var rosalega gott. Við gátum reyndar ekki notið matarins mikið þar sem Jón Ómar tók fyrsta pirringskastið sitt í þessari ferð þannig að við hlupum með hann út af staðnum áður en fólkið í kringum okkur færi að kvarta. Pabbi hans náði svo að svæfa hann og hann lá í vagninum sínum á ströndinni á meðan ég drakk smá hvítvín og steikti á mér húðina (!), skil ekki hvernig ég gat brunnið, notaði 45 spf og block!  Í dag ætla ég að sitja einhvers staðar í skugga og lesa Clean Eating blaðið sem ég keypti mér í Whole Foods í gær 😉 

Siesta Key Beach & village

Siesta Key village er mjög skemmtilegt, ólíkt Orlando þá er mjög mikið hægt að labba hérna um og mikið um skemmtilega veitingastaði, m.a. stað sem selur franskan morgunmat, ég þangað áður en við förum heim. Í gær fórum við á mjög góðan mexikanskan veitingastað og ég fékk mér margaritu og fish tacos sem var rosalega gott. Við gátum reyndar ekki notið matarins mikið þar sem Jón Ómar tók fyrsta pirringskastið sitt í þessari ferð þannig að við hlupum með hann út af staðnum áður en fólkið í kringum okkur færi að kvarta. Pabbi hans náði svo að svæfa hann og hann lá í vagninum sínum á ströndinni á meðan ég drakk smá hvítvín og steikti á mér húðina (!), skil ekki hvernig ég gat brunnið, notaði 45 spf og block!  Í dag ætla ég að sitja einhvers staðar í skugga og lesa Clean Eating blaðið sem ég keypti mér í Whole Foods í gær 😉