Vika 31- staðan

 

Ég hafði hugsað mér að halda aðeins utan um síðustu vikur meðgöngunnar, aðallega fyrir mig en bara plús ef einhver annar hefur gaman af að lesa líka. Á laugardaginn er ég gengin 31 viku og núna finnst mér eiginlega eins og niðurtalningin sé hafin. Ég byrjaði að skrifa þetta í gær og þá varð dagurinn í dag auðvitað skelfilegur, ég hefði þurft að slá mig utan undir nokkrum sinnum og fara í kalda sturtu til að vinna bug á þreytunni sem lá yfir mér eins og mara í allan dag. Ég kom heim, lagðist upp í sófa og kveikti á krakkastöðinni fyrir Jón Ómar, alveg mamma ársins. Þessi mynd hér að ofan lýsir því alveg prýðilega stöðunni eins og hún var í dag, ég ætla að vona að dagurinn hafi verið undantekning og leyfi þess vegna því sem ég var búin að skrifa í gær að standa.

Almennt: Mér líður vel. Brjóstsviðinn kemur og fer og þessa dagana er hann bærilegur og ekkert til að kvarta yfir. Ég verð hrikalega þreytt á kvöldin, alveg stjarnfræðilega þreytt en annars er ég fín yfir daginn ef ég fæ góðan svefn (nema í dag).

Svefn: Þegar klósettferðir og ferðir fram í eldhús til að blanda mér vatn með matarsóda eru í lágmarki þá sef ég nokkuð vel. Ég get ekki sofið án þess að hafa kodda á milli lappanna og það gerir eiginlega meira gagn en snúningslakið (þó ég viti í þetta sinn hvernig eigi að nota það, ég var ekkert að klæða  mig í það eða eitthvað svoleiðis síðast). Ég sef hins vegar ekki út þannig að ég verð að passa mig að fara ekki of seint að sofa.

Hreyfingar: Hann er á fullu þarna inni og á kvöldin þegar ég leggst í rúmið bylgjast maginn á mér. Hann á það til að liggja með lappirnar út að hægri síðunni og stundum er ég orðin aum eftir öll spörkin. Fylgjan er fyrir aftan núna þannig að ég finn allar hreyfingar mikið betur en ég gerði síðast.

Líkamsrækt og mataræði: Frá 14. viku fór ég að geta stundað líkamsrækt aftur og fór að jafnaði tvisvar í ræktina í viku til að lyfta, þess á milli sem ég gekk, synti etc. Ég fór síðast í ræktina fyrir ca. viku og fannst ég þá svo þung og óliðleg að ég hef meira farið í göngutúra og í sund. Ég hugsa að það verði mín hreyfing næstu vikurnar. Hvað mataræðið varðar þá er ég nammigrís en ég reyni að halda mér innan skynsamlegra marka. Ég er ekki að borða eitthvað mikið meira nema þegar ég fer í göngutúra á kvöldin þá vakna ég með hungurverki og nánast anda að mér morgunmatnum.

Hreiðurgerð: Ekki svo mikið í því, var heldur ekki mikið í hreiðurgerð síðast. Ég er hvort eð er með pínu áráttu fyrir því að hafa hreint í kringum mig og það er ekki að breytast mikið núna. Það kemur kannski á síðustu vikunum. Mig er reyndar aðeins farið að klæja í puttana að kaupa lítil falleg og mjúk barnaföt, ég þarf einmitt að fara í gegnum HAUGANA af fötum sem við eigum síðan Jón Ómar var lítill og gefa það sem við munum ekki nota núna, áður en ég fer að kaupa eitthvað handa Svampi.

Jæja segjum þetta gott í bili, hlakka til að taka stöðuna í næstu viku.

 

Viltu segja eitthvað?

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s