Nýjar myndir

Nýjar myndir tilbúnar upp á vegg.

***

Það er mjög langt síðan ég keypti mér eitthvað nýtt á veggina hér heima. Svo á einhverju googli þá fann ég þessar myndir og ákvað að skella mér á þær. Þær fást hjá Kristina Dam studio í Kaupmannahöfn og ljósmyndarinn heitir Tuala Hjarnø. Áður en myndirnar fara upp á vegg þarf hins vegar að mála stofuna því ég áttaði mig á því, tveimur árum síðar, að stofan er í raun fjólublá. Það gengur ekki og Svenni er alveg æstur að komast í þetta verkefni.

Í dag verð ég eiginlega að komast út að hlaupa því ég er víst að fara að taka þátt í miðnæturhlaupi Suzuki á föstudaginn, ég mun væntanlega skríða í mark. En í mark mun ég komast.

Box fit og 5,5 kg eftir!

Um daginn fékk Hrólfur Bragi aðeins betra útsýni þegar við fórum að sækja Jón Ómar á leikskólann, hann er orðinn vel þungur þannig að þetta var bara ágætis líkamsrækt! Líkaminn fær örugglega sjokk þegar ég byrja að vinna aftur og sitja fyrir framan tölvuna allan daginn, ekki hægt að segja að ég sitji mjög mikið hér heima hjá mér.

 

***

Ég er svo ótrúlega ánægð að hafa tekið þá ákvörðun að byrja að æfa í Hress. Ég fer bara í tíma, sem sagt ekki að lyfta eða brenna (sem hlýtur að vera það allra leiðinlegasta) og þessir tímar eru svo góðir! Í gær prófaði ég box fit sem var algjör snilld, annars hef ég farið í stöðvaþjálfun, body pump og warm fit, allt mjög skemmtilegt. Ég á núna eftir 5,5 kg. í mína kjörþyngd og ég held að þetta séu erfiðustu kílóin, þessi síðustu þrjóskukíló.

Þegar Hrólfur Bragi vaknar úr fyrri lúrnum ætlum við aðeins að útrétta og svo er það kósý-bíókvöld í kvöld með tilheyrandi poppi og kúlum að beiðni Jóns Ómars. Góður föstudagur hjá frúnni í Blómvangi með öðrum orðum. Við heyrumst.

Síðustu dagar

Jón Ómar að tína fíflabúnt til að setja í glas hér heima, svo “falleg” blóm … 
Cava stund á mánudegi. Enginn venjulegur viðburður en voða notalegt í gær. 
Hrólfur Bragi á sumarhátíð á leikskólanum hjá stóra bróður um helgina. 

 

img_3633
Göngutúr í fallegu veðri – fátt sem toppar það.

 

Ég sit hér hálf dofin eftir að hafa loksins náð að borða morgunmatinn klukkan 10.30. Þið vitið, þegar maður er búinn að vera svo svangur frekar lengi og nær loksins að borða. Ég borðaði frekar lítið í kvöldmat í gær þannig að mér leið í alvöru eins og maginn væri að falla saman, ef það er líffræðilega mögulegt. Í morgun varð ég að velja sturtu í staðinn fyrir morgunmat, þolinmæði Hrólfs Braga leyfði ekki hvoru tveggja. Svo þarf maður að gefa þessum gaurum að borða, segja Jóni Ómari 100 sinnum að klæða sig, finna einhvern hundabol því allir aðrir bolir eru ómögulegir, skipta á kúkableyjuM, gefa pela, drekka kaffi, búa um rúmin etc. Svo löbbum við á leikskólann, það er miklu þægilegra en að taka bílinn því Hrólfur sofnar alltaf í vagninum á leiðinni og nú sefur hann fyrri lúrinn sinn. Svona eru morgnarnir okkar en í morgun vorum við extra sein á ferðinni því Hrólfur vaknaði ekki fyrr en 8.15 . Ég vaknaði við það að Jón Ómar kom inn í herbergi til að athuga hvort við værum vöknuð en hljóp aftur inn til sín þegar hann sá að litli bróðir var sofandi, krúttið.

Nú er ég að spá í að kíkja út í göngutúr í góða veðrinu. Ég á von á sendingu eftir hádegi þannig að ég verð að halda mig heima þá. Heyrumst fljótlega aftur.

Hitt og þetta

Kátur strákur í sveitinni
Þessi fer aaalveg rétt bráðum að mastera listina að sitja sjálfur
Þessir bræður eru svo mikil krútt og góðir saman. 
Svenni að kynna Hrólf Braga fyrir lömbunum, bestu vinum sínum. 
Þessir border collie hundar sem voru þarna voru svo fallegir! Rakkarnir voru dásamlegir. 
Kósý
Þegar ég horfi á þessa mynd hugsa ég bara “vá hvað ég er mikil KONA” svona konumamma… haha
Konumamman með ungann sinn. 
Þetta barn, þetta barn! Svo brosmildur, svo ljúfur…. 
Svenni minn átti afmæli á sunnudaginn, hvar værum við án hans. 
Ég er að reyna að gera herbergið hlýlegra, þessi kommóða er skref í þá átt. 

Ljúffengur hrísgrjónaréttur og notalegir morgnar

Hrólfur Bragi bestabarn!

***

Hrólfur Bragi svaf frá 9.30 til 7 í morgun án þess að vakna þannig að ég vaknaði fersk og útsofin, annars er hann vanur að vakna í kringum 5 til að fá pelann og sofnar svo aftur til ca. 7 eða 8. Ég elska morgnana, ég tek hann fram og set hann í stólinn sinn og með dótið sitt, á meðan ég undirbý grautinn hans og fæ mér kaffi. Afslappað og notalegt. Þetta eru stundirnar sem maður kemur til með að sakna þegar maður fer aftur að vinna, þ.e. að geta bara verið í rólegheitum og þurfa ekkert að spá í klukkunni.

Jón Ómar er núna í sveitaferð með leikskólanum og ég er nú alveg pínulítið stressuð auðvitað, mamma paranoja sem ég er. Ég sagði honum að vera alltaf hjá kennurunum og aldrei í kringum neina bíla eða tæki! Ég hefði farið með ef ég væri orðin alveg viss um að Hrólfur væri hættur að smita.

Það er nú langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á bloggið þannig að mér datt í hug að setja eina slíka á þessum góða föstudegi. Þetta er réttur sem ég hef gert reglulega síðan ég gerði hann “óvart” í desember sl. og segir Svenni að þetta sé einn af hans uppáhalds. Þetta er mjög fljótlegur réttur og það er hægt að gera alls konar útfærslur, það skemmir heldur ekki fyrir hvað hann er ódýr. Í réttinn nota ég:

Brún hrísgrjón (má líka nota t.d. bygg)

Ca. 2-3 gulrætur

Rósakál, ferskt!

Brokkolí, rauðkál eða bara hvað annað sem ykkur langar í.

Beikon

Egg

Ferskur kóriander

Sesam olía

Sweet chili sósa

Ég byrja á að steikja beikonið, bæti grænmetinu saman við, salta og pipra og set svo dass af sesamolíu. Þegar grænmetið er orðið mjúkt þá bæti ég soðnum hrísgrjónum saman við á pönnuna og bæti við tæpri msk. af grænmetiskrafti (ég nota frá Sollu) sem ég set út í ca. 1 dl. af vatni. Ég helli svo heila klabbinu á fat, steiki ca. 4 egg (steiki bara öðru megin svo að gulan sé smá “runny”) og raða eggjunum ofan á blönduna, svo strái ég ferskum kóriander og helli smá sweet chili sósu yfir.

Jæja hér er, aldrei þessu vant, dagskrá hjá húsmóðurinni. Við Hrólfur ætlum að fara í Krónuna og gera helgarinnkaupin og svo eigum við stefnumót niðrí miðbæ Reykjavíkur í hádeginu. Góða helgi!

Erfiður maí mánuður

Vertu velkominn júní! Hrólfur Bragi var svolítið sætur í kanínupeysunni sinni í gær þannig að ég ákvað að þennan krúttleika yrði að festa á filmu ❤

Ég hef ekkert skrifað hérna í langan tíma því ég hef einfaldlega ekki haft orku/tíma eða ástæðu til þess! Hér höfum við verið inni meira og minna allan maí. Jón Ómar byrjaði með hlaupabóluna, ég varð síðan lasin þegar hann var að jafna sig, svo fékk Hrólfur hlaupabóluna og svo um helgina fékk ég heiftarlegt kvef sem ég er enn að jafna mig á. Hrólfur Bragi litla ljós var samt svo duglegur þó að hann hafi fengið frekar slæmt hlaupabólutilfelli, hann grét nánast ekkert en tvær nætur vorum við nánast svefnlaus því hann komst ekki í ró fyrir kláða greyið. Núna krossa ég alla putta og tær að hann hafi náð að mynda mótefnið, en við verðum nú að bíða eitthvað áður en það er hægt að komast að því.

Ég fór í heilsuhúsið í gær og keypti mér engifer-og hveitigrasskot og pro biotic töflur fyrir mig og Jón Ómar í einhverri viðletni að bæta heilsuna á þessu heimili, þ.e. kvefið og almenn veikindi, ég veit að maður gerir fátt til að koma í veg fyrir hlaupabóluna 😉

Það er sumsé ekki mikið að frétta af þessu heimili fyrir utan það að ég er komin með ógeð af því! Allt hér inni er ljótt og asnalegt. Ef peningar væru ekki fyrirstaða þá væri ég búin að snúa öllu við. Annars er frekar langt (miðað við að þetta sé mitt heimili) síðan ég breytti einhverju hér þannig að það er aldeilis kominn tími á breytingar. Mig langar t.d. að mála stofuna en það þyrfti líka að mála loftið og þá þarf að taka niður gardínulistana og þá er þetta orðið svo mikið batterí. En ef það heldur áfram að rigna þá er svo sem ekki mikið annað að gera en að taka aðeins til hendinni hér inni við.

Heyrumst.

Mánudagur halleluja!

Nokkrar myndir frá laugardeginum…

***

Þessi mánudagur er sérstaklega velkominn. Svenni er kominn heim og fór með Jón Ómar í leikskólann í morgun í fyrsta sinn í tvær vikur! Maí ætlar sem sagt að fara að mestu í veikindi því ég er enn lasin síðan á föstudag. Mér finnst ég hafa verið meira og minna inni í maí, ég kannski hef skroppið aðeins í ræktina eða eitthvað örstutt en engin útivera og engir göngutúrar þannig að ég er orðin pínu buguð á ástandinu. Það gekk alveg ágætlega að vera ein með strákana um helgina og hefði auðvitað gengið vel ef ég hefði ekki verið lasin, þó það sé mikil vinna að vera ein með þá gengur það samt vel en það er samt erfitt að vera til staðar fyrir báða strákana öllum stundum. Uppáhalds tíminn var að leggjast upp í rúm með Jóni Ómari og horfa aðeins á “vitleysu” í ipadinum, hann er svo notalegur og kyssir mann og knúsar, “vitleysa” er sem sagt Fail army myndbönd á youtube sem Jón Ómar hefur mjög gaman af. Ég var einfaldlega of þreytt og löt til að svæfa hann í sínu herbergi og lesa fyrir hann, pabbi hans gerir það annars alltaf.

Ég gat eiginlega ekkert notið blíðunnar um helgina því það er ekkert sérstakt að vera í sólinni þegar maður er sjálfur með hita. Ég ákvað samt að fara með systrum mínum í smá rúnt í Friðheima og Slakka á laugardaginn, systir mín keyrði og ég gat dottað aðeins í bílnum. Við fengum okkur dásamlega tómatsúpu í Friðheimum en vorum við það að bráðna inni í gróðurhúsinu. Núna ætla ég að krosa alla putta og tær og vona að þessi flensa fari sem allra, allra fyrst. Í vorkunn og volæði í gærkvöldi pantaði ég mér blómakjól á asos, mjög ó-Ástríðarlegur, en ég var undir áhrifum veðurblíðunnar… Ég hlakka samt til að fá hann, kannski er hann hræðilegur, kannski ekki.

Heyrumst.