Siesta Key

Aðeins kíkt á ströndina í dag
***
Í dag kíktum við aðeins á ströndina sem er í 5 mínútna göngufæri frá húsinu sem við leigjum. Á þessari strönd (sem var kosin sú flottasta í Bandaríkjunum) er sandurinn eins og flórsykur og það er ekki troðið af fólki, yndislegt. Við búum líka rétt hjá Siesta Key Village, þar sem hægt er að fá franskan morgunmat, mexikanskan mat, dásamlegan ís sem Amish fólk býr til, vínsmökkun, dásamlega nýkreista safa etc. Svo er þar einnig að finna hárgreiðslustofu sem ég horfi oft á þegar mig langar að losa mig við þessa heysátu á höfðinu. Við höfum það yndislegt hérna og þó svo ég elski íslensk jól þá sakna ég þeirra ekki neitt, svo þakklát fyrir það að geta eytt þessum tíma hérna með fjölskyldunni minni. Á morgun förum við hjónin til Miami að horfa á körfuboltaleik og halda upp á afmælið mitt, amma og afi passa litla snúð á meðan. 
Heyrumst seinna.
Advertisements

Haustfegurð

Yndislegur morgunn
***
Haustið, náttúran er svo brjálæðislega falleg í haustsólinni að maður fyllist af þvílíkri lífsorku. Kalt og hreint loft, smá roði í kinnum og gott spjall, það er ekki hægt að byrja daginn betur en á göngutúr á svona fallegum degi. Planið var að taka nokkrar myndir af Jóni Ómari í haustsólinni en hann sofnaði bara þegar við vorum hálfnuð í kringum vatnið, þannig að það varð ekki mikið um myndir í þetta skiptið, af honum þ.e.a.s. 
Nú ætla ég að enda þennan góða dag á heimildarvinnu, andstæðurnar maður.

Leið…

***
Í morgun flaug Unnur Tara systir til London og fer svo í fyrramálið áfram til Ungverjalands. Ég er þess vegna mjög leið í dag. Hún er svo ótrúlega dugleg og einbeitt og stundum ef mig langar til að gefast upp, þá hugsa ég til hennar og held áfram. Hún er klár, kreisí falleg, svo ljúf og góð og ég sakna hennar strax. 
Jæja, mjög langur skóladagur framundan, heyrumst seinna.

Bláar myndir

 Unnur Tara systir á Rauðasandi
 Við fundum fullt af selum og ég bara starði á þessa ótrúlega fallegu náttúru sem umkringdi okkur
 Horft út Patreksfjörðinn
 Feðgar á toppnum
 mamman var þarna líka 
 Horft inn í Patreksfjörð og þarna sést í sandoddann líka 
 
 Jón Ómar sáttur á toppnum og ákvað að sýna okkur hvað hann væri stór fyrst að ég var að taka mynd af honum. 
Systurnar með pabba uppi á Geirseyrarmúla
Jæja þá er verslunarmannahelgin að syngja sitt síðasta og framundan er annasamt haust og algjörlega nýjar rútínur. Í haust ætla ég að halda áfram að vera dugleg í ræktinni, elda hollan og góðan mat, læra læra læra og vera góð mamma og eiginkona. Ég er mjög spennt fyrir haustinu, svo fallegur árstími og fullt af skemmtilegum hlutum framundan =) 
Jæja þá ætla ég að halda áfram að berjast við þvottahauginn og önnur uppsöfnuð húsverk, gaman! 😉

Hið vikulega blogg – Akureyri

Nokkrar myndir frá Akureyri og Vaglaskógi
*** 
Í sumar höfum við verið nokkuð dugleg við að ferðast um landið, þó að manni hafi nú stundum langað til að panta ferð út í sólina, þá höfum við frekar reynt að elta góða veðrið hér heima og það hefur nú bara tekist ágætlega. Sól og strönd verður að bíða desembermánaðar og ég er alveg sátt við það. Við keyrðum suðurleiðina austur og skoðuðum austfirðina, svo keyrðum við norður og áttum nokkra góða daga á Akureyri. Á morgun liggur leiðin í Hrútafjörð í afmæli og svo á fimmtudaginn ætlum við að keyra vestur og eyða verslunarmannahelginni þar, við erum svona næstum því búin að fara hringinn. 
Þó ég sé búin að eiga gott sumarfrí þá hlakka ég til að fá haustið, klára síðustu námskeiðin í lögfræðinni og sjá loksins fyrir endann á háskólanáminu sem hófst árið 2005 hjá mér. Svo er haustið líka fallegasti árstíminn og táknar oft upphafið að einhverju nýju – miklu frekar en janúar finnst mér. 
Vonandi fara bloggin að verða reglulegri, ég hef algjörlega vanrækt þetta sökum ferðalaga og áhugaleysis en vonandi fara að birtast hér fullt af bloggum um líkamsrækt, hollt og hreint mataræði, uppskriftir, kannski smá tísku og auðvitað le bébé. 
Ég er svo með eina spurningu í lokin, mig hefur stundum langað að skrá  niður árangur og líkamsræktar rútínuna hér á bloggið, aðallega til að halda mér við efnið og svo kannski til að veita öðrum innblástur – er það eitthvað sem áhugi væri fyrir? Ég myndi þá kannski setja kílóatölu/fituprósentu og svo æfingarprógrammið + mataræði?
Jæja, heyrumst betur seinna.

Unnur Tara & Jón Ómar

Jón Ómar glaður yfir því að fá loksins að leika við Unni frænku sem er komin heim í sumarfrí.
***
Æfing dagsins búin, hrikalega gott að svitna og taka á því og ennþá betra verður að komast í nudd seinna í dag. Ég fór í nudd hjá manni fyrir um mánuði síðan og hann hnykkti brjóstbakið á mér og ég er búin að vera verkjuð síðan þá. Maðurinn var auðvitað ekki hnykkjari og hnykkti mig án þess að biðja um leyfi og án þess að vita nokkuð um ástand mitt. Ég get orðið svo reið yfir svona löguðu, algjört hugsunarleysi hjá þessum manni. Allavega, þá vona ég að nokkrir nuddtímar bjargi mér, ég verð vitlaus á því að vera svona. 
Áðan fór ég og skrifaði undir hjá dagmömmunni sem Jón Ómar verður hjá í vetur, líst alveg ótrúlega vel á hana, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og ótrúlega skrítin tilhugsun að skilja hann eftir hjá öðrum allan daginn. 
Jæja heyrumst betur seinna!

Slakki

Fjölskyldustund í Slakka um helgina síðustu.  Jón Ómar sem er yfirleitt alltaf brosandi, var svo einbeittur að skoða öll dýrin, að honum stökk ekki bros á vör. Krúttið mitt.