Vika 36

Þá byrjum við viku 36!

Núna fer maður aldeilis að nálgast fulla meðgöngu og ég er orðin svo spennt að hitta þennan litla mann. Eina stressið í sambandi við fæðinguna (fyrir utan verkina auðvitað) er að ná í tæka tíð upp á fæðingardeild. Ég var með svo litla hríðarverki síðast og mest allan tímann bara í bakinu (mestu verkirnir voru þegar kom að því að rembast) að ég var búin að eiga Jón Ómar rúmum einum og hálfum tíma eftir að við mættum upp á spítala. Maður heyrir að fæðing númer tvö gangi oft mun hraðar þannig að það er eins gott að vera á tánum.

Staðan á mér er ágæt. Ég er búin að færa giftingarhringinn í hálsmenið mitt og þessi bjúgur heldur sér sem fastast. Þreytan er farin að hellast hressilega yfir mig og orkan fljót að klárast. Ég er farin að sætta mig við það að ég mun ekkert ná að fela þessa bauga og ætli þeir verði ekki til staðar eitthvað eftir að hann fæðist, ekki nema hann leyfi okkur að sofa meira en Jón Ómar gerði, sem væri auðvitað kærkomið. Fyrir utan bakverki sem eru misslæmir eftir dögum þá líður mér ágætlega, engin grindargliðnun eða eitthvað svoleiðis, reyndar getur verið vont að ganga þegar bjúgurinn er mikill á fótum. Við fórum í sónar um daginn og þessi gaur virðist ætla að verða stærri en Jón Ómar (lucky me) en ekkert óeðlilega stór sem betur fer.

Jæja, svo sem ekki frá fleiru að segja. Heyrumst.

Föstudagur!

_mg_5986_mg_5998_mg_5977

Ég fékk skemmtilega heimsókn í vikunni sem þið fáið að sjá afraksturinn af í nóvember. Ég ákvað því að baka köku handa gestunum, þetta er einhvers konar marsipan-súkkulaðikaka. Persónulega er ég hrifnari af venjulegum frönskum en það var gaman að prófa þessa. Með þessu bauð ég upp á nánast óþeyttan rjóma (sem ég hafði þeytt deginum áður og hann varð allur “runny”) og svo vatn úr IKEA glerkönnu með korkloki og korkbragðið hafði smitast í vatnið. Vel lukkað kaffiboð með öðrum orðum. En ég var líka með kaffi og það var í lagi, hjúkk. 

***

Þessi bloggfærsla er tímastillt svo þið haldið ekki að ég sé að blogga á vinnutíma. Helgarfríið framundan og á dagskránni er m.a. barnaafmæli, fjölskylduboð og brunch á Snaps. Við Svenni fórum í fyrra fyrir afmælið hans Jóns Ómars í brunch á Snaps og á smá dags-pöbbarölt og svo var meiningin að fara á stúfana og finna afmælisgjöf handa Jóni Ómari en það var svo brjálað veður að það varð ekkert af því Laugavegsrölti. Nú ætlum við hins vegar að gera aðra tilraun, halda í hefðina og fara á Snaps, ég sleppi kokteilunum og svo förum við líklegast beint í Lego búðina í Smáralind því litli herramaðurinn er búinn að óska sér Lego í afmælisgjöf og því óþarfi að vera að flækja það eitthvað.

Seinna í dag var meiningin að henda inn stöðunni á viku 35 – síðasti séns áður en vika 36 hefst. Heyrumst því kannski aftur seinna í dag.

Ólík andlit Jóns Ómars

_mg_6018_mg_6023

Jón Ómar í baði í kvöld og ég nýtti tækifærið á meðan ég sat yfir honum að smella nokkrum myndum af prinsinum

***

Núna fer Jón Ómar bráðum að verða 4 ára, nánar tiltekið á þriðjudaginn í næstu viku. Hann er orðinn frekar spenntur og telur reglulega upp þá sem hann vill að komi í afmælið og hann er jafn spenntur að fá frændsystkini sín sem eru á sama aldri og hann er að fá frænda á fertugsaldri og aðra háaldraða fjölskyldumeðlimi😉 Enda hefur hann alltaf mikið umgengist stórfjölskylduna og fengið næga athygli þaðan.

Oftast finnst mér Jón Ómar miklu líkari pabba sínum en þegar ég horfi á þessar myndir þá finnst mér ég nú eiga svolítið í honum líka. Fyndið hvernig þetta getur breyst. Jæja ég ætla að segja þetta gott í bili. Heyrumst.

Kalt úti og kósý inni

_mg_5925_mg_5940_mg_5959_mg_5964_mg_5952

Mér finnst eins og haustið hafi komið og farið á tveimur vikum, þá á ég við tímabilið þegar fallegir litir réðu ríkjum, áður en rokið kom og hirti öll laufin og þar með haustið á nokkrum dögum. Núna er ég eiginlega að halda aftur af mér með að byrja að hugsa um jólin. Ég ætla nú alveg að leyfa mér að byrja að hugsa um þau aðeins fyrr með tilliti til aðstæðna en ég ætla ekki að láta freistast strax og kaupa piparkökur sem öskra á mig þegar ég fer í búðina eða hlusta á jóladiskinn með Michael Bublé. En ég læt nú örugglega slag standa um miðjan nóvember.

Hér að ofan eru nokkrar myndir sem ég tók með nýju linsunni minni sem ég er mjög ánægð með. Ég á eftir að prófa hana almennilega í dagsbirtu en ég er ekki búin að vera heima á þeim tíma, ég spreyti mig um helgina.

Heyrumst!

Baðið sem loksins varð tilbúið

Það var engum ofsögum sagt að það var löngu kominn tími á endurbætur inni á baðherbergi. Ég var með þetta blessaða bleika bað á heilanum og ég þoldi ekki við mikið lengur. Í lok maí ákváðum við að byrja að rífa baðið niður, þetta var auðvitað allt níðþungt og það þurfti 4 karlmenn til að bera baðkarið niður. Klósettið hefur örugglega verið fyrsta upphengda klósettið á landinu og þetta hefur örugglega þótt mjög móðins á þeim tíma sem þetta var gert. Fyrir utan ljótleikann þá var skápaplássið ekkert. Núna rúmum 4 mánuðum síðar eigum við loksins nýtt baðherbergi og ég vil helst sofa þar því ég er svo ánægð með það.

Hér koma svo myndir af baðherberginu eins og það lítur út núna.

Mér fannst þessi hnotuspegill úr Ikea passa vel inn og svo fann ég þessi ljós í Byko og loftljósið er í eins stíl. Á tímabili vorum við að missa geðheilsuna, endalaus bið eftir iðnaðarmönnum etc. en núna er maður auðvitað búinn að gleyma því öllu. En jæja við heyrumst betur seinna. Núna eru allar framkvæmdir búnar á heimilinu og við vitum nánast ekki hvað við eigum að gera við okkur. Kannski bara slappa af…

Drauma eldhúsið

Ekki að það sé á neinu plani að fara að taka eldhúsið í gegn en ég hef samt gaman af því að skoða, þetta eldhús finnst mér t.d. hrikalega smart og í stíl við húsið, svona smá retro. Mér finnst mikilvægt að reyna að halda í þann rauða retro þráð og held að ég hafi […]

Vika 34


Ég var nú búin að tala um vikulega uppfærslu fram að fæðingu en svo líður bara tíminn og því varð ekkert af því að skrifa um viku 32 og 33… En hér kemur smá staða á mér í viku 34. Alveg í einlægni þá er ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað sú að mér finnst svo óþægilegt að biðja um að láta taka mynd af mér og bumbunni og verð alltaf eins og kleina á þeim myndum, en nú tók ég málið bara í eigin hendur og henti í tvær heiðarlegar speglaselfies.

Ég er orðin ansi þung á mér, illt í fótum og baki og með bjúg sem mér finnst umlykja mig alla. Ég get notað þrjú pör af skóm. Þrjú pör, þar með talið Birkenstock inniskóna mína.

Barnið er farið að þrýsta á lungun þannig að stundum finnst mér ég ekki ná andanum þegar ég sit og ég er farin að finna fyrir yfirnáttúrulegri þreytu. Stundum er ég hrædd um að sofna við skrifborðið mitt, það væri smart. Ég finn aftur fyrir smá flökurleika á morgnana og ég get ekki hlustað á fallega tónlist án þess að bresta í grát. Um daginn hlustaði ég á mjög áhrifamikinn fyrirlestur í vinnunni og ég varð að gjöra svo vel að vera án augnfarða restina af deginum því ég grét hann allan í burtu yfir fyrirlestrinum- sem var n.b. ekki um skattamál.

Þið verðið að afsaka hvað ég kvarta og kveina, oft líður mér bara vel en svo koma dagar þar sem ég trúi því ekki að það séu 6 vikur eftir og að ég geti raunverulega orðið stærri. En þetta er allt þess virði og mikið meira en það, stundum er bara gott að fá að pústa aðeins.

Bara eitt að lokum sem tengist ekki meðgöngunni, ég dett sjaldan niður á snyrtivörur þar sem ég sé strax mikinn mun en mig langaði að benda ykkur á þennan kornaskrúbb frá Elizabeth Arden HÉR. Ég fékk hann í afmælisgjöf í fyrra og hann er svo fáránlega góður, ég sé alltaf mun á húðinni á mér eftir að ég nota hann. Núna langar mig eiginlega í meira úr þessari línu.

Jæja, heyrumst.