Ducie – www.ducie.co.uk

Þið verðið að afsaka gæðin á myndunum en ég þurfti að sækja þær á Instagram þar sem ég gat ekki vistað myndirnar af heimasíðunni.

***

Ég keypti mér létta primaloft úlpu í Flórida í sumar en mig vantar nú eiginlega einhverja “alvöru” úlpu fyrir veturinn, þ.e.a.s. þegar ég fer að geta rennt upp úlpum aftur. Eins og sakir standa þá er ég eins og Ólafur Darri í Ófærð, alltaf með jakkann eða úlpuna frárennda og kuldaleg á að líta. Ég rakst á þetta merki á Instagram um daginn, Ducie, hrikalega flottar fóðraðar parka úlpur og aðeins í stíl við merkið Mr. and Mrs. Italy en verðið er þó mun viðráðanlegra þó ekki séu þessar úlpur ódýrar, en það eru úlpurnar frá 66°norður svo sem ekki heldur. Ég er mjög hrifin af svona stórum loðfeld þó það sé eiginlega bannað að vera hrifin af loðfeld, ég er sem betur fer ekki að fara að kaupa mér gólfsíðan pels gerðan úr heilum ættbálki, æj ég ætla ekki að réttlæta þetta neitt frekar.

Heyrumst.

tarta

 

„Átt þú ekki bara að fara að eiga bráðum?”

„Ég hélt að þú værir sett í lok október ekki lok nóvember”

 

Hættið þessum kommentum. Bara snarhættið þeim eins og hún Guðrún Veiga bloggkollegi minn myndi segja. Ég læt eitt gott lag fylgja- HÉR.

 

Frí í miðri viku

 

Í dag var skipulagsdagur á leikskólanum þannig að ég var komin heim á hádegi og við Jón Ómar dunduðum okkur saman. Hundur systur minnar, hann Elton, kom í heimsókn og Jón Ómar auðvitað mjög ánægður með það, þeirra fyrstu kynni voru heldur dramatísk (stressaður hundur og óöruggur Jón Ómar) en núna eru þeir mestu mátar. Planið var að fara með Jón Ómar á bókasafnið en hann var staðráðinn í að fara í strætó þannig að við enduðum á að fara niður á Laugaveg á Sandholt, sem er orðið rosalega flott, fengum okkur smá bakkelsi og brunuðum svo heim aftur í stóra gula bílnum.

Svo er ég orðin svo hagsýn húsmóðir að ég hef verið að dunda mér síðasta klukkutímann að lita augnbrúnir og augnhár, þegar þetta er farið að kosta rúmlega 5000 þá er maður ekkert að spreða í þetta hægri vinstri. Ég held að þetta hafi bara komið ágætlega út og hjálpar kannski til við að fela annars þreytulegt andlit, þið vitið svefnandlitið sem maður vaknar með á morgnana?- það er búið að vera fast á mér í allan dag.

Jæja ykkur líður örugglega öllum betur af að hafa fengið þessar upplýsingar þannig að nú get ég lagst róleg með höfuðið á koddann, heyrumst bráðum aftur.

 

 

 

Sunnudagskvöld

Í gærkvöldi bauð ég systrum mínum í mat – önnur þeirra er nýorðin hundaeigandi og eins og þið vitið þá er þetta alltaf pínu álag fyrst, svefnleysi o.s.frv. – minnti mig á það hvernig ég var þegar Jón Ómar var nýfæddur, nema þá var um aðeins lengra tímabil að ræða eða það skulum við allavega vona, systur minnar vegna, haha.

***

Hér sit ég í hálfgerðu móki eftir afmælisveislukræsingar dagsins en við fórum í tvö afmæli. Eitt hjá langafa Ómari og eitt barnaafmæli. Nú þamba ég detox te og vatn og vona að ég vakni ekki eins og bjúgaldin í fyrramálið. Barnaafmælið var búningaafmæli og Jón Ómar fór klæddur sem Batman, krakkarnir voru mikið úti að leika sér og eitt skiptið kemur Jón Ómar grátandi inn, hér kemur samtalið sem fór okkar á milli í kjölfarið:

Ég: Hvað kom fyrir?

Jón Ómar: Strákurinn tók skikkjuna mína!

Ég: Æj það er allt í lagi, við skulum bara festa hana betur. Ef strákurinn reynir að taka hana aftur þá segir þú bara að hann megi ekki taka skikkjuna þína.

Jón Ómar: Nei mamma, ég kýldi hann bara.

….hmm ok.

Jæja ég ætla að fá mér annan tebolla og koma Batman í háttinn, heyrumst.

Haustkrans

“Mamma hvað ertu að gera?”

Þennan fallega haustkrans eignaðist ég í gær og ég get sagt ykkur að þegar ég vaknaði í morgun þá opnaði ég hurðina sérstaklega til að geta dáðst að honum. Ég sá þennan krans á FB í byrjun síðustu viku minnir mig og hugsaði VÁ hvað ég væri til í svona en svo hugsaði ég ekki meir um það, ég var því ekki lengi að segja já þegar mamma (sem greinilega hefur fengið hugboð frá mér) spurði hvort mig langaði í svona krans. Ég held að það sé kona sem býr uppí Kjós sem er að búa til þessa kransa. Þegar ég spurði Svenna hvað honum fyndist þá sagði hann” flottur krans, en er ekki svolítið snemmt að hengja upp jólakransa?” Alveg með puttann á púlsinum, haha. Jæja þar til næst.

Kósýheit um helgar

Jón Ómar að slaka á með “Oggy and the cockroaches”

****

Stundum finnst mér það ægilega gott að slaka á sitt í hvoru lagi, Svenni t.d. að horfa á fótbolta, ég að blogga og Jón Ómar að horfa á eitthvað mjög súrt á youtube (því er þó haldið í lágmarki ef einhver er að velta því fyrir sér). En helgarfríin voru sko ekki svona hrikalega kósý í “denn”, núna eeeelskum við laugardaga og sunnudaga og þá sérstaklega morgnana, það breyttist eitthvað eftir að við eignuðumst Jón Ómar og líka eftir að við fluttum hingað. Við erum mjög heimakær og þreytumst ekki á að tala um það hvað við elskum helgarfríin okkar, haha. Vakna og hella upp á kaffi, lesa blöðin, fá sér morgunmat í rólegheitum og bara vera saman.

Dagurinn hefur annars farið í þrif og þvott og annað heimilis-snatterí. Núna ætla ég að henda mér í göngutúr þar sem það er loksins búið að stytta upp. Svenni lét mig hafa golf regnjakkann sinn þannig að ég get rennt honum upp ef ske kynni að það færi að rigna, það er mikill plús, haha. Eitt sem ég er farin að taka eftir, ég er komin með verki í hnén af þessari þyngdaraukningu, þetta er ekki lengi að gerast en samt ekkert skrítið að það reyni á líkamann að burðast með 12 kíló aukalega og ekki fer þeim fækkandi á næstu vikum en ég tek þeim fagnandi!😉

Jæja, heyrumst.

 

Á innkaupalistanum og óskalistanum

 

 

Þó maður þurfi að kaupa töluvert minna þegar maður á von á barni nr. 2 þá er nú samt ýmislegt sem vantar og manni langar í. Hér er það sem ég á eftir að kaupa eða það sem ég myndi vilja kaupa mér þó maður sé nú alls ekki að fara að kaupa þetta allt.

Nr. 1 – Ný linsa á myndavélina mína til að taka fallegar barnamyndir. Þessi linsa er á mjög góðu verði, 125 dollarar (hæ tengdó ég fæ kannski að senda hana á ykkur!). Linsan gefur flott bakgrunns-“blörr” og er góð við takmörkuð birtuskilyrði, sem sagt afar hentug í nóv-feb.

Nr. 2- Smart skiptitaska. Sumum kann að finnast það bjánalegt að ég sé eitthvað að pæla í því hvernig skiptitaskan lítur út en maður er með þetta á öxlinni í meira en ár þannig að það er eins gott að taskan sé fín, þessi frá Longchamp myndi sóma sér vel.

Nr. 3– Nýtt rimlarúm. Mig langar ekki í hvítt rúm og mig langar ekki í of dökkt rúm, þetta fallega ljósgráa rúm frá Ikea verður líklegast fyrir valinu.

Nr. 4- Brjóstagjafapúði. Púðinn sem ég notaði með Jón Ómar var ekki nógu góður þannig að mig vantar nýjan. Ég væri til í þennan sem fæst í Petit.is og líka skiptiborðsdýnuna, ég er voða hrifin af þessu mynstri.

Nr. 5- Þessi húfa er voðalega falleg, fæst í Petit.

Nr. 6, 7 og 8- Sængurverasett, órói og stuðkantur frá Konges Slöjd, fæst líka í Petit. Eins og þið sjáið þá er ég mjög hrifin af Konges slöjd og mjög hrifin af versluninni Petit.

Nr. 7 og 8 – Stuðkantur og órói frá merkinu Konges Slöjd sem fæst í Petit,

Nr. 9 – Gæru-kerrupoki, mér finnst þessir kerrupokar svo rosalega kósý. Þessi kerrupoki er frá danska merkinu Basson og kostar sláandi 45 þúsund krónur hér heima, ég ákvað að athuga hvað hann kostar í Danmörku, heilar 22 þúsund krónur!!! Það er ekki í lagi með álagninguna á sumum vörum hér heima. Þennan poka langar mig virkilega til að kaupa.

Nr. 10 – Babynest frá versluninni Petit.

Þetta er allt svolítið hvítt-grátt og ekkert blátt, aðeins ólíkt því hvernig þetta var með Jón Ómar. Talandi um Jón Ómar þá var hann svolítið áhyggjufullur við matarborðið í gær því við ættum eftir að finna nafn á litla barnið “við YRÐUM bara að fara að leita að því”… við erum reyndar næstum því búin að ákveða nafn en það er nú önnur saga. Svo sagði hann líka við mig að hann yrði svo stór þegar litli bróðir kæmi í heiminn að hann gæti byrjað að vinna eins og mamma og pabbi. Það er örugglega margt að gerjast þarna hjá honum, elskunni minni.

En jæja við heyrumst vonandi eitthvað  um helgina, bæ á meðan.