Ljúffengur hrísgrjónaréttur og notalegir morgnar

Hrólfur Bragi bestabarn!

***

Hrólfur Bragi svaf frá 9.30 til 7 í morgun án þess að vakna þannig að ég vaknaði fersk og útsofin, annars er hann vanur að vakna í kringum 5 til að fá pelann og sofnar svo aftur til ca. 7 eða 8. Ég elska morgnana, ég tek hann fram og set hann í stólinn sinn og með dótið sitt, á meðan ég undirbý grautinn hans og fæ mér kaffi. Afslappað og notalegt. Þetta eru stundirnar sem maður kemur til með að sakna þegar maður fer aftur að vinna, þ.e. að geta bara verið í rólegheitum og þurfa ekkert að spá í klukkunni.

Jón Ómar er núna í sveitaferð með leikskólanum og ég er nú alveg pínulítið stressuð auðvitað, mamma paranoja sem ég er. Ég sagði honum að vera alltaf hjá kennurunum og aldrei í kringum neina bíla eða tæki! Ég hefði farið með ef ég væri orðin alveg viss um að Hrólfur væri hættur að smita.

Það er nú langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á bloggið þannig að mér datt í hug að setja eina slíka á þessum góða föstudegi. Þetta er réttur sem ég hef gert reglulega síðan ég gerði hann “óvart” í desember sl. og segir Svenni að þetta sé einn af hans uppáhalds. Þetta er mjög fljótlegur réttur og það er hægt að gera alls konar útfærslur, það skemmir heldur ekki fyrir hvað hann er ódýr. Í réttinn nota ég:

Brún hrísgrjón (má líka nota t.d. bygg)

Ca. 2-3 gulrætur

Rósakál, ferskt!

Brokkolí, rauðkál eða bara hvað annað sem ykkur langar í.

Beikon

Egg

Ferskur kóriander

Sesam olía

Sweet chili sósa

Ég byrja á að steikja beikonið, bæti grænmetinu saman við, salta og pipra og set svo dass af sesamolíu. Þegar grænmetið er orðið mjúkt þá bæti ég soðnum hrísgrjónum saman við á pönnuna og bæti við tæpri msk. af grænmetiskrafti (ég nota frá Sollu) sem ég set út í ca. 1 dl. af vatni. Ég helli svo heila klabbinu á fat, steiki ca. 4 egg (steiki bara öðru megin svo að gulan sé smá “runny”) og raða eggjunum ofan á blönduna, svo strái ég ferskum kóriander og helli smá sweet chili sósu yfir.

Jæja hér er, aldrei þessu vant, dagskrá hjá húsmóðurinni. Við Hrólfur ætlum að fara í Krónuna og gera helgarinnkaupin og svo eigum við stefnumót niðrí miðbæ Reykjavíkur í hádeginu. Góða helgi!

Hversdagsréttir

Svenni gerir stundum grín að mér fyrir það að gera kannski einhvern góðan rétt og hann segir að ég verði að hafa þann rétt einu sinni í viku því hann sé svo góður, en svo sér hann aldrei þennan rétt aftur. Ég gleymi alltaf að skrifa niður hjá mér uppskriftirnar og þess vegna elda ég sjaldan sama réttinn, kannski einhverjar útfærslur en aldrei nákvæmlega sama réttinn. Hins vegar geri ég mjög reglulega þetta sítrónuspaghetti sem er samkvæmt uppskrift frá henni Ebbu snillingi. Ég verð samt að fara að taka mig á og skrifa niður góðar uppskriftir því það er svo þreytandi að þurfa að finna alltaf upp hjólið fyrir hvern kvöldverð. Ef þið lumið á fljótlegum og góðum réttum þá megið þið endilega setja link á uppskriftina hér í kommentum.

Heyrumst.

Fylltur kúrbítur

Í kvöld bjó ég til svo góðan og fljótlegan rétt að ég má til með að benda ykkur á hann. Ég googlaði fljótlegan og hollan kjúklingarétt og fékk þá upp þessa uppskrift á www.skinnytaste.com, sem er mjög flott síða ef ykkur vantar hugmyndir að hollum uppskriftum.
Í þessa uppskrift þurfið þið:
Kjúkling

3 kúrbíta
Eina krukku af tómötum
Eina rauða papriku
2 hvítlauksrif
Nokkra konfekttómata
Fajitas krydd
Tómat paste
Rifinn mozzarella ost

Ég kryddaði kjúklingabringur og bakaði þær í ofni í eldföstu móti. Á meðan bringurnar elduðust þá skar ég til helminga 3 kúrbíta og svo skar ég helmingana í tvo báta. Ég skóf innan úr kúrbítnum kjötið og sauð kúrbítsbátana í eina mínútu. Ég raðaði bátunum í eldfast mót, og fyllti þá með kjúklingnum sem ég var búin að skera í litla bita. Yfir þetta hellti ég sósu sem samanstóð af einni krukku af maukuðum tómötum, 2 hvítlauksrifjum, einni rauðri papriku, 1 tsk. tómatpaste, nokkrum kirsuberjatómötum, ½ poka fajitas kryddi og 1 msk. af fljótandi kjúklingakrafti. Sósunni var síðan hellt yfir allt og svo að lokum osti stráð yfir og bakað í 30 mínútur eða þar til osturinn fer að taka á sig lit.
Þegar þetta kom út úr ofninum stráði ég yfir hökkuðum vorlauk og ferskum kóriander. Ég naut svo matarins ein þar sem Jón Ómar sofnaði klukkan 18 og Svenni var ekki heima, en gott var þetta.

Halloumi ostur

Svo gott!

Dásamlegt salat með grillmatnum.

Tveir grillaðir maísstönglar (maís skorinn af og blandað með smá smjöri og salti)
Grillaður halloumi ostur (kubbur sem er skorinn í lengjur og grillaður)
Handfylli kóriander
ca. bolli af hvítkáli
Safi úr hálfu lime

Öllu blandað saman í fáránlega gott salat.

Njótið.

Hakk með rauðrófum, linsubaunum & avocado mauki

…oj bara hugsar kannski einhver, but think again! 


***


Ég hugsa mjög mikið um mat, alla daga. Ég tók hakk úr frystinum í morgun og langaði að gera eitthvað öðruvísi úr því en það vanalega. Snilldin við það að elda hakkrétti er að það er hægt að blanda ótrúlegustu hlutum saman og sömuleiðis læða ýmsu í hakkið sem sumir (lesist: Jón Ómar) myndi annars ekki borða. Ég átti líka í frysti poka af linsubaunum sem ég sauð um daginn og frysti, ég bæti oftast baunum í hakkrétti ef ég á þær til. 
Það hefur kannski enginn áhuga á þessum furðulega rétti en hann var samt mjög góður, ég lofa. Avocado maukið setti svo alveg punktinn yfir i:ið. 
Aðferð:
Steikið einn lauk og tvö hvítlauksrif upp úr einni msk. af smjöri og smá olíu þar til laukblandan er orðin mjúk. Rífið niður eina miðlungs rauðrófu og kreistið safann úr henni áður en þið bætið út í laukinn. Bætið út í einum pakka af hakki, ca. 200 gr. af linsubaunum (eða hvaða baunum sem er í rauninni) og kryddið vel með salti, pipar, rósmarín, basiliku, timian og tveimur msk. af tómatpúrru. Út í þetta setti ég svo eina krukku af maukuðum tómötum (frá Sollu) ca. 2 dl. af nautafondi, sauð vatn og bætti einni msk. af fljótandi nautakrafti. Ég hellti soðnu vatni ofan í tóma tómatkrukkunna og setti ca. 1 msk. af nautakrafti, setti lokið á og hristi saman og hellti ofan í hakkið. Ég setti líka rúma msk. af grænmetiskrafti frá Sollu. Að lokum setti ég út í ca. 2 msk. af bbq sósu, en þið verðið bara að smakka ykkur áfram því þetta er allt slumpað hjá mér. Hakkið er síðan látið malla í allavega 30-40 mínútur. 
Avocado mauk
Tvö lítil avocado (ég hafði heppnina með mér í avocado lottóinu í kvöld því bæði voru í lagi, yes!), ca. 2 msk. sýrður rjómi, 1 hvítlauksrif, safi úr 1/2 lime, salt, pipar og svo smá af kryddi satans, aromati. Allt hrært saman í, já þið giskuðuð rétt, mauk. 
Með þessu sauð ég pasta en það er örugglega gott að hafa grjón líka. 
Heyrumst. 

Góður gamaldags matur

Stundum langar manni einfaldlega í alvöru heimilismat með alvöru rjómasósu. Þetta var þannig kvöldmatur, hakkabuff fyllt með osti, soðnar nýjar íslenskar kartöflur, piparostarjómasósa, sulta og súrar og auðvitað ísköld mjólk með. Ég geri nánast aldrei svona sósur, sem er nú bara eins gott því annars væru aukakílóin orðin heldur fleiri en þau eru í dag. 
Hakkabuffin eru gerð úr einum pakka af hakki, einu eggi, 1 dl. brauðraspi, salti, hvítum og svörtum pipar, hamborgarakryddi (ákvað að prófa og það var gott),  og steikar kryddi. Ég bjó til 8 þunna platta og skar ostasneiðar sem ég raðaði ofan á fjóra platta og þjappaði hinum fjórum plöttunum ofan á. Þessi buff steikti ég á pönnu upp úr 2 msk. af smjöri þar til báðar hliðarnar voru brúnaðar. Buffin tók ég af pönnunni og setti í eldfast mót og inn í ofn þar til elduð í gegn. Restina af smjörinu á pönnunni hellti ég í pott ásamt piparsmurosti, pela af rjóma, 1 msk. nautakrafti og salti. 
Þetta var svo gott! En eins og þið sjáið þá er þetta ekki beint fitusnautt, en það er í lagi endrum og eins. 
En jæja ætli ég þurfi ekki að fara inn í herbergi til Jóns Ómars og reyna að fá hann til að sofna. Mér heyrist hann vera farinn að kubba núna en hann átti að vera löngu sofnaður þessi gæji. Háttatíminn er orðinn frekar erfiður, áður fyrr gekk hann bara inn í rúm og sofnaði hviss, bamm, búm…Núna þurfum við að fara með hann inn ca. 10 sinnum áður en hann gefst upp og sofnar. 
Heyrumst.

Hindberja- og lakkrís ostakaka

Mæli eindregið með þessari dásemd! 


*** 

Ég á það mjög oft til að dagdreyma um mat og oft fæ ég hugmyndir í kollinn að mat eða kökum/eftirréttum sem ég verð að prófa. Ég hafði séð fyrr í vetur súkkulaðiköku með hindberjum og lakkrís og mig langaði að prófa að gera þannig ostaköku. Sem lakkrísbragð þá notaði ég turkish pepper brjóstsykur og muldi hann í mortéli og sigtaði hann þannig að eftir varð mjög fínt duft. Hér kemur uppskriftin:
Botn
2 bollar haframjöl
2 bollar fínt spelt eða hveiti
200 gr. smjör
1 bolli púðursykur (ég notaði sukrin)
1 tsk. matarsódi
1 tsk. vínsteinslyftiduft
1 msk. kakóduft 
Þessu er öllu blandað saman og smurt í eldfast mót með sleif. Bakið við 180°c í ca. 15-20 mínútur. 
Fylling

3 dl. rjómi
400 gr. rjómaostur
2 vanillustangir
100 gr. sykur
50 gr. flórsykur
200 gr. hindber (frosin sem er búið að þýða) 
4 blöð af matarlími
Ca. 20 stk. turkish pepper brjóstsykursmolar
Byrjið á að setja matarlímsblöðin i kalt vatn og leyfið þeim aðeins að liggja þar. Á meðan setjið þið rjóma í pott, skrapið vanilluna úr stöngunum og hrærið saman við ásamt sykrinum (geymið flórsykurinn). Þegar búið er að hræra þessu öllu saman þá takið þið matarlímið upp úr kalda vatninu og bætið út í rjómablönduna, hrærið rösklega saman við þangað til matarlímið hefur verið leyst upp.  Setjið þetta aðeins til hliðar og leyfið að kólna. Á meðan setjið þið 400 gr. rjómaost í hrærivélina ásamt flórsykrinum, brjóstsykrinum og að lokum rjómablöndunni og hindberjunum. Hellið þessu út á botninn í eldfasta mótinu og setjið svo inn í ísskáp í tvo tíma. 
Endilega prófið þessa, hún er mjög einföld og rosalega góð! Elska bragðið af sterka brjóstsykrinum saman við hindberin.  
Ég ætla að bjóða vinkonum mínum upp á afganga af þessari köku seinna í dag 😉 
Nú vill Jón Ómar ólmur ryksuga þannig að ég verð að hætta.. Heyrumst!