Fyrsta vikan

Þá er liðin ein vika síðan þessi gullmoli kom í heiminn og vá hvað hann er dásamlegur. Eftir að brjóstagjöfin komst almennilega í gang á þriðja degi (hann fékk ábót á meðan með ásamt brjóstamjólkinni) þá er hann ljúfur sem lamb og sefur bara og drekkur. Ég bjóst nú ekki við því beint að verða hálf eirðarlaus fyrstu dagana með ungabarn á heimilinu en svona er þetta nú misjafnt. Jón Ómar var ekki mikið til í að liggja í vöggunni og vildi bara vera í fanginu á mér, en þessi lætur sko fara vel um sig í vöggunni og kvartar afar sjaldan. Jón Ómar er rosalega góður við litla bróður sinn og vill alltaf vera að strjúka honum og faðma hann, við þurfum auðvitað að passa hann því hann á það til að vera svolítið harkalegur, haha… Samviskubitið hefur auðvitað verið frekar mikið og ég átti hálf erfitt með mig fyrst því ég vorkenndi Jóni Ómari svo mikið fyrstu dagana, en þetta er nú aðeins að lagast. Ég vorkenndi honum því allt í einu þurfti hann að deila athyglinni en honum virðist líða vel og vera sáttur og glaður þannig að ég ætla að reyna að slaka á.

Þessi litli (samt stóri) maður er að drekka á ca. 3 tíma fresti á daginn en sefur ca. 4-5 tíma í einu á nóttunni á milli gjafa. Hann er svo sætur og góður að mig langar að borða hann og þegar hann horfir á mig með stóru fallegu augunum sínum þá gæti ég grenjað.

Fæðingin gekk hratt og vel eins og þegar ég átti Jón Ómar, við vorum komin upp á fæðingardeild milli 21 og 21.30 og hann var fæddur kl. 00.18 þann 8. desember. Þessi fæðing var nú samt erfiðari en sú fyrri þar sem þessi drengur var engin smásmíði eða 18,7 merkur. Mér dauðbrá þegar ljósmóðirin sagði mér hvað hann var þungur, 4.680 gr. Ég hugsa að ég hefði aldrei látið mér detta það í hug að eiga án deyfingar ef ég hefði vitað að hann yrði svona stór.

En ég er eiginlega bara inni í einhverri lítilli kúlu hér heima, hef það notalegt og nýt þess hvað hann er vær. Ég veit að börn geta tekið upp á því að breytast og ekkert sjálfgefið að hann verði svona rólegur alltaf, þó ég voni það auðvitað, en þess vegna ætla ég að njóta þess á meðan það varir.

Það er ekkert svo langt í að hann fái nafnið sitt sem við foreldrarnir áttum nokkuð auðvelt með að velja, það verður gott að geta kallað hann nafninu sínu.

En við heyrumst fljótlega aftur, bæ í bili.

Lengstu dagar lífs míns

Dásamlegur greni-jólailmur
40+5!!
Dásamlegur morgunmatur á Gló með Unni Töru systur minni.
Pönnukökukaffi á þriðjudaginn
Jón Ómar var mjög sáttur við að geta “loksins” sett upp jólatréð en hann var búinn að vera mjög spenntur fyrir því undanfarið.

Við erum búin að gera svo kósý, ég skil ekki af hverju litli maðurinn lætur ekki sjá sig til að taka þátt í kósýheitunum. Ég viðurkenni það að ég gerði svo engan veginn ráð fyrir þessu, ég var alveg handviss um að hann kæmi fyrir tímann eða á settum degi, bjáninn ég. Fótsnyrtingin og litunin og plokkunin eru löngu orðin ónýt og hreina heimilið verður bara skítugra. Ég fer því með “siggaða” hæla og úfnar brúnir í fæðingu. Síðustu viku er eins og ég hafi smitast af drómasýki, ég legg mig tvisvar á dag og geri nánast ekki neitt. Ég vil bara svo mikið fara að fá hann í hendurnar!! Þefa af honum og strjúka mjúka húðina.

Jæja nú ætla ég að leggjast í sófann og halda áfram að horfa á Downton Abbey sem er svona ca. það eina sem er skemmtilegt á Netflix.

Bráðum

Á laugardaginn er ég gengin 40 vikur og því ekki seinna vænna að koma með stöðuna á viku 40. Ég er með mikinn bjúg og mikinn brjóstsviða og síðustu daga hef ég verið með verki í mjóbakinu, ég er því farin að hlakka ansi mikið til að fá þennan mola í hendurnar. Alla meðgönguna hef ég verið stífluð í nefinu og ég hef reynt að sleppa því eins og ég get að nota nefsprey, núna þegar ég er hins vegar farin að sofa svona illa þá hugsa ég bara fokk it og nota nefsprey allavega tvisvar á dag til þess að stíflað nef geri ekki svefninn enn lélegri. Það verður því nefspreys-afvötnun eftir fæðinguna. Ég kjaga og geng á hraða snigilsins og fer helst ekkert rosalega mikið út. Ég fór reyndar í búðina í gær og verslaði inn eins og ég væri ekki að fara aftur í búð fyrr en næsta vor.

Ég hef verið í frekar mikilli hreiðurgerð og ansi manísk í þrifum, ég er t.d. búin að skrúbba eldhúsinnréttinguna, þrífa rúður og gardínur ásamt venjubundnum þrifum. Það má því segja að ég hafi tekið jólaþrifin alvarlega þetta árið, væntanlega fyrsta og eina árið.

Annars þá er Jón Ómar minn orðinn lasinn, frábær tímasetning :-/ þannig að við verðum heima í dag í miklum rólegheitum. En fleira er það ekki í bili, við heyrumst.

 

Litli herramaðurinn minn

Pínu kreist myndavélabros en samt alltaf sætur =)

Við Jón Ómar dunduðum okkur saman í gær og fengum svo heimsókn frá Unni systur sem fór m.a. með okkur á róló og gat leikið aðeins við Jón Ómar, annað en ég sem er ekki alveg til í að vega salt eða halda við hann/á honum þegar hann er að klifra.

Við gátum samt föndrað saman og það var svolítið haltur leiðir blindan því ég er ekki með nein föndurgen í mér og vissi ekkert hvað við áttum að gera. Við þræddum sykurpúða upp á rauðan þráð sem við ætlum að setja á jólatréð, erfiðast var fyrir Jón Ómar að sætta sig við það að hann mætti ekki borða sykurpúðana en hann fékk nú samt einn í lokin. Svo máluðum við krukkur til að setja sprittkerti í og Jón Ómar litaði mynd með glimmerlitum.

Við þurftum að fara aðeins í búðina í gærmorgun og ég var með einn búðarpoka, einn bréfpoka með súrdeigsbrauði sem var svo ekki súrdeigsbrauð fyrir fimm aura, skamm Krónan, og svo klósettpappír. Jón Ómar tók ekki annað í mál en að halda á bréfpokanum og klósettpappírnum út í bíl, svo þegar við renndum í bílastæðið hér heima þá sagði hann að ég mætti ekki taka bréfpokann og klósettpappírinn því hann ætlaði að halda á því upp, þegar við svo komum inn þá spurði hann hvert hann ætti að fara með þetta. Hann er ótrúlega góður og ljúfur og kurteis. Þó að auðvitað geti hann líka verið óþekkur en í fullri hreinskilni þá er hann mjög auðvelt barn. Sjö-níu-þrettán 😉

En hér heldur biðin bara áfram og svo sem ekki frá miklu að segja. Við heyrumst.

Lussebullar

_mg_6299_mg_6300_mg_6303_mg_6305

Í síðustu viku bökuðum við Jón Ómar hina árlegu lussebullar – ætli það sé ekki hægt að kalla þetta lúsíusnúða á íslensku. Ég notaði þessa uppskrift, kotasælan gerir þá extra mjúka og mjög góða. Núna á ég slatta í frysti sem ég get tekið út þegar mig langar í, Svenni vill ekki sjá þetta þannig að þetta endist aðeins lengur 😉

Í dag er starfsdagur á leikskólanum hjá Jóni Ómari og við ætlum því að dunda okkur saman í dag. Svo er aldrei að vita nema ég hendi inn stöðunni á viku 40 í kvöld, þ.e. ef einhver fæst til að taka mynd.

Heyrumst.

Mjúkt og hlýtt

_mg_6313

Hálf óraunverulegt að maður sé að fara að klæða lítinn mann í þessi föt bráðlega. 

***

Þetta undurfallega heimferðarsett prjónaði tengdamamma bróður míns handa Svampi litla, ég hugsa alltaf hvað ungabörnum hlýtur að finnast það skrítið þegar það á allt í einu að fara að klæða þau í föt þegar þau þekkja ekkert annað en hlýjuna inni í mömmu sinni. En það er eins gott að eiga hlý og góð föt þegar maður eignast barn á þessum árstíma, ég fór með Jón Ómar í leikskólann í morgun og það var svo kalt að það nísti inn að beini.

Ég vogaði mér að segja við Svenna að mér leiddist svona aðeins hérna heima, enda takmörk fyrir því hvað er hægt að baka og þrífa. Ég hefði betur látið þetta ósagt því morguninn eftir þá missti ég lýsisflösku á eldhúsgólfið og hún auðvitað splundraðist um allt með tilheyrandi óþef og fituslykju um allt. Mig langaði að gráta og öskra. Nú er ég búin að liggja á gólfinu og skrúbba hvern einasta sentimeter með einhverju fituleysanlegu efni, og skúra svona ca. 10 sinnum yfir gólfið – ég er ekkert að ýkja. Mér sýnist þetta vera farið núna. Ég ætla aldrei aftur að kaupa lýsi í flösku, ekki fyrr en þetta verður sett í plastflösku og þetta er í fyrsta og eina skiptið sem ég óska þess að eitthvað sé frekar í plasti en gleri. Héðan í frá verða bara keyptar lýsisperlur. Og núna var ég að fá tölvupóst frá leikskólanum um að það hefði komið upp tilfelli af njálgi á deildinni, hjálpi mér guð.

Heyrumst.

Tikk takk

Tíminn líður hratt en samt hægt á sama tíma. Ég reyni að finna mér eitthvað að gera hér heima og oftast er það bakstur sem ég enda svo á að borða sjálf sem er ekki optimalt eins og svíinn sagði. Um daginn þreif ég alla glugga þannig að það sé hægt að setja upp jólaljósin og ég hef ekki svitnað svona mikið í tjahhh 4 daga… ég er auðvitað alltaf að kafna úr hita og þar af leiðandi kófsveitt. Nema í gærmorgun þá fannst mér eitthvað hafa breyst, aðeins auðveldara að anda og ekki eins heitt, ætli kúlan hafi ekki sigið aðeins.

Hér sit ég í eldhúsinu og hlusta á jóladisk Michael Bublé og velti fyrir mér hvað ég eigi að gera næst. Ég var að spá í að baka saffransnúðana mína og þá þarf ég að fara út í búð og kaupa 1 gr. af saffrani á rúmlega 1000 kr. Ég ætla að kíkja í Fjarðarkaup og athuga hvort að þeir hafi hækkað verðið eins og Hagkaup, grammið kostar núna 1.399 í Hagkaup en kostaði 1.199 í fyrra. Já þau eru ekki mörg vandamál heimsins þegar maður getur velt sér upp úr verðinu á saffrani.

Jæja fleira var það ekki að sinni. Heyrumst.