Uppskrift

Kvöldmaturinn

***Jæja það er nú langt síðan ég henti uppskrift hingað inn. Þetta er í rauninni engin „uppskrift“ heldur einfaldlega útfærsla af ommelettu. Ég elska að vera nýtin í eldhúsinu og er sífellt að reyna að taka mig á í þeim efnum. Undanfarið höfum við minnkað þessi týpísku stórinnkaup og förum einfaldlega oftar og kaupum nákvæmlega það sem vantar. Ég þarf ekki að eiga fulla skápa af mat, a) vegna þess að við erum ekki á leiðinni í stríð, b) næsta matvöruverslun er í 15 mínútna göngufæri frá mér. Eftir að við hættum þessum stórinnkaupum þá hefur minna af mat farið í ruslið og nei, það er ekki dýrara að fara oftar í búðina. 
Ommeletta er eitthvað sem við gerum reglulega og mættum í rauninni gera oftar. Í kvöld þá bjó ég til ofnbakaðar ommelettur með laxi síðan úr kvöldmatnum í gær, brokkolí, steinselju, sellerí, hvítlauki, spínati, graskersfræum, pestói, tómötum og osti. 
Ég byrja að steikja allt grænmetið (nema tómatinn) á pönnu og salta smá og pipra. Ég færi græmetið yfir í skál og blanda saman í sér skál eggjum, 1 tsk. af dijon sinnepi, salti og pipar og helli á pönnuna. Grænmetinu helli ég ofan á eggjablönduna á pönnunni, ásamt laxinum sem ég var búin að rífa niður og set ca. 2 tsk. af rauðu pestói ofan á og strái yfir graskersfræum áður en ég loka ommelettunni. Ég bjó til tvær svona ommelettur og notaði 7 egg. 
Ommeletturnar færi ég svo yfir á eldfast mót og raða ofan á þær tómötum sem ég var búin að skera í sneiðar. Ofan á tómatana strái ég rifnum osti og/eða fetaosti. Inn í ofn í ca. 15 mín við 200 gráður. 
Endilega prófið þetta 😉 
Advertisements

Súkkulaði-kókoskúlur án sykurs

****
Í gær bjó ég til þessar einföldu en mjög svo góðu kúlur. Ég er algjör sökker fyrir sætindum og núna er ég ekki búin að vera nógu dugleg að halda mér frá sykrinum. Ég er mjög pirruð yfir því hvað löngunin í sykur verður yfirgengileg, þoli það ekki að hafa ekki stjórn á þessu. En nú skal hysjað upp um sig buxurnar og haldið áfram þar sem frá var horfið. Þá er nú gott að eiga þessa skratta inni í ísskáp. 
Ég ætla að biðja ykkur í guðanna bænum að fara ekki út í búð og kaupa innihaldið í þessar kúlur fyrir 10.000 kr. Ég notaði það sem ég átti uppí skáp og það er hægt að sleppa ýmsu af þessu og bæta öðru í. En í þessar kúlur notaði ég:
4 msk. lífrænt kakóduft,  10 stk. mjúkar döðlur, 1 tsk. vanilludropa, 4 msk. kókosolía við stofuhita, 2 msk. hempfræ, 2 msk. chiafræ, 2 msk. lucuma duft, 2 msk. maca duft, 1 tsk. kanil, 2 dl. kókosmjöl, 1 dl. kasjúhnetur, 1 msk. hunang (getið notað stevia í staðinn)
Ég á Vitamix blandara sem ég nota óspart sem matvinnsluvél. Ég setti kakóduftið, kókosolíuna, döðlurnar, vanilludropana, kasjúhneturnar og hunangið í blandarann og maukaði vel. Þessu blauta mauki hellti ég í skál og bætti við öllum hinum þurrefnunum. Ef ykkur finnst þetta vera of blautt ennþá þá getið þið bara bætt aðeins meira af kókosmjöli. Svo getur líka verið gott að setja haframjöl í þessar kúlur. Ég rúlla þeim í smekklegar litlar kúlur og velti upp úr kókosmjöli. Ég set þær svo í frystinn í smá tíma áður en ég borða þær. Svo geymast þær vel í ísskáp. 
P.s. Í kvöld byrja ég á hugleiðslunámskeiði, alveg ótrúlega spennt fyrir því. Maður þarf að næra andlegu hliðina líka.  
UPDATE: Ég gerði kúlurnar aftur í gær og fattaði þá að ég hafði gleymt að skrifa 1 og 1/2 msk. kaffi og svo notaði ég líka 1 dl. haframjöl, mjög gott!

Morguninn í myndum

Við mæðginin erum heima í dag, Jón Ómar er orðinn hitalaus en það er gott að ná að jafna sig almennilega áður en hann fer aftur til dagmömmu. Ég þurfti smá tíma til að henda í brauð og leyfði Jóni Ómari þess vegna að leika lausum hala í skúffum og skápum. Hann fann gömul jólakort og datt heldur betur í lukkupottinn.
 
 Ég bakaði brauð sem ég hef gert svo oft áður og er hlægilega einfalt. Þið finnið það með því að skrifa “10 mínútna brauðið” í leitarvélina hér á síðunni. 
Svo ákváðum við að skella í hollustukúlur, ef þið hafið áhuga á uppskrift þá skal ég setja hana hingað inn. Jón Ómar hjálpaði til, aðallega með því að strá kókosmjöli á gólfið en mamman hefur bara gott af því að ryksuga.
 
 Tilbúnar og á leiðinni í frysti. 
Sætasti aðstoðarmaður sem ég hef haft. 
 
Valentínusarblómin falleg og ilmurinn af liljunum er ekki kæfandi, það kann ég að meta. Ég veit ekkert verra en liljur sem ætla að kæfa mann úr fýlu. Eins og einhver hafi pissað í skál og sett hana á ofninn. En eins og ég sagði, þá er ilmurinn af þessum er daufur og þá finnst mér hann góður.
***
Ég vona að þið hafið byrjað vikuna á góðum nótum. Seinna í dag bíður mín langþráð nudd og svo er það skólinn í kvöld. Heyrumst seinna.

Ofnbökuð langa í parmesan-og furuhnetuhjúp með mangósósu


Þessi mynd fær ykkur kannski ekki til að vilja elda þennan rétt, ég mæli hins vegar með því og biðst í leiðinni afsökunar á lélegri mynd 😉 
***

Ég elska fisk og undanfarin ár hef ég verið mun opnari fyrir því að borða alls konar tegundir af fiski. Áður fyrr var það aðallega lax og ýsa sem maður borðaði. Ég gæti auðveldlega borðað fisk alla daga vikunnar, ég elska fisk og bý nálægt æðislegri fiskbúð þar sem við kaupum alltaf fiskinn okkar. Það er sama hvað ég kaupi, fiskurinn er alltaf góður. Mér er mikið í mun að Jón Ómar alist upp við það að borða fisk því ég vil alls ekki að hann verði einhver gikkur í fiskiáti. Mjög oft kaupi ég tilbúinn fiskrétt sem ég þarf bara að henda inn í ofn í 15-20 mín og maturinn er tilbúinn. Núna langaði mig hins vegar að prófa rétt sem ég hef verið með á heilanum síðan á föstudaginn. Vinkona mín sagði mér frá rétti sem hún hafði fengið í matarboði og ég hef ekki hætt að hugsa um hann síðan. Þetta var sem sagt langa velt upp úr parmesan osti, inn í ofn og borin fram með mangósósu. Þetta gat ekki klikkað. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig uppskriftin er en hér kemur mín aðferð.

Parmesan hjúpur fyrir ca. 800 gr. af löngu

Lítill poki furuhnetur, ristaðar og hakkaðar mjög smátt (ég notaði blandara til að fá þær almennilega muldar)
3 – 4 dl. ferskur rifinn parmesanostur
Salt
Pipar
1 msk. ‘Herbs de Provence’ kryddið frá Pottagöldrum

– Þessu öllu er blandað saman

Hrærið saman 1 dl. af ólífuolíu, smá salt og pipar í sér skál. Veltið ca. 10 cm. löngum bitum af löngu upp úr olíunni og svo upp úr parmesanblöndunni, raðið bitunum í eldfast mót. Eldið fiskinn við 180 gráðu hita í ca. 20 mínútur.

Í sósuna þurfið þið

1 dós sýrður rjómi
1 msk. mango chutney
safi úr 1/2 lime
2 msk. karrý
Salt og pipar

Með þessu bar ég fram sætar kartöflur, snöggsteikt brokkolí og ferskt salat. Jón Ómar borðar brokkolí og þess vegna geri ég það mjög gjarnan með mat, helst steikt upp úr smávegis af smjöri.

Ég mæli með þessari uppskrift, alls ekki seinleg og mjög góð.

Heyrumst seinna.

Laxasalat með mangó – og avocadosalsa og ristuðum pekanhnetum

Léttur og góður kvöldmatur
***
Það eru örugglega fleiri en ég sem hafa fisk á boðstólnum svona í byrjun janúar eftir þungan mat í síðasta mánuði. Ég reyndar borðaði mjög fáar smákökur og konfekt og jólasteikurnar klassísku voru ekki á matseðlinum þessi jólin. Ég elska fisk og gæti borðað hann hvern einasta dag. Í kvöld ákvað ég að búa til salat með laxi, hér er uppskriftin ef þið hafið áhuga á að prufa,
Mangósalsa
3 lítil avocado skorin í litla teninga
1 lítið mangó skorið í teninga
Handfylli ferskur kóriander
1/2 rauðlaukur
1 msk. kórianderfræ
Safi úr 1/2 lime
Salt og pipar
Laxinn
Venjulegar laxasteikur kryddaðar með salti og pipar
2 tsk dijon sinnep hrært saman við 1 tsk hunang og penslað á laxinn
– Inn í ofn á 180 gr. í ca. 15-20 mín þar til laxinn “losnar” auðveldlega í sundur. 
Ég notaði iceberg salat, innsta hlutann þar sem hann er svo stökkur og góður. Ysta hlutann af hausnum setti ég í loftþéttan poka og nota í salat á morgun. Setjið smá olíu og sítrónusafa yfir icebergið, eða hvaða salatdressingu sem ykkur langar. Takið roðið af laxinum og setjið hann ofan á salatið. Næst dreifið þið yfir ca. 3-4 msk. af salsanu ofan á laxinn og toppið með ristuðum pekanhnetum til að fá smá “crunch” í salatið. Ég setti líka smá capers í mitt salat en það er bara smekksatriði. 

Hollur réttur með fullt af góðri fitu sem gerir húðina svo fallega =)

Bon apetit! 

Sunnudagur

Fyrsti kvöldmaturinn heima í rúmar þrjár vikur
***
Einn af uppáhaldsrétti (allra) í fjölskyldunni er pasta með góðri kjötsósu og parmesan, fljótlegt og gott. Ég smakka mig áfram og krydda vel, mikið af timian og herbs de provence kryddinu frá Pottagöldrum, hvítur pipar og lárviðarlauf. Þessi krydd áttu sviðið í kvöld en rétturinn er aldrei alveg eins, stundum finnst mér líka gott að setja karrý í kjötið og stundum einhvers konar baunir, þá þarf heldur ekki eins mikið kjöt. Jón Ómar elskar svona hakk og ég auðvitað elska að gefa honum að borða þegar hann borðar vel, sem hann gerir oftast.
Á morgun tekur alvaran við eftir yndislegt frí sem við erum svo ánægð með. Jón Ómar hefur þroskast svo mikið í þessu fríi að dagmamman mun örugglega sjá mikinn mun á honum í fyrramálið. Hann er farinn að nánast hlaupa um og tjá sig svo miklu meira. 
Tímamismunurinn er aðeins að fara með fjölskylduna. Við sváfum frá 21.00- 10.30 síðustu nótt og núna klukkan 23 var litli pilturinn loksins að sofna. Hann verður hress í fyrramálið hjá dagmömmunni sinni.
Ég þarf víst að fara að byrja á masters ritgerðinni minni, er það ekki bara piece of cake? ehhh….. 
Heyrumst á morgun! 

Saffran bollur

Tadaaaa! 
Síðustu ár hefur mig alltaf langað til að baka lussekatter eins og þeir heita á sænsku, en aldrei gefið mér tímann í það. Í dag var síðasti séns og ég ákvað að skella í eina uppskrift. Ég notaðist við sænska uppskrift sem ég fann á netinu. Saffran er auðvitað mjög dýrt krydd og ég borgaði 1.097 kr. fyrir 1 gramm. En það þarf ekki meira en eitt gramm í þessa uppskrift. Á móti kemur að hin hráefnin í þessa uppskrift eru tiltölulega einföld og ódýr, þetta er örugglega ekkert dýrara en hver önnur rjómaterta eða lakkrístoppa uppskrift. 
Saffran bollur
100 gr. smjör
1. gr. saffran (oftast eru þetta saffranþræðir sem eru seldir, þá malið þið þá bara í mortéli)
5 dl. mjólk
50 gr. pressuger (geymt í kælinum í búðum)
1 lítil dós kotasæla
2 dl. sykur
14 dl. hveiti
1 msk. kardimommur heilar (malið í mortéli)
1/2 tsk. salt
Bræðið smjörið og saffran í potti þar til það er orðið volgt. Bætið þá mjólkinni saman við. Takið hluta af þessari blöndu og blandið pressugerinu saman við, bætið því svo við restina af mjólkurblöndunni. 
Hellið mjólkurblöndunni í hrærivél ásamt öllu hinu og blandið vel. Hnoðið í höndum og látið hefast undir viskustykki í 30 mín. 
Skerið lítil stykki af deiginu (eins og ég sýni hérna á myndinni fyrir ofan) og rúllið í ca. 20 cm. langar lengjur. Rúllið síðan upp báðum endum eins og ég sýni líka hér fyrir ofan. Setjið tvær rúsínur í hvorn endann. Hefið aftur í 30-40 mín undir viskustykki á ofnplötunni. Penslið bollurnar með eggi og inn í 225 gráðu heitan ofn í ca. 6 mínútur, passa vel upp á tímann. 
Þetta eiga að verða ca. 40 stykki, urðu ekki nema 30 hjá mér en mínar bollur urðu líka aðeins of stórar. 
Ég elska þessa lussekatter og ég fæ eiginlega nostalgíukast við að borða þá. Minnir mig á það þegar ég var lítil og bjó úti í Svíþjóð =)
Heyrumst seinna!