Flatey, elsku Flatey 

Síðustu helgina í júlí fórum við Svenni til Flateyjar og gistum eina nótt á hótelinu. Ég gaf honum þetta í afmælisgjöf, mjög sniðugt að gefa gjafir sem maður getur notið líka 😉

Ég hef siglt mjög oft yfir Breiðafjörðinn og oft bölvað því að þurfa að stoppa alltaf í Flatey og velti því aldrei fyrir mér neitt sérstaklega hvað þetta væri dásamleg og einstök eyja. Mig minnir að ég hafi svo farið til Flateyjar í fyrsta sinn árið 2007 og varð þá alveg heilluð og hugsaði þá með mér að það væri gaman að gista einhvern tímann á hótelinu.

Við fórum úr bænum mjög snemma og tókum Baldur kl. 9 og vorum komin í Flatey kl. 10.30. Við fengum ekki herbergið fyrr en 13 en það kom ekki að sök því ég hafði útbúið pikknikk og við settumst í grasið og lágum í sólbaði og slöppuðum af. Við fengum fallegasta herbergið sem heitir Teistan og er í græna húsinu við hliðina á sjálfu hótelinu. Vá þetta var eins og vera í einhverri bíómynd. Mér leið svo vel þarna, það er ekki hægt að gera annað en að slaka á og að vera í svona mikilli náttúrufegurð gerir svo mikið fyrir sálina. Ég elska staði með mikla sögu og ég elska gömul hús. Ég fer alltaf að ímynda mér hvernig lífið var í gamla daga, ég elska myndina Ungfrúin góða og húsið sem var einmitt tekin upp í Flatey. Það var rosalega mikið líf þarna um aldamótin 1900 og þegar mest var þá bjuggu þarna um 400 manns minnir mig. Ég væri alveg til í að prófa að vera í Flatey um vetur, ég held að það geti verið skemmtileg upplifun.

Við borðuðum á veitingastaðnum á hótelinu og fékk ég besta þorskhnakka sem ég hef smakkað. Reyndar fannst mér leiðinlegt hvað það var absúrd dýrt þarna, ég hef alveg skilning á því að rekstrargrundvöllurinn er kannski ekki mjög stabíll og það er örugglega enginn svakalegur gróði sem hlýst af því að reka þetta en að borga 2,300 fyrir litla rabbabaraböku með rjóma finnst mér heldur mikið, hvað þá 4.300 fyrir fiskisúpu. Morgunmaturinn var mjög góður og ég fékk t.d. rosalega góðan bygg graut. Ég náði að lesa heila bók þarna og það var mikill lúxus að geta labbað með bókina með sér í morgunmatinn og drukkið kaffið í rólegheitum, það er aðeins minni tími til þess þegar maður er með litlu gaurana með sér.

Þessi upplifun var yndisleg og ég væri til í að fara þarna næsta sumar og tjalda og taka þá strákana með.

 

Þegar lífið þýtur áfram 

Hrólfur Bragi gat rétt setið kyrr í 2 sekúndur fyrir myndatökuna og svo þurfti hann að þjóta, svo margt spennandi að skoða þegar maður getur skriðið og þarf ekki að treysta á mömmu til að koma sér á milli staða.

 

***

Í morgun var fyrsti dagurinn í aðlögun hjá dagmömmu, ég byrja að vinna 1. september þannig að það er mjög gott að geta komið honum almennilega í rútínu og Jóni Ómari líka áður en vinnan byrjar. Þar sem Svenni þarf oftast að mæta kl. 6 í vinnu þá sé ég um að koma strákunum til dagmömmu og leikskóla og það krefst skipulags og aga, ég er strax farin að venja Jón Ómar við breytta rútínu. Það þarf að klæða sig, tannbursta og græja áður en horft er aðeins á barnatímann, ég nenni ekki að vera eins og biluð plata að segja honum að klæða sig á meðan hann er sogaður inn í eitthvað barnaefni. Við erum búin að vera svo afslöppuð í orlofinu að Jón Ómar hefur oftast verið að mæta um 9 eða 9.30 í leikskólann. Núna kemur Hrólfur Bragi til með að mæta kl. 07.45 og Jón Ómar kl. 8. Ætli ég þurfi ekki að vakna rétt rúmlega 6 til að geta græjað mig áður en fjörið byrjar.

Ég er alls ekki tilbúin fyrir það að Hrólfur fari til dagmömmu, Jón Ómar var rúmum mánuði eldri en hann þegar hann byrjaði hjá dagmömmu. Einhvern veginn var ég mun tilbúnari þá og fannst þetta ekki svona mikið mál. Við fórum í morgun og ég sat með honum fyrst og átti svo að fara í 40 mínútur. Ég var mætt aftur eftir 30 mínútur og minn maður sat sáttur og hafði ekkert farið að gráta. Á morgun setur svo dagmamman hann í fyrsta lúrinn. Ég er strax farin að kvíða því. Úff hvað maður er glataður eitthvað… Ástæðan fyrir því að hann byrjar svona snemma er sú að það er mjög erfitt að komast að hjá dagmömmu um áramót og að vera í orlofi í heilt ár hefði verið aðeins of strembið peningalega séð þó svo að það hefði auðvitað verið best. Asnalega helvítis fæðingarorlofskerfi.

Jæja ætli ég verði ekki að fara að sinna skyldum mínum sem húsmóðir, heyrumst síðar.

Gráblátt

Þrjár myndir sem ég tók í snarhasti, nennti ekki einu sinni að færa þetta hoppugrindar-gerpi sem stingur í mér augun oft á dag. Ég er samt ekki komin í öll-leikföng-eiga-að-vera-grá-hvít-og-í-stíl-liðið. En við réðumst (og með “við” meina ég “ég píndi Svenna”) til að mála loftið og veggina. Loftin voru löngu komin á tíma en veggirnir kannski ekki, en hvað um það. Þetta fallega sófasett nýtur sín svo mikið betur við þennan lit og það birti alveg rosalega yfir stofunni, ég bara gæti ekki verið ánægðari. Ég bætti svo líka við þessum ljósgráu gardínum yfir þær hvítu (ég var með tvöfalda braut sem ég notaði aldrei). Ég þyrfti reyndar að finna einhvern góðan leslampa á tekkborðið en ég þarf aðeins að melta það betur hvernig lampa mig langar í. Jú svo eigum við eftir að hengja upp myndirnar í borðstofunni, þær eiga ekki að vera svona.

Ágúst mánuður tæplega hálfnaður og ég fæ reglulega kvíðakast þegar ég hugsa til þess að ég sé að fara að vinna bráðum og Hrólfur Bragi þarf að fara til dagmömmu. Jesús minn. Hvert fór þetta fæðingarorlof?? Ef ég eignast þriðja barn þá verð ég fjögur ár í orlofi.

Nú ætla ég að leggjast og lesa og kreista síðustu dropana úr orlofinu. Á fimmtudag byrjar aðlögunin hjá Hrólfi og Jón Ómar er að byrja á golf námskeiði í dag eftir hádegi sem er út vikuna, nóg að gera með öðrum orðum.

Þar til næst (sem verður væntanlega eftir tvo mánuði miðað við tempóið hér inni)

Skottúr

Í gær kíktum við í heimsókn í útilegu hjá tengdó, ég er ekki alveg tilbúin að sofa (eða frekar að sofa ekki) með Hrólf Braga í tjaldi þannig að við keyrðum aftur heim um kvöldið. Það stakk mig samt svolítið í hjartað að þurfa að taka Jón Ómar heim sem var sko ekki á þeim buxunum. Það er strax orðið þannig að Jón Ómar nennir sjaldan að leyfa mér að taka myndir af sér þannig að minnsti maðurinn fær að vera oftar fyrir framan myndavélina.

Það var ekkert merkilegt veður þegar við komum en það rættist heldur betur úr því og þetta tjaldstæði er eitt það besta á landinu, umhverfið er yndislegt og það er alls ekki pakkað þarna. Ísland í góðu veðri er óviðjafnanlegt, bara verst hvað það gerist sjaldan. Mér finnst það mjög óspennandi að vera eins og í síldartunnu á tjaldstæði, nánast ofan í næsta manni. Húsbýla/hjólhýsa “garðurinn” á Flúðum er örugglega áhugavert rannsóknarefni… En við ætlum nú samt að fórna okkur einhvern tímann í sumar í útilegu fyrir Jón Ómar, maður verður þá bara að stíla sig inn á það að sofa ekkert, haha… Í næstu viku byrjum við í sumarfríi og við ætlum að byrja fríið á að fara eina viku í bústað. Ég er búin að panta gott veður og ég ætla að vera dugleg við að fara út að hlaupa og svo ætla ég líka að vera dugleg að borða góðan mat og drekka góð vín.

Heyrumst.

Instagram innblástur og Brikk

Ég vista stundum instagram myndir til þess að geta litið á þær aftur seinna. Ég elska sixties stílinn sem er að koma aftur í innanhússhönnun (húsið á síðustu myndinni er í Palm Springs og er algjör draumur). Ég hef tekið eftir því að fólk hér heima er meira að halda í þennan stíl þegar það kaupir hús frá þessum tíma og ég elska það. Myndin sem ég tók af Instagraminu hans Valentino varð ég bara að vista þar sem hann er með Maximu prinsessu Hollands, fallegri og glæsilegri kona er vandfundin. Ég hló svolítið mikið af “otter space” gríninu og svo ætla ég einhvern tímann að bjóða upp á Moët rosé með svona cotton candy skreytingu.

Rétt í þessu var ég að klára að borða súrdeigsbrauð frá Brikk í Hafnarfirði, súrdeigsbrauð með möndlum og hunangi! Úff svo gott. Ég náði góðum labbitúr eftir að ég fór með Jón Ómar á leikskólann og Hrólfur sefur enn í vagninum. Nú erum við farin að leggja hann inn í kringum 20 leytið á kvöldin og hann sofnar á 5 mínútum og sefur til ca. 8 á morgnana með einu pela “vakni”… allt í einu eigum við Svenni mikinn frítíma á kvöldin, það er eitthvað sem þarf að venjast 😉

 

Miðnæturhlaup!

Morgunmaturinn (ég missti mig aðeins í berjakaupum í Costco í gær) ég var búin með eggin!
Vúhú! 
Sönnunin 😉

 

Ég er ennþá pínu “high” eftir hlaupið í gær, vá vá vá hvað þetta var GAMAN. Það er fátt sem að toppar það að hlaupa við góðar aðstæður með góða tónlist í eyrunum. Ég hugsa að ég verði nú að skrá mig í 10 km í Reykjavíkur maraþoninu og reyna að bæta þennan tíma. Ég og Líf vinkona sem hlupum saman fórum í Laugardalslaugina eftir hlaupið og svo opnaði ég eina rauðvín þegar ég kom heim og slappaði svo aðeins af, dásamlegt! Ég svaf síðan til 10 í morgun, langt síðan það hefur gerst skal ég segja ykkur. Nú er ég búin með annan kaffibollann og ætla ég að fara að gera eitthvað af viti hér heima, heyrumst.

Mini myndataka

 

Hrólfur Bragi 6 og hálfs mánaðar gamall.

 

Það var mjög lítið um veikindi hjá okkur í vetur, svo kom vorið og ég hugsaði með mér að nú værum við hólpin. Einmitt. Nú er Jón Ómar lasinn og ég krossa alla putta og tær að Hrólfur Bragi sleppi… Hann hefur aldrei orðið lasinn nema þegar hann fékk hlaupabóluna. Hann verður eflaust lasinn núna þar sem ég er búin að segja þetta.

Þannig að núna snúast dagarnir um að þjónusta þessa litlu menn. Gefa að borða, skipta á bleyjum, mæla, gefa meðal, skipta um stöð á sjónvarpinu…Á morgnana klæði ég mig í eitthvað sem er hendi næst og svo allt í einu er komið kvöld. Ég var eitthvað extra lengi að svæfa Hrólf í vagninum sínum áðan (típískt þegar Jón Ómar bíður inni) þannig að það fengu þó nokkrir að sjá undirritaða ganga fram og tilbaka fyrir framan húsið mitt í birkenstock inniskóm, velúrbuxum (ekki spyrja mig hvar ég fékk þær) og grænum síðum regnjakka. Mig langaði að stoppa þá sem gengu framhjá mér og segja þeim að ég væri ekki almennt svona mikill haugur.

Mér líður eins og ég sé tifandi tímasprengja hvað veikindi varðar því ég hef verið mjög dugleg að grípa pestir undanfarið. Á föstudaginn er miðnæturhlaupið og á laugardaginn ætla ég að hitta vinkonur og ég bara má alls alls ekki verða veik.

Annars þá reyni að smella nokkrum “betri” myndum af Hrólfi af og til þó ég sé ekki nógu dugleg að því. Það er ekki mikið mál allavega að fá hann til að brosa í myndavélina. Litli músarindill.

Heyrumst.