Mánudagur halleluja!

Nokkrar myndir frá laugardeginum…

***

Þessi mánudagur er sérstaklega velkominn. Svenni er kominn heim og fór með Jón Ómar í leikskólann í morgun í fyrsta sinn í tvær vikur! Maí ætlar sem sagt að fara að mestu í veikindi því ég er enn lasin síðan á föstudag. Mér finnst ég hafa verið meira og minna inni í maí, ég kannski hef skroppið aðeins í ræktina eða eitthvað örstutt en engin útivera og engir göngutúrar þannig að ég er orðin pínu buguð á ástandinu. Það gekk alveg ágætlega að vera ein með strákana um helgina og hefði auðvitað gengið vel ef ég hefði ekki verið lasin, þó það sé mikil vinna að vera ein með þá gengur það samt vel en það er samt erfitt að vera til staðar fyrir báða strákana öllum stundum. Uppáhalds tíminn var að leggjast upp í rúm með Jóni Ómari og horfa aðeins á “vitleysu” í ipadinum, hann er svo notalegur og kyssir mann og knúsar, “vitleysa” er sem sagt Fail army myndbönd á youtube sem Jón Ómar hefur mjög gaman af. Ég var einfaldlega of þreytt og löt til að svæfa hann í sínu herbergi og lesa fyrir hann, pabbi hans gerir það annars alltaf.

Ég gat eiginlega ekkert notið blíðunnar um helgina því það er ekkert sérstakt að vera í sólinni þegar maður er sjálfur með hita. Ég ákvað samt að fara með systrum mínum í smá rúnt í Friðheima og Slakka á laugardaginn, systir mín keyrði og ég gat dottað aðeins í bílnum. Við fengum okkur dásamlega tómatsúpu í Friðheimum en vorum við það að bráðna inni í gróðurhúsinu. Núna ætla ég að krosa alla putta og tær og vona að þessi flensa fari sem allra, allra fyrst. Í vorkunn og volæði í gærkvöldi pantaði ég mér blómakjól á asos, mjög ó-Ástríðarlegur, en ég var undir áhrifum veðurblíðunnar… Ég hlakka samt til að fá hann, kannski er hann hræðilegur, kannski ekki.

Heyrumst.

Frekir fullorðnir

Ég get ekki betur séð en að allar bólurnar á Jóni Ómari séu þornaðar þannig að við skelltum okkur í húsdýragarðinn í tilefni dagsins, fyrsta ferð Hrólfs Braga í þennan (ó)merkilega garð.

Yndislegur dagur og loksins er strákurinn minn að jafna sig, húrra! Hrólfur Bragi var ekki til í að leggja sig lengi í morgun þannig að ég pakkaði heimilinu saman í þennan mömmu bakpoka sem ég er með á myndinni og við skelltum okkur í húsdýragarðinn til að viðra okkur aðeins. Ég er reyndar með (að ég held) vöðvabólgu út um allan líkamann og illt í mjóbakinu þannig að ég er ekki að farast úr hressleika en vonandi jafnar þetta sig áður en ég verð mjög pirruð. Ég set í titilinn á blogginu “frekir fullorðnir” því mér finnst stundum fullorðið fólk mega bera meiri virðingu fyrir börnum. Við fórum í kaffiskálann í húsdýragarðinum og ég gaf strákunum að borða, Jón Ómar vildi svo kaupa sér ís þannig að ég lét hann hafa 500 kr. og sagði honum að fara og kaupa sjálfur (í fyrsta sinn sem hann gerir það) hann beið fyrir framan kassann mjög þolinmóður með seðilinn sinn mjög spenntur og svo þegar afgreiðslustúlkan var búin að afgreiða fólkið fyrir framan þá frekjast fullorðin kona fyrir framan Jón Ómar og það var ekki eins og hún hefði ekki séð hann.

Annars er nú mest lítið að frétta. Jú ég keypti baðvog í gær til að geta fylgst almennilega með hinu gríðarlega þyngdartapi sem framundan er hjá mér. Jón Ómar hefur mjög gaman af því að fara á vigtina og gerði það í morgun og vó heil 21,9 kg. Hann bað mig síðan að fara á vigtina sem ég gerði og sagði honum hvað ég var þung (og sem ég ætla ekki að segja ykkur) og viðbrögðin voru “vá það er rosalega mikið”. Ég svaraði “já finnst þér það? pabbi þinn er þyngri” hehe…

Jæja fleira var það ekki í bili. Heyrumst.

Einstæð í fjóra daga

Hér sitjum við Jón Ómar í þessum töluðu, hann í super mario (það verður ipad detox þegar þessi hlaupabóla er búin) og ég að blogga. Ég hata eiginlega þennan ipad og við Svenni erum vanalega mjög ströng á að leyfa Jóni Ómari að vera í honum. Okkur finnst hann verða æstur og ekki líkur sjálfum sér ef hann er mikið í þessu. En núna í veikindunum hefur ipadinn náð að dreifa huga hans frá kláðanum og hefur bjargað okkur mikið.

***

Enn einn dagurinn heima við og ég efast um að Jón Ómar fari í leikskólann fyrr en á mánudaginn. Ég verð síðan ein með strákana frá og með morgundeginum og fram á sunnudag þannig að það er bara að gíra sig inn á það. Verst að ég missi af uppáhalds tímanum mínum í ræktinni á laugardaginn, ég er loksins komin í gírinn í ræktinni og finnst það dásamlegt! Hnén eru reyndar aðeins að stríða mér en ég vona að það lagist fljótt.

En jæja ég ætlaði að gera 100 hluti á meðan Hrólfur Bragi sefur þannig að það er best að fara að byrja á þeim. Ég ætla alltaf að gera svo mikið á meðan hann sefur að ég fæ athyglisbrest og veit ekki hvar á að byrja, haha, er ég sú eina sem er svona?

Jæja við heyrumst.

Nýtt barborð og letihaugar

Ég datt í lukkupottinn í gær! Ég hef farið í Góða hirðinn kannski þrisvar eða fjórum sinnum en aldrei fundið neitt merkilegt þannig að ég ákvað í gær að like:a síðuna þeirra á FB til að geta fylgst betur með og þá mælti FB með öðrum nytjamarkaði þannig að ég skoðaði síðuna þeirra og sá skenk sem mér leist frekar vel á. Þegar ég kom á staðinn og sá skenkinn þá leist mér ekki nógu vel á hann en á leiðinni út sá ég þetta hjólaborð falið undir einhverjum ljótum speglum og ég öskraði pínu inni í mér af ánægju. Ég er búin að vera að leita að svona borði frekar lengi og ekki skemmdi fyrir að það kostaði bara 2.500 kr. Núna verð ég að fara á pinterest og fá hugmyndir hvernig sé flottast að raða á svona borð. Og svo verð ég auðvitað að fara í ríkið og fylla á það 😉

Ég smellti nokkrum myndum af Hrólfi Braga en við vorum ein að dunda okkur frá 8-9 í morgun á meðan stóri bróðir svaf. Við erum orðin frekar löt á morgnana og Jón Ómar er loksins farinn að sofa lengur þegar hann sofnar seint, áður þá vaknaði hann alltaf 7 eða 7.30 þó hann færi seint að sofa. En ég hlakka mikið til þegar Jón Ómar getur farið í leikskólann aftur, þessa daga erum við bara heima því það er auðvitað lítið hægt að fara með hr. hlaupabólu þó að bólurnar séu að hverfa hægt og rólega. Dagarnir eru því frekar rólegir og nánast einu samskiptin við umheiminn eru í gegnum Facebook og Instagram. En þetta gengur yfir eins og allt annað. Ég er samt strax farin að hlakka til að mæta í ræktina kl. 18.15 í kvöld (p.s. bestu hóptímarnir eru í Hress!) og fá smá útrás.

Þar til næst.

Mjólkurlaus

Mig langaði að prófa að taka út allar mjólkurvörur og sjá hvaða áhrif það hefði, aðallega hormónalega séð, en ekki verra ef það hefur önnur góð áhrif líka. Það truflar mig í rauninni ekki mikið að taka út mjólkurvörur, ég er strax búin að venjast svörtu kaffi og ég er dugleg að gera mér búst. Einu skiptin sem ég fæ mér mjólkurvörur er þegar ég hreinlega gleymi mér. Í gær eldaði Svenni lambafillet og ég prófaði að gera einhverja paleo sósu, með kókosmjólk, gúrku, dilli og fleiru en mér fannst hún ekki nógu góð þannig að ég verð að prófa mig áfram.

Ég er allavega spennt að sjá hvað þetta mjólkurleysi hefur í för með sér, ég finn allavega strax að ég er að velja hollari mat, eins og t.d. hrökkbrauðið hér að ofan sem er mun næringarríkara en AB mjólkin sem ég fékk mér á morgnana áður.

Heyrumst.

Gegnum glerið í Ármúla


Elsku Unnur systir kom færandi hendi í gær með þessar fallegu liljur til að lífga aðeins upp á tilveru mína, haha ❤ 

Hér er hlaupabólan sem betur fer í rénun, jesús minn hvað elsku Jóni Ómari mínum hefur liðið illa 😦 þetta var sko ekki vægt tilfelli af hlaupabólu. 

En mig langaði að tala um þessa fallegu silfurlituðu “kertalukt” frá Lambert sem ég fékk í þrítugsafmælisgjöf frá ömmu og afa Svenna. Ég elska skrautmuni sem eru svolítið einstakir og eru ekki til á mörgum heimilum, svo er ég líka hrifnari af því að hafa fáa stærri hluti en marga litla. Ég mæli með versluninni Gegnum glerið í Ármúla ef þið viljið kaupa ykkur svona aðeins öðruvísi skrautmuni. 

Núna klæjar mig í puttana því mig langar svo að mála stofuna í öðrum lit og breyta aðeins til. Helst af öllu langar mig að kaupa einbýli hér í norðurbænum sem er ekta sixties hús sem ekkert hefur verið gert við, mig grunar að þau séu þó nokkur hér í nágrenninu en engin á sölu og ekkert sem ég hef efni á í augnablikinu. Ég elska þennan retró stíl og þegar fólk heldur stílnum og gerir svona hús upp af virðingu við þetta tímabil. En jæja nóg um þetta, hér þarf lítill maður að komast út í vagninn sinn. Heyrumst. 

Köben kaup

Þessi polo peysa var ást við fyrstu sýn og ég varð að eignast hana þegar ég fór til Köben. Þetta er nú ekki beint minn stíll samt, ég kaupi aldrei neitt rautt til dæmis en þessi peysa var undantekning. Ég hlakka til þegar hlaupabólan gengur yfir og ég get gert mig fína og notað nýju peysuna mína 😉